Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 15:36:37 (6953)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil segja um þetta mál að ég sakna þess að í því skuli ekki gert ráð fyrir auknum styrk til hitaveitna, til að hvetja til nýrra hitaveitna og orkuleitar. Mér finnst að hækka ætti þennan styrk upp í tíu ár. Ég hef reyndar áður sagt það og lagt til á Alþingi að þessi styrkur nemi því sem svarar til tíu ára niðurgreiðslu. Það er sú besta hvatning sem ég held að hægt sé að hafa.

Ég er á öndverðum meiði við hv. þm. Pétur Blöndal hvað það varðar að fella þurfi niður þessa styrki. Við höfum verið sammála um að orkan í þessu orkuríka landi eigi að vera til staðar til að landsmenn geti hitað upp hús sín. Við höfum ekki haft önnur úrræði en raforku á ýmsum svæðum. Það væri nánast óbyggilegt á þeim svæðum, miðað við það orkuverð sem verið hefur og tiltölulega lág laun á sumum þeirra landsvæða, þar sem eru kannski lægstu launin í landinu að meðaltali, ef ekki kæmi til slíkur styrkur. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að lækka hann eða draga úr honum meðan ekki eru til önnur úrræði fyrir fólk en raforka.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að í sumum tilfellum hefur vantað upp á hvatninguna til að nýta jafnvel tiltæka orkukosti. Það er umhugsunarefni. Ég tel að ríkið leysi sig frá niðurgreiðslunum með styrkjum til orkuleitar. Það væri skynsamlegt af hálfu ríkisins en ég vil ekki að það verði lagt af að styrkja fólk á köldum svæðum í sambandi við upphitun.

Ég bendi á að búsetustyrkur er líka niðurgreiðsla, niðurgreiðsla á búsetu. Það er að vísu þannig, ef fólk fær búsetustyrk, að það getur valið um hvað það notar þá fjármuni í, hvort það vill borga dýrt rafmagn til að kynda upp hús eða verja þeim búsetustyrk í eitthvað annað. Hann er samt sem áður niðurgreiðsla á veru fólks á tilteknum stað í landinu. Ég veit ekki hvort það mundi koma betur út. Ég er reyndar afskaplega hræddur um að slíkur styrkur yrði miklu frekar viðfangsefni þeirra sem hefðu áhuga á að snúa á kerfið. Því eftir hverju ætluðu menn að fara í sambandi við búsetustyrk? Nú getur fólk átt hús um allt land. Margir eiga tvö hús. Þeir geta látið skrifa sig á kalda svæðið og fengið búsetustyrk. Samkvæmt hugmyndum hv. þm. Péturs Blöndal gæti ríkið farið að greiða niður búsetu fólks sem væri kannski ekki föst og hefði jafnvel vel efni á að halda uppi húsnæði annars staðar á landinu en á hitaveitusvæði. Í fljótu bragði held ég því að sú hugmynd sé ekki góð.

En ég held því til haga, það var erindi mitt í stólinn, að ég vil að vel sé staðið við bakið á hitaveitum og þær fái sem mestan styrk frá ríkinu til að bæta við sig köldum svæðum. Mér finnst það vel koma til greina að slíkur styrkur svari til tíu ára niðurgreiðslna á svæðinu og tel að ríkið græði á því. Ég hef ekki nokkra trú á að menn hætti að greiða niður raforkuverð á landinu. Það stefnir alls ekki í að raforkuverðið sé að lækka. Það hefur því miður heldur verið í hina áttina, þrátt fyrir samkeppnina. Þess vegna held ég að niðurgreiðslurnar verði því miður að halda áfram að vera háar.