Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 15:25:58 (6948)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum III. kafla laganna um styrki til stofnunar hitaveitna.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að auka notkun jarðvarma til húshitunar. Stuðningur stjórnvalda er einkum tvíþættur: Annars vegar eru veittir styrkir til jarðhitaleitar á svokölluðum köldum svæðum þar sem rafmagn er notað til húshitunar en þessu styrkjaformi var hleypt af stað sem tímabundnu átaksverkefni árið 1998. Það gaf hins vegar svo góða raun að átakið hefur verið framlengt í tvígang og er kannski vafasamt hvort um átak er orðið að ræða. Jarðhitaleitarátakinu er ætlað að vera hvati og upphaf að frekari aðgerðum. Þannig beinist það einkum að frumstigi leitar en sveitarfélögum og orkufyrirtækjum er ætlað að taka við verkefnum finnist jarðhiti sem hagkvæmt er að nýta.

Hins vegar samþykkti ríkisstjórnin haustið 1999 tillögur að reglum um úthlutun styrkja til lagninga nýrra hitaveitna á svæðum sem njóta niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar. Reglurnar byggðu á þeirri stefnu sem mörkuð var með samþykkt þingsályktunartillögu um stefnu í byggðamálum 1999–2001. Í byggðaáætluninni var mörkuð sú stefna að nýta hluta þeirra fjármuna sem ætlaðir til niðurgreiðslu á rafhitun til íbúðarhúsnæðis til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla með þeim hætti að aukinni notkun jarðvarma til húshitunar. Hitaveitustyrkjum var ætlað að vera hvati til að stuðla að frekari nýtingu á heitu vatni til hitunar á íbúðarhúsnæði.

Þessar aðgerðir hafa átt stóran þátt í því að stofnaðar hafa verið nýjar hitaveitur víða um land og eldri veitur verið stækkaðar. Þannig hafa margir íbúar sem áður bjuggu á svokölluðum köldum svæðum nú fengið hitaveitu. Þá hefur jarðhitinn einnig skapað ný tækifæri á þeim svæðum. Ég tel það hafið yfir allan vafa að án aðkomu ríkisins hefðu þessar hitaveitur átt mun erfiðara uppdráttar og hefðu jafnvel aldrei orðið að veruleika. Grundvöllur jarðhitaleitarátaksins og hitaveitustyrkjanna hefur nú verið lögfestur í lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að málinu verði að lokinni umræðu vísað til 2 umr. og hv. iðnaðarnefndar.