Aukning á skuldum þjóðarbúsins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 11:09:26 (6899)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um skuldastöðu þjóðarbúsins og stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum og ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að taka þetta mál upp.

Það sem er kannski einna alvarlegast varðandi skuldasöfnun þjóðarbúsins, heimilanna og atvinnufyrirtækjanna er hvað þær vaxa hratt nú á skömmum tíma eða um 1.000 milljarða á milli ára. Það er ógnvænlegt því að allar slíkar stökkbreytingar lýsa ótryggu ástandi, þær lýsa ekki stöðugleika. Það sama gerðist í morgun þegar Seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti sína um 0,75 punkta eða í 11,5%, en þetta er þrettánda vaxtahækkun Seðlabankans frá því í maí 2004. Það eitt staðfestir orð fyrrverandi seðlabankastjóra sem hann lét falla um að hér ríki ógnarjafnvægi í efnahagsmálum. Það er þetta fátæklega verkfæri Seðlabankans sem er bara stjórn stýrivaxta sem hann getur beitt þar sem honum er falið að halda niðri verðbólgu. Við þekkjum hvernig gengið hefur sveiflast. Það þetta ógnarjafnvægi, þessi óstöðugleiki sem ógnar öllu efnahagslífi, atvinnulífi, stöðu okkar og trúverðugleika í útlöndum. Það er þetta sem er hættulegt. Og þar ræður efnahagsstefna núverandi ríkisstjórnar sem hefur keyrt á ál, einhæfa atvinnu, álbræðslur og aftur álbræðslur og skattalækkanir á hátekjufólki. Það hefur verið grunntónn (Forseti hringir.) efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar og (Forseti hringir.) hún er stórhættuleg.