Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 12:49:43 (6922)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[12:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta óvinsæla mál um einkavæðingu á Rarik, hlutafélagavæðingu Rafmagnsveitna ríkisins, er að koma til 3. umr. Það er mjög athyglisvert hversu því er fylgt fast eftir af ríkisstjórnarmeirihlutanum að keyra þetta mál í gegn án þess þó að menn hafi getað tilgreint neinar ástæður fyrir því aðrar en bara „af því bara“ og að hlutafélagavæðing og einkavæðing þjóni markmiðum ríkisstjórnarinnar — í sjálfu sér eru það rök að það geri það en önnur markmið hafa ekki verið tíunduð.

Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum lagst gegn þessu frumvarpi. Við höfum flutt við það frávísunartillögu því í okkar huga, í stefnu okkar flokks, er litið á rafmagnið sem grunnalmannaþjónustu sem eigi að vera íbúum og fyrirtækjum um land allt aðgengileg á sem bestum kjörum og jöfnum, með afhendingaröryggi og góðri þjónustu. Við vitum að um leið og búið er að hlutafélagavæða grunnþjónustu eins og þessa fer hún smám saman að búa sig undir að verða markaðsvædd fullkomlega og seld.

Við þekkjum söguna um símann. Þegar Landssími Íslands var hlutafélagavæddur bárust hástemmdar yfirlýsingar frá þáverandi samgönguráðherra og þeim sem fóru með stjórnvölinn þá þess efnis að Landssíminn yrði ekki seldur. En varla var blekið á undirskrift laganna þornað þegar hafinn var undirbúningur að markaðsvæðingu og sölu Landssímans. Alveg undir það síðasta héldu talsmenn ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, því fram að ekki stæði til að selja hann allan, ríkið mundi alltaf eiga meiri hluta. En þegar til kom var gengið á bak allra þessara orða, hvort sem það voru þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins eða þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Það verður þó að segjast eins og er að undir það síðasta lágu þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekkert á því að þeirra ætlun væri að selja allt fyrirtækið.

Nákvæmlega sama saga endurtekur sig nú þegar við ræðum um hlutafélagavæðingu á Rarik. Framsóknarmenn sem hafa beitt sér hvað harðast undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, í einkavæðingu og almannaþjónustu segja að einungis sé ætlunin að hlutafélagavæða og sjá svo til. Það standi ekki til að selja hlutabréfin. Sjálfstæðismenn segja hreint út að ætlunin sé að selja þau fáist rétt verð.

Reynslan af sölu Símans sýnir hvað gerist. Seldur Landssími. Ekki hafði hann fyrr verið seldur en sendur var út af örkinni yfirmaður hjá hinum einkavædda síma sem tilkynnti uppsagnir starfsfólks og lokanir starfsstöðva, á Siglufirði, á Blönduósi, seinna á Sauðárkróki, á Ísafirði og víðar um land. Ekki var það tilkynnt að þetta væri hluti af sölunni. Og hvað gerist? Þessar starfsstöðvar eru lokaðar. Þessar starfsstöðvar, t.d. á Blönduósi og Sauðárkróki, Siglufirði, Ísafirði og öðrum þeim stöðvum þar sem búið er að loka starfsstöðvum, voru mikilvægar í að veita öfluga og góða nærþjónustu. Þarna var tækniþekkingin til staðar í byggðarlaginu sem nýttist því á fjölþættan hátt. Nærvera þessarar tækniþjónustu skapaði öryggi, bæði fyrir heimili og atvinnurekstur, og styrkti samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ekki mun af veita úti um land.

Nú þegar þetta er selt verða íbúar og fyrirtæki í Húnavatnssýslum, í Skagafjarðarsýslum, á Vestfjörðum og reyndar um allt land þar sem þessi þjónusta hefur verið skorin niður að sækja hana lengra að. Hún er fjarri þeim, hún er dýrari, hún er seinvirkari, hún verður óöruggari.

Tæknimenn sem voru á þessum starfsstöðvum bjuggu yfir mikilli þekkingu og færni til þess að sinna því hlutverki að fylgjast með og bregðast við því sem þurfti í fjarskiptakerfinu. Þessi þekking er að engu gerð. Nú koma menn langt að, vafalaust aðallega frá Reykjavík, til að sinna þjónustu annars staðar og hafa enga staðbundna þekkingu.

Halda menn að þetta verði eitthvað öðruvísi með Rarik? Halda menn það í alvöru? Það hefur verið styrkur Rafmagnsveitna ríkisins að reka öflugar starfsstöðvar sem víðast um landið. Þær hafa getað sýnt viðbragðsflýti ef bilað er. Þær hafa getað unnið að staðbundnu viðhaldi og minni háttar nýframkvæmdum. Þær hafa tekið þátt í stærri framkvæmdum. En einn mikilvægasti þátturinn er að á svæðinu hefur verið staddur hópur manna sem réð yfir tækniþekkingu og færni, ekki aðeins á því sviði sem laut að rafmagninu og dreifingu þess, heldur styrkti einnig samfélagið í heild.

Samfélagið byggist upp eins og hús sem byggt er upp úr mörgum múrsteinum. Menn geta haldið að það sé í lagi að fjarlægja einn múrsteinn, það gusti aðeins inn en húsið standi. Jú, það má vel vera. En því fleiri múrsteinar sem teknir eru úr byggingu hússins, því meir gustar um og því veikara verður húsið. Það er nákvæmlega þetta sem mun gerast við einkavæðingu og hlutafélagavæðingu og síðan væntanlega sölu Rafmagnsveitna ríkisins. Þá hverfa á einhverjum tíma mikilvægir múrsteinar sem mynduðu grunnstoðir þess húss sem samfélagið úti um land er.

Við upplifðum það með Símann að hann taldi sig ekki hafa neinar samfélagslegar skyldur. Markmiðið væri fyrst og fremst að skaffa eigendum arð af því fjármagni sem þeir hefðu bundið í fyrirtækinu. Þetta er sjónarmið fyrirtækja í samkeppnisrekstri og alveg eðlilegt í atvinnustarfsemi sem býr við góða samkeppni. En þjónustustofnanir eins og Rafmagnsveitur ríkisins, Landssíminn, heilbrigðisþjónustan og skólakerfið verða aldrei reknar í raunverulegri samkeppni en það skiptir grundvallarmáli fyrir íbúana og fyrir atvinnulífið vítt og breitt um landið að þessi þjónusta sé öflug og góð, sé til staðar sem nærþjónusta og verði hluti af þeirri samfélagslegu ábyrgð sem er nauðsynleg til þess að eitt samfélag vaxi og dafni. Síminn er farinn út úr þessari samfélagslegu ábyrgð. Eitt mikilvægasta hlutverk bankanna var einmitt út um land, að vera hluti af þeirri samfélagslegu ábyrgð sem felst í samfélagsrekstri fyrirtækja með fólk sem hafði tækniþekkingu og sérþekkingu á sínum sviðum. Nú hverfa þeir og þar hverfa líka ákveðnir múrsteinar úr umræddri byggingu.

Það getur vel verið að rekstur bankakerfisins sem slíks verði hagkvæmari og það má vel vera að Rafmagnsveitur ríkisins, þegar þær hafa verið hlutafélagavæddar og jafnvel seldar, geti per se rekið sig vel. En rafmagn er fyrir neytendur, er fyrir fólk, og þó menn vilji koma á markaðsvæðingu, einkavæðingu, getur það aldrei orðið farsælt að nota gróðamælistiku á fólk. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég á tvær mínútur eftir, þá skal ég ljúka máli mínu.

(Forseti (JóhS): Það verða þá að vera tvær mínútur vegna þess að hér á að gera matarhlé.)

Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lögðum fram frávísunartillögu á þetta mál. Við teljum að Rafmagnsveitur ríkisins eigi að vera í almannaeigu, eigi ekki að fara út í þennan einkavæðingarferil og það verður okkar skoðun. Ég held að flestir sjái að það var glapræði að selja Símann, það var glapræði að einkavæða Símann. Það er líka mikið glapræði að keyra einka- og markaðsvæðingu inn í raforkukerfi landsmanna. Við berum enn þá von í brjósti að þetta frumvarp verði fellt eða dregið til baka landsmönnum öllum til góðs. Gangi það fram verður það ein einkavæðingarþrautarganga sem rekin er af Framsóknarflokknum hér í þinginu og alveg furðulegt að gamall félagshyggjuflokkur skuli vera sá sem dregur einkavæðingarvagninn.