Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 11:48:57 (6915)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:48]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er kostulegur málflutningur hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Nú hefur hann boðað það, ég skildi hann ekki öðruvísi, en hann vilji búta Rarik niður og þá til einstakra sveitarfélaga hringinn í kringum landið. Erum við þá að stuðla að því að hluti Rariks verði ekki einkavæddur ef búið er að framselja og búta það fyrirtæki niður í marga hluta? Er ekki vel mögulegt að ákveðnir aðilar geti komist til valda í ákveðnum sveitarstjórnum og einkavætt Rarik, þann hluta Rariks? Hvað er hv. þm. Jón Bjarnason að gefa í skyn? Ég held að hv. þm. Jón Bjarnason vilji að Rarik verði smám saman selt. Ég vil að Rarik verði í ríkiseigu, að við bútum það ekki niður hringinn í kringum landið þannig að það verði selt einkaaðilum.

Íslenskt raforkukerfi er að meginuppistöðu til, nær 100%, í eigu opinberra aðila og þar af langmest í eigu ríkisins og ég vil halda því þannig. Síðan kemur frjálshyggjupostulinn Jón Bjarnason og vill búta Rarik niður þannig að það verði mögulega þá einkavætt af mörgum aðilum hringinn í kringum landið (Gripið fram í.) og það er alveg ljóst og viðurkennt að Rarik sem eitt, stórt og öflugt fyrirtæki verður miklu betur í stakk búið til þess að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu heldur en margar aðrar minni einingar.

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. vísar til stefnu Framsóknarflokksins í einkavæðingu þá er ég mjög ánægður með markaðsvæðingu bankans og vel heppnaða sölu Símans. Það er verið að ráðast í mörg verkefni, m.a. á landsbyggðinni, sem við hefðum aldrei getað ráðist í og ég geri skýran greinarmun á því hvort verið er að markaðsvæða fyrirtæki í samkeppnisrekstri eða fyrirtæki sem eru að sýsla um náttúruauðlindir landsmanna. Framsóknarflokkurinn hefur talað alveg skýrt hvað þetta varðar, eins með sjávarauðlindina og lífríkið í sjónum að það sé bundið sem eign allra landsmanna í stjórnarskrá. Hér er grundvallarmunur á.