Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 13:30:48 (6923)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:30]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt langt. Það er kominn tími til að ljúka þessari umræðu. Ég ætla rétt að fara yfir það sem hér hefur komið fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra og einnig formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að þau telji að hlutafélagaformið sé hentugra rekstrarform þegar kemur að samkeppnisrekstri jafnvel þó að ríkissjóður yrði einn eigandi að því hlutafélagi.

Hér hefur mikið verið rætt um áhuga annarra á að kaupa hlut Rariks á viðkomandi svæðum og taldi hæstv. iðnaðarráðherra að betra væri fyrir neytendur að hafa sterk dreifingarfyrirtæki í raforkunni og ekki ætti að kljúfa Rarik upp þar sem það væri ekki gott til frambúðar. Undir þetta tók fulltrúi framsóknarmanna í iðnaðarnefnd og formaður hennar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hér í morgun.

Þegar búið er að háeffa Rarik er ekki hægt að tala um neitt til frambúðar. Enda bera dæmin þess vitni og landsmenn hafa fundið það á eigin skinni. Má þar nefna hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Þar hafa störf á landsbyggðinni verið lögð niður vegna óhagkvæmni. Því skyldu landsmenn búast við að farið verði á annan hátt með raforkugeirann?

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að það að veita rafmagni sé hluti af hinni almennu grunnþjónustu sem veita beri einstaklingum, heimilum, atvinnurekstri og fyrirtækjum í atvinnurekstri. Þetta á sérstaklega við um það að verð rafmagns og afhendingaröryggi sé sambærilegt um allt land. Í umræðum hér hefur komið fram að þær breytingar sem gerðar hafa verið í rafmagnsmálum hafa leitt til hækkunar í of mörgum tilfellum að minnsta kosti úti á landi, sérstaklega þar sem ekki er heitt vatn, eins og t.d. í mínu kjördæmi á Langanesi. Þar og víða á köldum svæðum er virkilega þörf á að rafmagni sé veitt á því verði að atvinnulífinu séu búnar samkeppnishæfar aðstæður. Á þessum svæðum hefur líka komið fram að rafmagnsreikningurinn hefur hækkað talsvert með nýju raforkulögunum.

Hv. þingmaður og formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, fullyrti hér í gær að raforkuverð mundi lækka um alla framtíð. Mér fannst hann taka stórt upp í sig. Ég hef ekki trú á því að raforkuverðið verði lægra um alla framtíð því margt breytist þegar Rarik verður hlutafélag. Fyrirtækið verður tekið undan upplýsingalögum og ákveðin viðskiptaleynd þarf að vera í hlutafélögum þannig að þjóðin hefur ekki sömu innsýn í starfsemina og áður. Þá spyr maður sig: Er það neytendavænt?

Mun auðveldara verður að selja og kaupa hluti og arðsemiskrafan verður væntanlega sett í forgang í þessu hlutafélagi sem og flestum öðrum. Það hefur líka komið skýrt fram að allt er til sölu fyrir rétt verð og við vitum að hv. þm. Birkir Jón Jónsson og hv. þm. og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í málinu, Kjartan Ólafsson, tala ekki alveg í takt í þessum efnum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem gerð var að beiðni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fjallar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árið 1998–2003, kemur fram að um er að ræða átta fyrirtæki sem voru að hluta til eða öllu í eigu ríkissjóðs en hafa verið einkavædd og seld. Í skýrslunni kemur einnig fram að jafnan hafi fyrsti áfanginn í söluferlinu falist í að breyta ríkisstofnunum í hlutafélag. Það hlýtur því í ljósi reynslunnar að vera eðlilegt að ég, sem neytandi raforku, hafi áhyggjur vegna þessara aðgerða og því sem gæti orðið í kjölfarið á þeirri háeffun sem hér á að fara fram. Iðnfyrirtæki hafa líka kvartað undan hækkun raforkuverðs sem segir mér að þetta er ekki neikvæðni og nöldur í Vinstri grænum eins og gjarnan er látið að liggja hér úr ræðustól af hv. stjórnarliðum.

Því hefur verið haldið fram að frá því að breytingar á raforkulögunum tóku gildi fyrir örfáum mánuðum hafi raforkan í sumum tilvikum hækkað um allt að 50%. Eflaust hefur raforkan lækkað einhvers staðar, en svona ber að taka alvarlega. Fram kom í frétt Ríkisútvarpsins 13. janúar síðastliðinn hjá Sveini Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, með leyfi forseta:

„Samkeppnin virkar bara ekki hér og þau fyrirtæki sem eru að leita eftir tilboðum frá öðrum rafveitum eru ekki að fá nein tilboð í raun og veru og jafnvel tilboð sem eru yfir almennum töxtum. Og ástæðan er sú að það er ekkert umfram rafmagn í kerfinu og rafveiturnar vilja í raun og veru ekki nýja viðskiptamenn og samkeppni. Þar sem menn vilja ekki nýja viðskiptamenn er auðvitað engin samkeppni.“

Á þetta höfum við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði bent, að frekar sé um að ræða fákeppni í svo litlu landi sem okkar er.

Það kom líka fram í frétt Ríkisútvarpsins að fyrirtækið Plastprent er einn stærsti raforkunotandi á Íslandi fyrir utan stóriðjuna. Forsvarsmenn þar segja að raforkuverð hafi hækkað um 20–30% en fyrirtækið kaupir í stórum skömmtum fyrir svona um það bil 20–30 millj. kr. á ári. Af hverju skyldi slíkt fyrirtæki ekki fá sams konar ívilnanir og stóriðjan? Framkvæmdastjóri Plastprents, Sigurður Bragi Guðmundsson, segir í sömu frétt, með leyfi forseta:

„Þó að við séum ekki með nákvæmar upplýsingar um hvað stóriðjan borgar fáum við ekki betur séð en að við, sem erum þó þetta stórir, séum að borga milli 40- eða 50-falt meira fyrir kílóvattsstundina en stóriðjan.“

Hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði í 1. umr. þessa máls, með leyfi forseta:

„Við höfum gengið í átt til einkavæðingar og ég er heldur ekki í nokkrum vafa um að það hefur orðið þessari þjóð til heilla og er hluti af því að skila okkur fram veginn.“

Það er akkúrat þessi stefna og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum rætt að okkur þykir sem stjórnarliðar tali ekki alveg í takt. Fyrirtækið er til sölu hjá Sjálfstæðismönnum ef rétt verð fæst og því getum við alls ekki verið örugg um neitt í þessum málefnum til frambúðar. Ég efast ekki um þann góða vilja hv. formanns iðnaðarnefndar, Birkis Jóns Jónssonar, að fyrirtækið verði áfram í eigu ríkisins. En eftir rúmt ár verður kosið hér á þing og það er alls ekki víst að allir hafi þá sýn sem hann hefur talað fyrir. Það er að minnsta kosti ekki hægt að stóla á það, ekki ef miðað er við það sem áður hefur verið gert hér í háeffun og síðan einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Það er sem sagt þessi stefna ríkisstjórnarinnar sem við viljum andmæla nú þegar gera á Rarik, fyrirtæki okkar landsmanna, sem gegnir almannaþjónustu, að hlutafélagi — þeirri stjórn sem tekur við að ári er svo í lófa lagið að selja það hæstbjóðanda ef því er að skipta.