Staðan í hjúkrunarmálum

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 10:32:57 (6885)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:32]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna stöðunnar í hjúkrunarmálum hér á landi. Í gær greip ófaglært starfsfólk á átta hjúkrunarheimilum til aðgerða til að vekja athygli á kröfum sínum um bætt launakjör og hátt í 900 manns tóku þátt í aðgerðunum. Þetta fólk fer fram á sambærileg kjör og fólk er með í sambærilegum störfum hjá Reykjavíkurborg.

Laun þessara starfsmanna eru á bilinu 105 þús. kr. til 130 þús. kr. á mánuði fyrir skatt. Starfsfólk Reykjavíkurborgar í sambærilegum störfum er með 22 þús. kr. til 25 þús. kr. hærri laun. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. fjármálaráðherra, sérstaklega í ljósi þess að í Morgunblaðinu í morgun segir aðstoðarmaður hans að ekki standi til að endurskoða þjónustusamninga við hjúkrunarheimilin. Það á því greinilega ekki að bregðast við þessum vanda.

Í gær fengu aldraðir á hjúkrunarheimilum mjög skerta þjónustu í einn dag en aðgerðir eru boðaðar í tvo daga í næstu viku. Það er dýrt að greiða lág laun fyrir þessi umönnunarstörf. Sú mikla umsetning sem þarf til að setja stöðugt nýtt fólk inn í störfin er kostnaðarsöm. Þeir starfsmenn sem sinna umönnun aldraðra eru ekki síður dýrmætt starfsfólk en t.d. læknar eða aðrar hjúkrunarstéttir því án þeirra er ekki hægt að veita öldruðum hjúkrunarsjúklingum nauðsynlega þjónustu. Forsætisráðherra er hérna viðstaddur og ég vonast til þess að hann og fjármálaráðherra taki á þessu máli þannig að komið verði í veg fyrir ófremdarástand í öldrunarþjónustunni. Það er ekki hægt að bæta kjörin nema endurskoða þjónustusamningana og án þess er rekstur heimilanna í algeru uppnámi og óvissu. Nú þegar er skortur á fólki til að annast aldraða á stofnununum og þó nokkuð af rúmum standa auð á sama tíma og 350 aldraðir bíða í brýnni þörf eftir þjónustu.