Staðan í hjúkrunarmálum

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 10:40:50 (6889)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:40]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Eins og staðan er núna er slæmt ástand á hjúkrunarheimilum í landinu, ástand sem snertir þúsundir fjölskyldna. Þetta er sömuleiðis ástand sem snertir sérstaklega klassíska kvennastétt en yfir 90% þeirra sem vinna þessi störf eru konur. Þetta sýnir áherslu núverandi ríkisstjórnar á að bæta kjör þessarar kvennastéttar.

Rót vandans er að sjálfsögðu úrelt daggjaldakerfi og það er á ábyrgð hins opinbera og það er með ólíkindum að hlusta á hæstv. ráðherra heilbrigðismála og síðan fjármálaráðherra vísa hvor á annan. Hver ber ábyrgð á þessu? Getur ekki ríkisstjórnin komið sér saman um hver ber ábyrgð á þessu úrelta daggjaldakerfi?

Komið hefur í ljós hjá Ríkisendurskoðun að það þarf að skoða forsendur daggjaldanna betur og að hið svokallaða RAI-mat sé ekki tengt við mönnunarforsendur og aðra þætti. Það kom sömuleiðis fram frá fulltrúum í heilbrigðisráðuneytinu á fundi heilbrigðisnefndar í haust að núverandi daggjaldakerfi skapaði þá freistingu fyrir öldrunarheimili að hafa frekar fleiri en færri á heimilunum. Þetta er annar angi af þeim vanda sem er á bak við þetta kerfi.

Síðan blasir líka við að helmingur allra hjúkrunarheimila í landinu eru rekin með halla en þrátt fyrir það hefur hæstv. heilbrigðisráðherra sagt, nú síðast í utandagskrárumræðu sem ég kallaði eftir 8. nóvember sl. um aðbúnað og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum, að ekki kæmi til greina að endurskoða daggjaldakerfið. Það var enginn pólitískur vilji hjá hæstv. ríkisstjórn til að bæta þessa stöðu. Það þurfti samfylkingarmann í borginni til að bæta stöðu umönnunarstétta hjá borginni og það er alveg ljóst að væntanlega þurfi samfylkingarmann í Stjórnarráðið til að geta bætt stöðu bæði aldraðra og umönnunarstétta því að þessir hópar eru augljóslega ekki ofarlega í forgangsröð núverandi ríkisstjórnar. Þess vegna þurfum við nú breyta til því að við sjáum að báðir ráðherrarnir eru gersamlega rökþrota og benda hvor á annan.