Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 13:53:55 (6928)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég hef t.d. hér í höndunum ársskýrslu Samtaka iðnaðarins. Innihald þeirrar greinar gengur einmitt út á að lýsa þessu út frá sjónarmiði Samtaka iðnaðarins. Það eru því ekki bara neytendur, venjulegt fólk, með sínar húsþarfir sem kvarta undan því að orðið hafi hækkun á raforku heldur líka fyrirtækin þar sem menn héldu því fram að þar væri kannski meiri von, að stærri notendur fengju þá betra verð vegna samkeppninnar. Þetta hefur ekki gengið eftir. En þegar við tökum afstöðu til þess hvort við viljum hafa Rafmagnsveitur ríkisins í hlutafélagaformi eða ekki, þá get ég ekki séð að það eigi að hafa áhrif á þá niðurstöðu. Ég tel, eins og ég hef áður sagt í umræðunni, að menn verði að halda áfram þessari göngu og reyna að gera þessa hluti skynsamlega. Ríkið ber ábyrgð á að koma á því samkeppnisumhverfi sem talað var um að koma á. Það verður ekki gert með því að búa til eitt fyrirtæki úr Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Það getur ekki verið skynsamleg leið í þessu efni.

Þessi niðurstaða, að gera Rafmagnsveitur ríkisins að hlutafélagi, hefur ekki með það að gera. Hér er gert ráð fyrir að ríkið eigi þessi hlutabréf áfram og það þarf nýja lagasetningu á Alþingi ef þetta fyrirtæki á að sameinast öðrum fyrirtækjum í eigu ríkisins. Það er augljóst mál að þá þarf nýja lagasetningu en það þarf ekki nýja lagasetningu þó að þetta fyrirtæki kaupi einhverjar litlar rafveitur.