Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 14:28:00 (6932)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[14:28]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, sem er 647. mál þingsins á þskj. 954.

Með frumvarpinu er gerð tillaga að breytingu á tilteknum ákvæðum laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Við gildistöku laga nr. 31/2005, um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, voru 17. og 18. gr. laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, felldar úr gildi. Sú breyting var vegna yfirstandandi endurskoðunar á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Nú er hins vegar ljóst að heildarendurskoðun laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða lýkur síðar en áætlað var og því var ekki tímabært að fella brott 17. og 18. gr. Lagt er til í frumvarpinu að ákvæði greinanna verði aftur tekin upp í lögin. Um er að ræða ákvæði um reglur um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll, niðurfellingu skráningar og tímabundna stöðvun viðskipta. Þau ákvæði fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 2001/1934.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.