Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 15:26:17 (6505)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Virðisaukaskattur.

624. mál
[15:26]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að tala um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Ég kem hér að ákveðnu máli, þ.e. um virðisaukaskatt af lyfjum. Ég bar fram þá fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkru hvað það mundi þýða í tekjutap ef virðisauki af lyfjum yrði lækkaður í 14 eða 7%. Út úr því dæmi kom að það mundi spara eldri borgurum og barnafjölskyldum nokkur hundruð milljónir króna á ári, tel ég, ef virðisauki af lyfjum yrði lækkaður. Að mínu mati getur enginn neitað því, held ég, að eldri borgarar og barnafjölskyldur eru stærstu kaupendur að lyfjum hér á landi þannig að ég mundi leggja til að lækkun á virðisaukaskatti yrði alvarlega skoðuð við næstu fjárlagagerð.