Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 12:21:39 (6917)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[12:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef rætt allítarlega við 2. umr. málsins um það lagafrumvarp sem nú er til umræðu, stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, og nú er komið að lokaumræðunni en í gær var gengið til atkvæða um einstakar efnisgreinar frumvarpsins.

Eins og fram kom við 2. umr. og síðan við atkvæðagreiðsluna í gær bárum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fram tillögu um að þessu máli yrði vísað frá. Við höfum mikið við þetta lagafrumvarp að athuga, við erum algerlega andvíg því að hlutafélagavæða Rarik, Rafmagnsveitur ríkisins, og höfum tilgreint ýmsar ástæður fyrir því.

Menn hafa nokkuð staðnæmst við eignarhaldið á Rafmagnsveitum ríkisins þegar fram líða stundir en það er athyglisvert að við umræðuna komu fjórar útgáfur úr stjórnarmeirihlutanum hvað það snertir. Í fyrsta lagi töluðu sjálfstæðismenn fyrir því að Rarik yrði selt ef fyrir fyrirtækið fengist skaplegt verð. Ef gott verð byðist fyrir Rafmagnsveitur ríkisins hf. þá ætti að selja þær. Í öðru lagi höfum við yfirlýsingar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra varðandi raforkugeirann almennt. Þegar Landsvirkjun var til umfjöllunar fyrir fáeinum mánuðum lýsti ráðherrann því yfir að það væri æskilegt að ríkið losaði sig út úr þeim rekstri, það væri eðlilegt að aðrir aðilar kæmu þar að máli og nefndi hún lífeyrissjóðina sérstaklega. Það eru með öðrum orðum enn uppi sjónarmið um sölu á raforkugeiranum.

Síðan eins undarlegt og það má hljóma kom fram þriðja útgáfan frá hv. formanni iðnaðarnefndar, talsmanni stjórnarmeirihlutans við umræðuna, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. Hann sagði að hann sæi framtíðina þannig fyrir sér að Rarik yrði að meiri hluta til í eigu ríkisins. (Gripið fram í: Alls ekki selt, sagði hann hér áðan.) Alls ekki selt, þannig að þar virðist hv. þm. Birkir Jón Jónsson vera í mótsögn við sjálfan sig ef hann hefur lýst því yfir áðan að það komi alls ekki til greina að selja Rarik þegar fram líða stundir. Ég skildi hann svo við 2. umr. að hann sæi framtíðina þannig fyrir sér að (BJJ: Það yrði ekki útilokað.) Rarik yrði að meiri hluta til í eigu ríkisins — og nú segir hv. þingmaður úr salnum að hann útiloki ekki slíkt. En nú er það bundið í lög. Í 3. gr. frumvarpsins segir að hlutaféð skuli allt bundið hjá ríkinu. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fór ágætlega yfir það áðan hvernig í niðurlagi athugasemdum með frumvarpinu er vikið að því að heppilegt sé að hlutafélagavæða fyrirtækið svo aðrir aðilar geti komið að því síðar. Það hafa því verið uppi ýmis sjónarmið. Þetta er náttúrlega fjórða sjónarmiðið sem kemur frá stjórnarmeirihlutanum, þ.e. það sem birtist í 3. gr. frumvarpsins þar sem segir að Rafmagnsveitur ríkisins eigi að vera að öllu leyti í eign almennings. Það hafa því komið fram misvísandi hugmyndir og upplýsingar um þetta.

Ég hef áður vikið að því að menn hafa staðnæmst ansi mikið við eignarhaldið og það er vissulega ástæða til að gera það. Ég hef hins vegar haldið því fram og við höfum gert það hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að deilan snúist ekki einvörðungu um þetta heldur skipti rekstrarformið einnig máli. Við höfum tekið undir með stjórnarmeirihlutanum og öðrum þingmönnum að að ýmsu þurfi að hyggja hvað varðar framtíðina, að gera Rarik gerlegt að athafna sig í nútíð og framtíð, en við teljum að slíkum markmiðum megi ná fram í öðru rekstrarformi. Við höfum bent á sameignarfélag, við höfum bent á byggðasamlag o.s.frv.

Kjarninn í málflutningi okkar er sá að ekki sé heppilegt að fara með þennan geira, þennan þjónustugeira yfir á markaðstorgið og virkja lögmál markaðarins einfaldlega vegna þess að við trúum því að það muni ekki skapast markaður þar sem kostir hans fái notið sín því auðvitað er markaðskerfið og lögmál markaðarins ágæt í sínu rétta samhengi. En reynslan sýnir erlendis frá að þegar um grunnþjónustu er að ræða á borð við vatn og rafmagn hafa markaðslögmálin ekki skilað árangri einfaldlega vegna þess að markaður hefur ekki myndast. Það hefur orðið til fákeppni, það hefur orðið til samráð, samráð og fákeppni, sem ekki hefur skilað neinum ávinningi til notandans, til neytandans nema síður væri. Raforka á Norðurlöndum fór upp úr öllu valdi eftir að rafmagnskerfið þar var markaðsvætt. Þá hækkaði rafmagnið. Fyrirtækjum í Svíþjóð hefur farið fækkandi, eignarhaldið hefur færst úr landi, til Finnlands og Þýskalands og samkeppnin hefur ekki skilað neinum árangri vegna þess að hún er ekki til staðar. Og það hefur komið fram í rannsóknarskýrslum sem bæði Bandaríkjamenn hafa gert í umhverfi sínu og Evrópumenn í sínu að neytendur, og það á bæði við um hinn almenna mann, einstaklinginn, fjölskyldurnar og um fyrirtækin, leggja iðulega upp úr öðru en verðlaginu einu, sem sveiflast frá degi til dags eða frá viku til viku. Lagt er upp úr örygginu að því leyti sem fólk yfirleitt leiðir hugann að þessu. Það kom fram í skýrslu sem hv. þm. Jón Bjarnason vitnaði til í Bandaríkjunum, að þar spurðu menn fyrst og fremst um hvort ljósið kviknaði. Menn liggja ekki með verðskrár að rýna ofan í þær á hverjum morgni til að vita hvar hægt er að fá raforkuna ódýrasta keypta þann daginn og þegar allt kemur til alls er ekki ýkjamikill verðmunur einfaldlega vegna þess að þau fyrirtæki sem á annað borð eru á markaði hafa iðulega samráð sín í milli. Þetta er alþekkt varðandi vatnsveiturnar þar sem heilu þjóðlöndunum og borgum hefur verið skipt upp á milli fyrirtækjanna sem síðan hafa samráð sín í milli. Ég vék að fyrirkomulaginu í Frakklandi og annars staðar hvað þetta snertir.

Auðvitað má segja að hægara sé um vik að virkja markað í raforku en í vatni. Þar er það náttúrlega svo fráleit hugsun að varla tekur því að ræða hana en það er reynt að hrinda henni í framkvæmd með markaðsvæðingu vatnsins. Í vatninu liggur ein leiðsla inn í hvert heimili og það er ekki svo ýkja auðvelt að skipta um þær. Menn eru því fangar hjá því fyrirtæki sem hefur fengið það svæði til ráðstöfunar. Engu að síður eru menn að tala um kosti markaðsvæðingar á vatni.

Hæstv. forseti. Þannig er þessu líka varið að verulegu leyti hvað rafmagnið snertir. Örfá fyrirtæki hafa skipt markaðnum upp sín í milli og hafa síðan samráð. Ég hef vísað í ummæli talsmanns Evrópusambandsins sem var hér á ferð fyrir fáeinum vikum og hann sagði að það hefði valdið mönnum undrun og áhyggjum að hve litlu leyti markaðurinn hefði virkað í raforkunni. Aðrar skýrslur sýna að mjög lítil verslun á sér stað milli ríkja. Við erum að fá umfjöllun og álitsgerðir víðs vegar að úr Evrópu þar sem talsmenn stjórnmálanna, bæði frá hægri og vinstri, lýsa efasemdum um það fyrirkomulag sem þeir sjálfir hafa verið að smíða.

Það er grunnhugsunin í afstöðu okkar að líta eigi á þessa grunnþjónustu, raforkuna, vatnið, skolpið, sem þjónustu en ekki sem markaðsvöru. Því eigum við að reyna að hlúa að henni sem slíkri og búa henni rekstrarform sem er í samræmi við þessar óskir okkar. Við skulum ekki gera lítið úr því hverju Íslendingar hafa náð fram og Evrópuþjóðir og heimurinn allur þegar menn hafa virkjað þætti eins og samvinnu fólks, samvinnu í stað þess að menn þurfi að bítast um alla hluti og keppa um alla hluti. Samvinna getur nefnilega skilað árangri. Við eigum mjög góð fyrirtæki í vatninu, í rafmagninu og við eigum að þróa þau áfram í stað þess að ýta þeim yfir á annan markað.

Við höfum smám saman verið að taka starfsemi, við segi ég, stjórnvöld hafa verið að taka starfsemi sem byggð hefur verið upp af hálfu samfélagsins og færa hana yfir á markað. Símafyrirtækin hafa farið þá leið og pósturinn. Við bjuggum við ágætt fyrirkomulag, sambýli pósts og síma, sem hentaði landinu öllu ágætlega. Þetta var allt saman rifið upp. Gamall forsvarsmaður Símans sagði mér að það hefði verið athyglisvert að fylgjast með þeim breytingum sem urðu á norrænum samstarfsfundum símafyrirtækjanna eftir að þessar stofnanir voru markaðsvæddar. Hann sagði að í stað þess að menn kæmu og miðluðu upplýsingum, byðu fram hjálp og aðstoð, hafi menn skyndilega orðið orðfáir, þögulir, hver með hnífinn upp í erminni, því nú voru þeir ekki lengur samstarfsaðilar sem voru að miðla þekkingu og hjálpsemi. Nei, nú voru menn bara komnir til að keppa og leyna hver annan þeim viðskiptaleyndarmálum sem þeir kynnu að búa yfir. Þetta er sá heimur sem verið er að reyna að fara með okkur inn í. Við höfum varað mjög við því að það sé gert varðandi rafmagnið.

Hitt sem við höfum lagt áherslu á er að hlutafélagaformið, sem menn þreytast ekki á að segja að sé gott form, er ágætt við réttar aðstæður. Það er ágætt á markaði þar sem hluthafar hafa það hlutverk að veita fyrirtækinu aðhald, stjórnendum þess aðhald. En þegar hluthafinn er orðinn einn, búið að loka hann inni í einu ráðuneyti, og hefur auk þess minni aðgang sjálfur að upplýsingum innan úr eigin fyrirtæki vegna hlutafjárlaga, þá fara að vakna ýmsar spurningar.

Við höfum fengið hér frumvörp og umræðu um að það þurfi endilega að opna á upplýsingar almennings gagnvart opinberum hlutafélögum. Jú, jú, það er góðra gjalda vert en menn verða líka að skilja það að verið er að fara með þessi fyrirtæki inn í markaðsumhverfi og í slíku umhverfi þurfa menn að geta búið yfir ákveðnum viðskiptaleyndarmálum. Þessari hugsun höfnum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við eigum að leggja rækt við það form sem við höfum búið við og byggir á samvinnu, uppbyggilegri samvinnu og að aðhaldið eigi að koma frá eigandanum sem er almenningur í landinu, hvort sem það er í gegnum sveitarfélögin eða í gegnum ríkið. Það er upp úr þessu fari sem menn eru að rífa þessa starfsemi.

Það hefur aldrei komið mér á óvart að forsvarsmenn í fyrirtækjunum sem hér um ræðir hafi verið þessu fylgjandi, margir. Þeir eru í samvinnu við stjórnvöld og sjá náttúrlega fyrir sér að völd þeirra og áhrif verða efld, iðulega hækka þeir stórlega í launum. Það gerist í einkavæddum fyrirtækjum. En hið sama á ekki endilega við um hinn almenna starfsmann, kjör hans hafa ekki batnað við markaðsvæðingu.

Ég minni á að í Evrópu misstu 300 þúsund manns vinnuna við markaðsvæðingu raforkugeirans, 300 þúsund manns hafa misst vinnuna á nokkrum árum. Ég vil enn fremur benda á það þegar forstöðumenn fyrirtækja, sem eru á einkavæðingarfæribandinu, segja við starfsmenn að þeirra bíði gull og grænir skógar við markaðsvæðingu að allt þetta er hægt að gera í núverandi kerfi. Það er hægt að bæta laun starfsmanna Ríkisútvarpsins við þær aðstæður sem við búum við núna. Það er hins vegar komið undir stjórnun og það er komið undir fjárveitingum til þessa fyrirtækis.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál hér að sinni. Ég er búinn að gera mjög ítarlega grein fyrir sjónarmiðum mínum áður við þessa umræðu. Hv. formaður iðnaðarnefndar tók til máls fyrr við umræðuna í dag og vék að málefnum starfsfólks. Það var gott að heyra áherslur hans. En ég tel mig skilja það rétt að hann líti svo á að ekki verði dregið úr þeim kjörum eða réttindum sem starfsfólk hefur núna og hvað varðar nýráðningar verði leitast við að búa svo um hnútana að fólk búi áfram við viðhlítandi kjör. Ég hef lagt mjög mikið upp úr því fyrir mitt leyti að samningsréttur stéttarfélaganna sem nú semja fyrir hönd starfsfólksins verði virtur að því leyti sem starfsfólkið óskar. Auðvitað er þetta spurning um lýðræðislegar óskir þess. Það er tæknilega og lagalega hægt að búa svo um hnúta að nýráðnir starfsmenn innan vébanda opinberra starfsmanna fái áfram aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, það stendur ekkert í vegi fyrir því lagalega og tæknilega. En það er mikilvægt að heyra hver viðhorf löggjafans og meiri hlutans á Alþingi eru hvað þetta snertir.

Það er nú svo með mig að ég hef trú á því að stjórnendur þessarar stofnunar vilji fyrir sitt leyti leggja sitt af mörkum til að þetta samstarf geti orðið sem allra best. Ef svo illa fer, sem því miður horfir til, að þetta frumvarp verði að lögum, er mjög mikilvægt að heyra afdráttarlausan skilning meiri hlutans hér hvað varðar kjör starfsmanna eftir að Rarik verður að hlutafélagi, sem því miður allt bendir til að gerist innan ekki mjög langs tíma.