Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 13:51:44 (6927)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lagt var upp úr því í heildarlögunum um raforku að m.a. gætu risið upp virkjanir í einkaeigu sem framleiddu inn á Landsnetið og út af því væri hægt að kaupa, m.a. í samningum við viðkomandi fyrirtæki. Þetta var þáttur í því að efla samkeppni á raforkumarkaði.

Ég verð að segja að mér finnst að nú sé verið að stefna í alveg öfuga átt. Ríkið stefnir til sameiningar á þeim fyrirtækjum sem það á þvert ofan í það að búa til samkeppni á raforkumarkaðnum. Þess vegna hef ég ákveðnar efasemdir um þessa vegferð alla.

Því hefur verið haldið fram af hæstv. iðnaðarráðherra eftir að nýju raforkulögin tóku gildi að raforkuverð á landsvísu hafi lækkað. Því var m.a. haldið fram fyrir stuttu í umræðum um raforkuverð á árabilinu 2001–2010, sem ég tengdi við samninga við Norðurál. Hins vegar er rétt að vekja á því athygli að í skýrslu iðnaðarráðherra sjálfrar kemur fram að í mörgum tilfellum hefur raforkuverð til neytenda hækkað eftir að nýju raforkulögin tóku gildi. Maður saknar þess því, hæstv. forseti, ef raforkulögin áttu að leiða til samkeppni að sú samkeppni sé ekki að komast á.