Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 14:11:06 (6930)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

651. mál
[14:11]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

(Forseti (JóhS): Það er nauðsynlegt að ráðherra sem aðrir muni eftir að hafa slökkt á farsímum hér í salnum.)

Frumvarpinu er ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 60/2005/EB. Verði frumvarpið að lögum mun það leysa af hólmi gildandi lög nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, en frumvarpið byggir að stórum hluta á þeim lögum þótt það feli í sér mun nákvæmari útfærslur á gildandi reglum auk ýmissa nýmæla.

Umfangsmiklar breytingar hafa orðið á alþjóðlegum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka einkum eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York 11. september 2001. Á það m.a. við um reglur sem settar hafa verið á vettvangi Financial Action Task Force on Money Laundering, hér eftir nefnt FATF. FATF er alþjóðlegur vinnuhópur sem vinnur að aðgerðum til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið sé misnotað til að koma illa fengnu fé í umferð og aðgerðum gegn fjármögnun hryðjuverka.

Segja má að hlutverk og starfssvið FATF sé þríþætt. Í fyrsta lagi að semja staðla fyrir aðgerðir í hverju ríki gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í öðru lagi að leggja mat á aðgerðir ríkja til að innleiða þessa staðla og í þriðja lagi að rannsaka og læra að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Á vettvangi FATF hafa verið samin tilmæli til aðildarríkja samtakanna um aðgerðir gegn peningaþvætti. Árið 1990 voru um 40 slík tilmæli gefin út en síðan hafa þau verið endurskoðuð tvisvar, fyrst árið 1996 og síðan árið 2003, og einnig hafa 9 sérstök tilmæli um aðgerðir gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi bæst við. Þau ríki sem tekið hafa þátt í FATF-samstarfinu hafa verið í fararbroddi þjóða heims í aðgerðum gegn peningaþvætti. Ísland gekk til samstarfs við FATF árið 1992 og með inngöngu skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur að tilmælum FATF.

Af hálfu ESB hafa tilmæli FATF verið innleidd í formi tilskipana, fyrst með tilskipun 91/308/EB. Síðan tilskipun 2001/97/EB og nú síðast með samþykkt tilskipunar 2005/60/EB í október síðastliðnum. Með tilskipun 2005/60/EB falla eldri tilskipanir tvær úr gildi en báðar höfðu þær verið teknar upp í EES-samningum.

Á vettvangi EFTA er þegar unnið að því að fella tilskipun 2005/60/EB undir EES-samninginn en vegna sérstakra aðstæðna er hjálögðu frumvarpi ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar 2005/60/EB í íslenskan rétt fyrr en ella. Ástæðan er sú að af hálfu FATF eru reglulega framkvæmdar úttektir á lögum og starfsaðferðum þeirra ríkja sem aðild eiga að samstarfinu og gerðar skýrslur um aðgerðir hvers aðildarríkis um sig. Í lok apríl á þessu ári verður framkvæmd slík úttekt hér á landi. Ljóst er að af hálfu FATF eru gerðar mjög ríkar kröfur til úttektarríkjanna, þar á meðal að þau beiti nýjustu reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Af þeim sökum er leitast við að innleiða tilskipun 2005/60/EB hið fyrsta en með henni á kröfum FATF að vera fullnægt.

Mikil áhersla er lögð á að Ísland komi vel út úr framangreindri úttekt FATF enda gæti trúverðugleiki og traust íslensks viðskiptalífs að öðrum kosti beðið hnekki. Til að stuðla að góðri niðurstöðu úttektarinnar hefur m.a. verið starfandi um nokkurt skeið nefnd um aðgerðir gegn peningaþvætti sem skipuð var af mér sem viðskiptaráðherra. Hefur nefndin, eins og nafnið gefur til kynna, það hlutverk að fylgjast með framkvæmd aðgerða gegn peningaþvætti hér á landi, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni tengd peningaþvætti. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar viðskiptaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Seðlabanka Íslands, ríkislögreglustjóra, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Fjármálaeftirlitsins. Frumvarp það sem hér er kynnt var unnið í samráði við nefndina og alla helstu hagsmunaaðila sem að málinu koma. Helstu nýmæli frumvarpsins frá gildandi lögum eru eftirfarandi:

Í stað þess að miða gildissvið laganna við þá starfsemi sem aðilar stunda verður gildissviðið miðað við aðilana sjálfa og vísað er til þeirra sem tilkynningarskyldra aðila. Aðilum sem falla undir lögin er fjölgað í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB.

Auknar kröfur eru gerðar til tilkynningarskyldra aðila um að þeir viti hver viðskiptamaður þeirra er og hver standi í raun að baki viðskiptunum, þ.e. hver teljist raunverulegur eigandi. Sett eru ítarleg ákvæði um könnun og áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann en jafnframt heimilað að slíkt mat verði framkvæmd á grundvelli áhættumats. Áhættumat þýðir að tilkynningarskyldum aðila er heimilt að nokkru leyti að meta hversu mikilla upplýsinga um viðskiptamann er þörf í hverju tilviki. Ríkari kröfur eru gerðar um upplýsingaöflun við ákveðnar aðstæður þar sem almennt er talið að hætta á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka sé meiri, svo sem við fjarsölu.

Lagt er til að lögmönnum verði veitt undanþága frá almennri tilkynningarskyldu vegna gruns um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka þegar þeir kanna lagalega stöðu skjólstæðinga og reka dómsmál.

Mælt er fyrir um að tilkynningarskyldir aðilar skuli setja sér skriflegar innri reglur sem miða að því að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

Mælt er fyrir um skyldu lögaðila, sem frumvarpið tekur til, að búa yfir kerfi sem gerir þeim kleift að bregðast með skjótum hætti við fyrirspurnum frá lögreglu eða öðrum lögbærum yfirvöldum.

Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi virkt eftirlit með því að fjármálafyrirtæki og aðrir eftirlitsskyldir aðilar sem falla undir lögin fari að ákvæðum þess. Felst eftirlitið í heimildum til að kalla eftir hvers konar gögnum og heimild til sérstakra athugana á starfsstöð. Láti aðili hjá líða að uppfylla skyldur sínar um afhendingu gagna getur Fjármálaeftirlitið lagt févíti og dagsektir á viðkomandi í samræmi við ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki þörf á að lýsa frekar því frumvarpi sem hér um ræðir en að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.