Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 12:44:37 (6920)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[12:44]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson talar um misvísandi skilaboð frá Framsóknarflokknum í þessari umræðu. Það hefur alveg legið fyrir að það er stefna Framsóknarflokksins að ríkið eigi þau fyrirtæki sem meðhöndla orkuauðlindir, sameign þjóðarinnar, orkuauðlindir okkar Íslendinga. Það er alveg ljóst. Svo blanda hv. þingmenn Vinstri grænna bönkunum og Símanum inn í. Ég er mjög ánægður með hvernig tekið hefur til með markaðsvæðingu Símans þar sem hægt er að fara í fullt af mjög góðum verkefnum víða um land sem annars hefði ekki verið hægt að ráðast í og mjög ánægður með markaðsvæðingu bankanna sem hefur skilað miklum hagvexti og miklum tekjum í ríkissjóð í kjölfarið. En þar erum við að tala um gjörólíka hluti. Við Framsóknarmenn leggjum áherslu á að fiskimiðin hringinn í kringum landið séu sameign þjóðarinnar, enda er kveðið á um það í lögum um stjórn fiskveiða. Við höfum líka lagt áherslu á að eignarhaldið á þeim fyrirtækjum sem sýsla með orkuauðlindina sem nú er í eigu ríkisins, verði áfram í eigu ríkisins. Það er ekki hægt að bera það saman hvort við erum að ræða um fyrirtæki sem eru í samkeppni á markaði, eins og bankarnir voru og Síminn, eða hvort við erum að ræða um náttúruauðlindir þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn hefur ekki sent frá sér nein misvísandi skilaboð hvað það varðar.

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Vinstri grænna tala um að hér eigi að fara að einkavæða Rafmagnsveitur ríkisins hf. Það er bara rangt. Stefna Framsóknarflokksins er alveg skýr hvað það varðar. Við erum að auka sveigjanleika í rekstri þessara fyrirtækja. Önnur fyrirtæki, sem eru í smásölu í sölu á raforku, eru mörg hver í hlutafélagaforminu. Það er eðlilegt að við bregðumst við þeim aðstæðum hjá þessu fyrirtæki að það geti brugðist við með sams konar hætti og samkeppnisaðilarnir með það að markmiði að bæta þjónustu við neytendur og lækka raforkuverð til lengri tíma litið.