Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 15:34:50 (6952)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:34]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að ekki hafi verið farið í þá vinnu að velta fyrir sér öðrum kostum í þessu efni, þ.e. að styrkja fólk beint til búsetu fremur en að borga niður kostnað við að kaupa rafmagn til að hita upp híbýli manna. Ég kannast ekki við það. Það hefur a.m.k. ekki verið gert í mínu ráðuneyti síðan ég kom þangað.

Ég ætla svo sem ekkert að segja um hvort það gæti verið vit í því. En auðvitað má hv. þingmaður hafa þá skoðun að það gæti verið skynsamlegra. Hann talar um að það sé heimskulegt að gera þetta með þessum hætti og kannski ættu menn frekar að einangra hús betur og annað af því tagi. Það einmitt það sem við höfum á prjónunum. Það er verið að móta reglur um á hvern hátt við getum styrkt fólk til að einangra betur húsin. (Gripið fram í.) og komast þannig út úr þessu vandamáli. Víða er óeðlilega dýrt að hita upp hús miðað við rúmmetrafjölda. Það hlýtur að þýða að þar sé pottur brotinn, eitthvað að húsunum sem gerir að verkum að svo dýrt er að hita þau upp.

Ég hef ekki miklu við þetta að bæta en það er fyrirkomulag sem nýtur mikils stuðnings á hv. Alþingi, að greiða niður rafmagn til að hita upp hús.