Staðan í hjúkrunarmálum

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 10:51:22 (6894)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það sem er úrelt — hv. þingmenn ættu að gera sér grein fyrir því að það er úrelt og ég heyri ekki annað í málflutningi alla vega sumra þeirra hér í síðustu viku, sérstaklega 1. talsmanns Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, Einars Más Sigurðarsonar, en að þeir geri það — er að forstöðumenn fyrirtækja hlaupi frá ábyrgð sinni og hlaupi til ríkisins og ætlist til þess að ríkið bjargi þeim þegar þeir hafa gert samninga sem þeir geta ekki staðið við. Það er úrelt. Ef við ætlum að ná þeim árangri að við getum staðið við þau fjárlög sem ákveðin eru af hv. Alþingi þá vinnum við ekki þannig. Ég hef verið hvattur til þess, sérstaklega af 1. talsmanni Samfylkingarinnar í fjármálum ríkisins, að standa við fjárlögin og fylgja þeim vel eftir. (Gripið fram í.) Ég heyri hins vegar að annar talsmaðurinn er á annarri skoðun núna þó að hann hafi fyrir jólin hvatt til meira aðhalds í fjárlögunum en hann taldi sig sjá þá. Þannig er nú málflutningurinn í þessu.

Það eru einkafyrirtæki sem sjá um þessa þjónustu og það eru þau einkafyrirtæki sem hafa samið við þessa starfsmenn sína. Ríkið og fjármálaráðuneytið hefur ekki samið við þessa starfsmenn.

Ef hins vegar, eins og maður sér örla á í þessari umræðu, forstöðumennirnir eru óánægðir með það samkomulag sem í gildi er á milli þeirra og ríkisins um daggjöldin þá snúa þeir sér til þess ráðuneytis sem með þau mál fer, sem er heilbrigðisráðuneytið, og óska eftir að því verði breytt. Þá munum við vinna úr því eftir því sem efni og ástæður eru til. Þannig er verkaskiptingin í Stjórnarráðinu og þannig hefur hún verið um langt árabil og það þarf engum að koma á óvart hver hún er. Það er úrelt þing að hlaupa upp þegar svona mál ber á góma og ætla bara að opna ríkiskassann og leysa málið með því að (Forseti hringir.) fjármálaráðherra skrifi enn einn tékkann. Þannig (Forseti hringir.) stöndum við ekki við fjárlögin sem hv. Alþingi ákveður. (Gripið fram í.)