Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 15:41:47 (6954)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vildi koma að örfáum atriðum við 1. umr. þessa máls, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur mælt fyrir.

Ég vil í fyrsta lagi leggja áherslu á að ég tel að almennt snúist orkumál, hvort sem þau varða raforku eða hitaveitur, um almannagæði. Við eigum að byggja inn í það kerfi sem mestan jöfnuð. Kerfið sjálft á að standa undir nauðsynlegum og eðlilegum jöfnuði milli landsmanna hvar sem þeir búa.

Hitt vil ég taka undir að lagaumgjörðin þarf að hvetja menn til að koma á hitaveitum, bæði til að rannsaka möguleika á hitaveitum á köldum eða hálfköldum svæðum en einnig til að ráðast í framkvæmdir og tengja þær inn í byggðina. Þar væri hægt að horfa til langs tíma. Þetta eru jú hitaveitur. Sé hægt er að leggja hitaveitur í hús og byggðarlög verða þær gríðarlegur aflgjafi.

Ég tek því undir þau orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um stuðning til hitaveitna, að leggja eigi meiri áherslu en nú er gert á stuðning við rannsóknir og stofnun nýrra hitaveitna, m.a. á köldum og hálfköldum svæðum. Það hefur sýnt sig að víðar en hingað til hefur verið haldið er heitt vatn þótt bora þurfi dýpra eða leggja í meiri rannsóknar- og borunarkostnað. Víða er heitt vatn en kostnaður við lagningu hitaveitu til næstu byggðar getur verið utan þeirra marka sem hafa verið sett, þ.e. að hitaveitan nánast borgi sig á innan við 8–10 árum. En það er hins vegar stuttur tími miðað við líftíma hitaveitna.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa að því er ég best veit verið með tillögur um að að lágmarki sé miðað við tíu ára niðurgreiðslur á rafhitun til stuðnings við hitaveitur. Við teljum að miða megi við a.m.k. tíu ára notkun rafmagns, að tíu ára niðurgreiðslu ríkisins til raforkunotenda á viðkomandi svæðum megi verja í stofnstuðning við hitaveitur. Ég hefði reyndar talið að hann mætti vera meiri. Það er slíkur hagur, ef tekst að ná í heitt vatn, bæði fyrir þjóðarbúið í heild og einstök landsvæði. Ég tel því að það eigi að skoða hærri stuðning við hitaveitur og til lengri tíma en hér er gert.

Það eru örfá atriði sem ég vil fá að spyrja ráðherrann um. Hér er skilgreind 20 þús. kílóvattstunda ársnotkun á hverja íbúð sem tengd er veitunni sem styrkurinn er miðaður við. Nú getur skilgreining á íbúð verið nokkuð fljótandi. Er það íbúð þar sem menn hafa fasta búsetu eða er það íbúð á viðkomandi svæði? Við þekkjum þær reglur sem hafa gilt um niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar. Eftir því sem ég best veit hafa þær verið bundnar við lögheimili í viðkomandi íbúð. Þær íbúðir sem ekki hefur verið föst búseta í hafa því ekki fengið niðurgreiðslu, nokkuð sem hefur t.d. komið hart niður á íbúðum í ferðaþjónustu. Ég velti fyrir mér skilgreiningunni á íbúð, því hugtaki sem þarna er notað.

Síðan spyr ég: Af hverju er ekki notaður hærri grunnur? Af hverju eru t.d. ekki notaðar 40 þús. kílóvattstundir, eins og áður hefur verið miðað við í þátttöku í niðurgreiðslum, sem þó eru núna miðaðar við 30 þús. kílóvattstundir á ári? Af hverju eru menn að skammta svo naumt, að fara niður í 20 kílóvattstundir á ári við að finna út styrkinn til nýrra hitaveitna?

Það er athyglisvert en þarna er fært inn nýtt ákvæði um að færa megi þennan stuðning til hitaveitna, þar sem ráðist er í meiri háttar endurbætur á dreifikerfi hitaveitna. Áður var þetta eingöngu fyrir stofnkostnaði en núna getur þetta líka gilt fyrir meiri háttar endurbætur á hitaveitum. Ég velti fyrir mér stöðunni t.d. hjá Hitaveitu Blönduóss og Hitaveitu Búðardals sem urðu að selja hitaveitur sínar, voru nánast knúnar til þess af ríkinu að láta hitaveitur sínar af hendi til Rariks, bæði vegna greiðsluerfiðleika sveitarfélaganna en líka vegna þess að þær stóðu frammi fyrir miklum viðhalds- og endurbótakostnaði, sem ekki var sýnt að þær mundu ráða við. Hefði staða þeirra hitaveitna, þeirra sveitarfélaga, verið með öðrum hætti og kannski ekki þurft að selja veiturnar ef þetta ákvæði hefði verið komið inn sem hér er lagt til, að meiri háttar endurbætur á hitaveitum geti líka veitt réttindi til slíks stuðnings.

Ég leggst ekki gegn því að slíkur stuðningur sé veittur eins og hér er lagt til, a.m.k. ekki að svo komnu máli, en ég tel þetta umhugsunaratriði. Við vitum að ráðast þarf í miklar endurbætur á Hitaveitu Blönduóss sem Rarik var að kaupa. Það var ein ástæðan fyrir því að Blönduóssbær fann sig knúinn, var reyndar knúinn til þess af félagsmálaráðuneytinu vegna fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, til að láta hitaveituna af hendi þótt ríkið yrði að koma leggja fjármagn til Rariks, þ.e. lánsheimildir til að það gæti yfirtekið veituna. Ef þessi lög hefðu verið komin, hefði þá Hitaveita Blönduóss haft aðgang að þessu fjármagni? Maður kannski snýr ekki hjólinu til baka en það er vert að hugsa um þetta.

Í öðru lagi sé ég ekki að umsögn fjármálaráðuneytisins geti staðist, en þar segir:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.“

Ég tel að markmiðið með þessum lögum sé að auka fjárstuðning til hitaveitna sem stofnað er til á köldum svæðum og það hljóti a.m.k. tímabundið að hafa áhrif á greiðslur úr ríkissjóði.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni en ítreka þá skoðun mína og áherslur okkar þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að það eigi að veita hitaveitum stofnstyrki til hitaveitna á köldum svæðum í miklu ríkari mæli í þeirri von að þá þurfi ekki seinna meir að veita rekstrarstuðning til að jafna kjör á viðkomandi svæðum. Veitum öfluga stofnstyrki til að skapa góðan rekstrargrunn fyrir viðkomandi hitaveitur, fyrir viðkomandi byggðir til að reka sínar hitaveitur. Það tel ég mikilvægt. Ég tel of skammt gengið með þessu frumvarpi.