Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 11:36:31 (6909)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:36]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að Rarik hf., ef þetta frumvarp verður að lögum, verður í samkeppni við Hitaveitu Suðurnesja á smásölumarkaði. Rarik hf. mun verða þátttakandi á þessum smásölumarkaði og það geta ýmsar aðstæður komið upp á þeim markaði. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lýst yfir eindregnum vilja til þess að fyrirtækið verði sett í hlutafélagsformið. Starfsmenn fyrirtækisins hafa ekki sett sig upp á móti því og hafa lýst því yfir að um jákvæða breytingu sé að ræða, a.m.k. forustumenn starfsmannaráðsins sem komu á fund nefndarinnar.

Það er ljóst að starfsmenn Rariks, sem hafa unnið í áratugi hjá fyrirtækinu og vilja bæta þjónustuna við viðskiptaaðila sína, vilja að breytingin verði í þessa átt. Þeir telja að reksturinn verði sveigjanlegri og þeir geti veitt viðskiptavinum sínum betri þjónustu, sem eru rúmlega 49 þúsund. Síðan kemur hv. þingmaður upp og segir engin rök á bak við að ríkisstjórnarflokkarnir skuli leggja þessa tillögu fram, reyndar með stuðningi Samfylkingarinnar líka. Nú átta ég mig hreinlega ekki á því hver stefna Frjálslynda flokksins er í þessu málum.

En það er ljóst að starfsmenn sem hafa starfað í áratugi hjá Rarik, það er mjög lítil starfsmannavelta hjá fyrirtækinu, vilja að lagst verði í þessa breytingu. Ég verð að segja það að ég treysti starfsmönnum Rariks hf., ef þetta frumvarp verður að lögum, fyrir því. Ég tel að þeir viti betur en við hv. þingmenn hvað er fyrirtækinu fyrir bestu og hvernig þeir geti þjónað hagsmunum viðskiptamanna sinna. Ég treysti þeim fyllilega fyrir því.