Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 13:39:03 (6924)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:39]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að hafa fáein orð í lok umræðunnar vegna þess að ég tel ástæðu til að skýra örlítið afstöðu okkar samfylkingarmanna í þessu máli. Eins og komið hefur fram í umræðunni tókum við þátt í að afgreiða málið úr nefnd og við studdum breytingartillögur við málið við 2. umr. Við vorum síðan með breytingartillögu við málið líka sem fjallaði um að flytja ætti yfirráð yfir hlutabréfum frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra. Fyrir því færðum við okkar rök sem ég tel fullgild.

Stundum gerist það hér í sölum Alþingis að menn greiða ekki atkvæði í samræmi við það sem maður hefði haldið að mundi gerast. Ég hafði talað við marga þingmenn um þetta mál og flestir luku upp einum munni um það að vitanlega væri miklu eðlilegra að yfirráð yfir þessum hlutabréfum væru á hendi fjármálaráðherra og það væri vond stjórnsýsla að hæstv. iðnaðarráðherra hefði þessi hlutabréf í sínum höndum. Iðnaðarráðherra er yfirmaður þess fyrirtækis sem hér er fjallað um og líka yfirmaður Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur mörg hlutverk og m.a. hefur hann það hlutverk á sínum höndum að skera úr um hverjir fá rannsóknarleyfi til að nýta orkulindir. Hann hefur líka úrskurðarvald um það hverjir fá nýtingarleyfin.

Það kom mjög skýrt fram í umfjöllun nefndarinnar hjá þeim sem fást við rekstur á þessu sviði — og telja sig vera komna í samkeppnisumhverfi, að þeir séu í samkeppni við þau ríkisfyrirtæki sem framleiða og selja raforku — að þeir teldu það mjög óeðlilegt að iðnaðarráðherra færi með þetta vald. Þess vegna var þessi tillaga flutt. En það sýndi sig að handjárnin héldu og hún var ekki afgreidd eins og við hefðum viljað.

Við Samfylkingarmenn þurfum að ákveða hvort við samþykkjum þetta mál í heildina í lokin þegar fyrir liggur að okkar tillaga í málinu hvað þetta varðar hefur verið felld. Það mun sýna sig við lokaafgreiðslu málsins hvað við gerum. Í heildina töldum við þetta mál til bóta. Við höfum stutt hlutafélagastofnun um orkufyrirtæki á undanförnum árum og teljum að á það eigi að láta reyna til hlítar. Úr því að menn lögðu af stað í þá vegferð að reyna að koma á samkeppni á raforkumarkaði er eðlilegt að halda áfram á þeirri braut og gera það sem ríkisvaldið getur gert til að mynda einhvers konar samkeppni á þessum markaði og halda utan um hana. Það þarf að gera þessa hluti mjög vel ef eitthvert vit á að vera í. Það liggur nú fyrir að neytendur hafa ekki haft hagnað af þeim breytingum á raforkumarkaðnum sem þegar hafa orðið. Það virðist nokkuð ljóst af þeim könnunum sem hafa verið gerðar að raforkuverð hefur í langflestum tilfellum hækkað. Þannig að betur má ef duga skal ef við eigum að fá að sjá hér hagstæðara raforkuverð á næstu árum.

Skref í þá átt er að sjá til þess að fyrirtækin á þessum markaði verði fær um að keppa, að ekki séu eingöngu risar og dvergar á þessum markaði heldur það mörg öflug fyrirtæki að þau geti tekist á sín á milli um verð á raforku. Það fyrirtæki sem hér er verið að ræða um, Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, er að mínu viti, og okkar samfylkingarmanna, fyrirtæki sem á að vera einn af keppendunum á markaðnum. Það er því ekki endilega rétta niðurstaðan að það eigi að vera í eigu ríkisins. Ég tel, og hef sagt það áður, að það gæti alveg eins verið, og ekkert síður, í eigu sveitarfélaganna. Hugsanlega einhvern tíma í framtíðinni í eigu fleiri aðila. En það er langt þangað til kemur að þeim degi vegna þess að það verður ekki mögulegt að okkar mati, samfylkingarmanna, að einkavæða þetta fyrirtæki og önnur nema menn séu búnir að ganga frá þeim auðlindum sem eiga að vera í þjóðareign og þeim reglum sem eiga að gilda um þær auðlindir. Stóra skrefið í því þarf að stíga við endurskoðun stjórnarskrárinnar en setja þarf inn ákvæði um auðlindir í þjóðareign og lagasetning þarf síðan að koma í framhaldi af því þar sem þær verða afmarkaðar og reglur settar um það með hvaða hætti verði farið með þær.

Ég vildi svona í lok málsins leggja þetta inn í umræðuna. Ég tel að það þurfi að vera skýrt frá okkar hendi, samfylkingarmanna, að við stöndum við að við höfum stutt þetta mál. Við erum auðvitað ekki ánægð með að ekki skyldi nást sú niðurstaða sem við vildum gagnvart því hver eigi að halda utan um yfirráðin yfir þessu fyrirtæki og teljum reyndar að sá tími sé löngu kominn að menn þurfi að stokka upp í stjórnkerfinu með þeim hætti að ekki séu þeir hagsmunaárekstrar sem eru í raun og veru út um allt í þessu kerfi. Iðnaðarráðherra er í þessu tilfelli ágætt dæmi um það. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri og hef lokið máli mínu.