Staðan í hjúkrunarmálum

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 10:35:16 (6886)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég var nokkuð hissa þegar hv. málshefjandi fór fram á að ég yrði til andsvara í umræðu um þetta málefni því a.m.k. miðað við það sem ég get séð af fréttum um málið, ég hef reyndar mestar upplýsingarnar um það úr fréttum fjölmiðlanna, þá er hér um að ræða hjúkrunarheimili sem rekin eru af einkaaðilum. Þarna eiga í hlut einkafyrirtæki og það eru starfsmenn þeirra fyrirtækja sem eru að knýja á um betri kjör.

Hins vegar vill nú þannig til að þessir starfsmenn eru með kjarasamning sem er í gildi, fram til ársins 2008 ef ég man rétt, þannig að þeir starfsmenn sem þarna eiga hlut að máli eru ekki starfsmenn sem fjármálaráðuneytið hefur samið við eða eru í einhverju samningssambandi við fjármálaráðuneytið. Hins vegar er það auðvitað svo að þessar stofnanir veita þjónustu samkvæmt ákveðnu samkomulagi og fyrirkomulagi við hið opinbera og ríkið greiðir þeim ákveðið fyrir þá þjónustu samkvæmt reiknilíkönum sem um það hafa gilt og heilbrigðisráðuneytið fer með og þessi starfsemi heyrir að sjálfsögðu á faglega sviðinu undir heilbrigðisráðuneytið. Síðan kemur til kasta fjármálaráðuneytisins og Alþingis þegar fjárveitingar eru ákveðnar til ramma heilbrigðisráðuneytisins og hvernig því er síðar skipt. En þrátt fyrir að þetta sé svona í pottinn búið þá er ég ekki að segja að málið sé mér óskylt en mér finnst ég reyndar vera frekar eins og fjarskyldur ættingi en að ég standi ábyrgur fyrir þeim samningum sem þessir starfsmenn, frú forseti, og þessi fyrirtæki gera sín á milli.