Aukning á skuldum þjóðarbúsins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 11:11:44 (6900)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Miklar lánveitingar bankanna innan lands eiga mikinn þátt í að halda uppi þenslu í landinu. Líklegt er að verðbólgan fari nú vaxandi samhliða breytingu og lækkun gengis íslensku krónunnar um 15% frá áramótum. Þó að sú aðlögun í gengismálum hafi verið nauðsynleg er ljóst að lán til almennings sem almennt eru verðtryggð hækka og greiðslubyrðin vex. Það tekur fljótt í afkomu fólks sem hefur verið í fasteignakaupum á mjög hækkandi fasteignamarkaði ef verðbólgan fer að nálgast tug prósentna.

Verðtryggingin er séríslenskt kerfi sem kominn er tími til að afnema. Bankarnir ættu ekki að þurfa bæði belti og axlabönd í verndun hagsmuna sinna. Það hefur verið mikill órói á hlutabréfamarkaðnum undanfarnar vikur og sýnt þykir að lánskjör bankanna erlendis verði á næstunni verri en þeim hefur boðist á síðustu árum. Það ætti að leiða til frekari varfærni í lánveitingum og væntanlega til hægt minnkandi lánveitinga innan lands. Skuldasöfnun er mikil í þjóðfélaginu og skuldir heimilanna hafa vaxið gífurlega síðustu ár og farið langt fram úr landsframleiðslu. Vandanum verður ekki drepið á dreif, hæstv. forsætisráðherra. Eignir á móti skuldum almennings eru vissulega til staðar eins og ástandið er nú m.a. vegna hækkandi fasteignaverðs. En fasteignaverð getur lækkað en skuldirnar fara varla lækkandi vegna þess. Það þarf að greiða skuldirnar, hæstv. forsætisráðherra, og það þarf mikla, trygga og stöðuga vinnu til að standa við þær skuldbindingar. Þess vegna eru varnaðarorð í þessum efnum afar nauðsynleg vegna þess að skuldirnar munu sitja eftir hvernig sem fasteignaverð þróast í landinu.