Þjóðskrá og almannaskráning

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 14:20:33 (6486)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðskrá og almannaskráning.

566. mál
[14:20]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki hafa séð sér fært að vera viðstaddur þessa umræðu í dag. Það hefði verið ágætt ef hann hefði verið hér, hann hefði t.d. kannski getað svarað þessari spurningu eða tekið þátt í umræðum um þetta, því ég hygg að það sé alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra bendir á að mörg af þeim verkefnum sem í dag heyra undir dómsmálaráðuneytið og eru unnin á höfuðborgarsvæðinu væru kannski betur sett úti á landi.

Það er ástæðan fyrir því að ég kem hér upp, til að vekja athygli á þessum fleti á málinu. Mér finnst þetta vera ágætt tækifæri til að endurvekja þessa umræðu og að stjórnvöld fari nú að sýna í verki að þau meini eitthvað með öllu því sem þau hafa sagt mörg undanfarin ár, því niðurstaðan er því miður sú, eins og svarið sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson fékk frá fjármálaráðherra, að það er afskaplega lítið á bak við allan orðaflauminn og loforðin sem hafa gengið út á það að flytja störf á vegum ríkisins út á landsbyggðina. Tölur og staðreyndir sýna að nánast öll fjölgun starfa á vegum hins opinbera hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að á þessum tíma tölvutækni þar sem samgöngur eru alltaf að verða betri þá er falin mjög mikil mótsögn í þessu. Þarna er virkilega komið tækifæri sem við ættum að notfæra okkur til þess að stinga stoðum undir byggðirnar úti á landi, skapa þar störf, góð, örugg og trygg störf, þokkalega borguð handa fólki sem hefur sæmilega menntun, ekki síst handa konum. Störf úti á landsbyggðinni, það er það sem við þurfum að vinna að.