Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 13:49:32 (6926)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður vitnaði til í 5. lið á við um það að þetta fyrirtæki geti t.d. keypt litlar rafveitur eins og hefur verið að gerast á undanförnum árum, smærri rafveitur hafa verið að hverfa inn í þær stærri. Ég held í sjálfu sér að það hljóti að gerast. Ég held að litlu rafveiturnar eigi, margar hverjar, ekki endilega mjög langa framtíð fyrir sér. En auðvitað verður það að koma í ljós í þessu umhverfi hvort hægt verður að reka þær. Í sumum tilfellum virðist allt benda til þess en í öðrum tilfellum ekki.

Það virtist vera mjög hagstætt að leggja Andakílsárvirkjun inn í Orkuveitu Reykjavíkur eins og Akurnesingar gerðu fyrir nokkrum árum. Það virtist vera mjög skynsamlegt að gera það. Ég get sagt það strax að við höfum verið andvíg því að Orkubú Vestfjarða og Rarik verði sameinuð Landsvirkjun. Ég hef margsagt að ég sé á móti því og tel ekki neina ástæðu til að gera það. Það er alveg ótrúlegt að sú umræða skulu vera uppi á sama tíma og menn halda því fram að verið sé að búa til samkeppnisumhverfi á þessum markaði. Það er ríkið sem gengur fremst í því og hefur auðvitað það hlutverk að koma á samkeppnisumhverfi en það getur ekki verið trúverðugt að búa til einhvern risa á þessum markaði sem enginn annar getur þá átt í fullu tré við. Það er eitthvað annað í þeirri mysu sem ekki er komið fram eða hefur verið viðurkennt opinberlega. Sumir halda því fram að þessi umræða hafi komið upp vegna þess að eigið fé Landsvirkjunar sé orðið óþægilega lítið.