Aukning á skuldum þjóðarbúsins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 10:59:37 (6896)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[10:59]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þegar rætt er um skuldir einstaklinga, skuldir þjóðarbúsins, skuldir bankanna þá er óhjákvæmilegt að mínu mati að taka tillit til eignanna. Hv. þingmaður orðaði það þannig að ég afsakaði þessa stöðu með eignunum. Ég hef aldrei heyrt þetta fyrr og ég spyr hv. þingmann: Skiptir það ekki miklu máli fyrir einstaklinga, fyrir fyrirtæki, fyrir banka hvaða eignir eru á móti skuldunum? Ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli og það gleður mig því að ég hef aldrei vitað fyrr að efnahagsreikningurinn eða eignahlið efnahagsreikningsins væri nokkurs konar afsökunarbeiðni. Það er alveg nýtt fyrir mér.

Það liggur fyrir að það eru miklar skuldir við útlönd. Það er staðreynd. Það eru ekki skuldir ríkissjóðs. Ríkissjóður skuldar nú u.þ.b. 7,5% af þjóðarframleiðslu en fyrir tíu árum voru það 25%, eða sem nemur um 70 milljörðum kr. sem skuldirnar eru. Um þessar mundir á ríkissjóður um 80 milljarða inni í Seðlabankanum og gjaldeyrisforði Seðlabankans er svipuð fjárhæð. Það liggur því alveg ljóst fyrir að staða ríkissjóðs er mjög góð.

Heimilin í landinu skulda mikið, það er rétt. Samt er það staðreynd að á undanförnum fimm árum hafa eignir heimilanna í landinu aukist um 1.200 milljarða kr., nettóeignir heimilanna eða 12 milljónir á hvert heimili. Skuldir heimilanna af heildareignum eru um 35%. Það liggur líka fyrir að nettóeignir bankanna og eiginfjárstaða þeirra er miklu betri en hún var fyrir nokkrum árum. Umsvif bankanna hafa aukist mjög mikið og mjög mikill hluti þeirra umsvifa er erlendis. Þá má spyrja: Væri það betri staða fyrir íslenskt þjóðarbú ef þessir bankar væru ekki skráðir á Íslandi heldur erlendis? Það liggur náttúrlega í augum uppi að það væri ekki betri staða fyrir íslenskt þjóðarbú, það væri miklu verri staða. Þess vegna verður að tala um þetta í þessu ljósi, hv. þingmaður, þó að ég taki undir að það þurfi að sýna varfærni í þessum málum. Það þarf að sýna mikla varfærni í að auka þessar skuldir og það ber að vara alla einstaklinga við því að stofna til mikilla skulda. Það sama á við um bankana og það sama á við um fyrirtæki en auðvitað skiptir meginmáli til hvers þær skuldir eru notaðar. Ef þær eru notaðar til eyðslu þá er það mjög slæmt. Ef þær eru notaðar til skynsamlegra fjárfestinga þá er það nauðsynlegt fyrir þjóðarbúið og verðmætasköpun okkar.

Ég hef tekið undir það að bæta þurfi upplýsingar um þessa stöðu og ríkisstjórnin er fyrir sitt leyti bæði tilbúin og telur nauðsynlegt að taka þátt í því og við höfum rætt það við bankana. Ég tel hins vegar út i hött að fara að setja einhverjar kvaðir á innlánsstofnanir um nettóskuldastöðu við útlönd. Ég vænti þess að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því að við erum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og við höfum samið um frjálsa fjármagnsflutninga á þessu svæði. Ég veit ekki til þess að áhugi sé á því á hv. Alþingi að fara að loka fyrir það og segja upp samningum um frjálsræði á þessu sviði.

Hvað það varðar að afnema verðtryggingu þá er verðtryggingin á vissan hátt gölluð. Hins vegar er mjög erfitt að afnema verðtrygginguna við þau skilyrði sem núna eru, þær miklu sveiflur sem eru í þjóðfélaginu. Ef taka á upp gengistryggingu í staðinn liggur náttúrlega fyrir að lán yrðu að meira eða minna leyti í erlendri mynt í stað þess að vera í íslenskum krónum. Til lengri tíma litið þá er ég þeirrar skoðunar að stefna beri að því að afnema verðtrygginguna en við þau skilyrði sem núna eru sé ég ekki að forsendur séu til þess.