Staðan í hjúkrunarmálum

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 10:37:39 (6887)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það þarf engan að undra að ófaglært starfsfólk á dvalar- og hjúkrunarheimilum hafi gripið til þess ráðs að fara í svokallað setuverkfall vegna þeirra launakjara sem það býr við. Vissulega bitnar þetta með miklum þunga á öldruðum sem nóg hafa mátt þola af höndum þessarar ríkisstjórnar í aðbúnaði og kjörum. En við hverja er að sakast? Ekki við starfsfólkið heldur fyrst og fremst stjórnvöld sem eru að hrekja þetta fólk út af heimilum aldraðra með sveltistefnu sinni og ekki bara sveltistefnu í kjörum heldur líka ótrúlegri skattpíningu á þessa hópa sem hvergi er að finna samjöfnuð við í allri Íslandssögunni. Þessi smánarkjör eru orðin óþolandi og vinnuálagið á þetta starfsfólk er alveg gífurlegt.

Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki komið sér undan ábyrgðinni vegna þess að þessi heimili eru rekin á kostnað ríkisins með þjónustusamningum. Skilaboð hæstv. fjármálaráðherra til þessa fólks í Morgunblaðinu í dag eru því nöturleg en þar sendir hann þeim þá köldu kveðju að hann hyggist ekkert gera í málinu og með því bera ábyrgð á verri aðbúnaði aldraðra og að starfsfólk muni hverfa frá þessum störfum. Fjármálaráðherra hefur gefið þessu fólki langt nef en það er spurning hvort hæstv. heilbrigðisráðherra muni gera það sama. Hæstv. heilbrigðisráðherra og Framsóknarflokkurinn telja sig a.m.k. í orði kveðnu vilja setja fólk í fyrirrúm og ég skora því á hæstv. heilbrigðisráðherra að fylgja fordæmi Reykjavíkurborgar sem undir forustu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur bætti svo um munar kjör umönnunarstétta hjá Reykjavíkurborg en þetta fólk er einungis að fara fram á sömu laun fyrir sömu störf. Og það þýðir ekki fyrir hæstv. fjármálaráðherra að koma í ræðustól og reyna að víkja sér frá ábyrgð í þessu máli og mér heyrðist ekki betur en hann væri líka að kasta henni yfir til heilbrigðisráðherra. Það er því nauðsynlegt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi í stólinn til að við fáum að heyra hvort hún ætli að axla ábyrgð á því og hvort hún ætli að beita sér fyrir því að þessir þjónustusamningar verði teknir upp þannig að það sé hægt að semja við þetta fólk á þessum smánarkjörum.