Mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 15:20:52 (6945)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn.

620. mál
[15:20]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé mál sem sé alveg ástæða til að fjalla um en hvort það nákvæmlega varðar þetta frumvarp skal ég ekki segja um. Ég held að þarna sé kannski kominn hluti af stefnu í fiskveiðistjórn og öðru slíku sem hv. þingmaður bryddar á. En auðvitað er mikilvægt að það séu reglur sem gilda um það hvernig við komumst að niðurstöðu um að þau tæki sem notuð eru til hvers konar mælinga séu rétt. Það er ekki bara mikilvægt vegna viðskipta almennt heldur er þetta náttúrlega líka hluti af tilskipunum sem við verðum að innleiða.

Það sem hv. þm. nefnir er umræðuefni sem er svo sem ekki nýtt af nálinni heldur hlutir sem oft eru til umfjöllunar og varðar það að kannski má tala um að ágiskanir séu notaðar við útreikninga sem þó eru byggðar að sjálfsögðu á reynslu. En mér finnst ekki óeðlilegt að þetta sé eitt af því sem skoðað verði í nefndinni og get ég eiginlega ekkert sagt nákvæmara um það en þetta.