Greiðslur til foreldra langveikra barna

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 16:37:46 (6962)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svörin. Ráðherra telur að frumvarpið sem mun koma fyrir þingið á næstu dögum, um breytingu á atvinnuleysisbótum, þ.e. um að þær taki mið af tekjum atvinnulausra, muni hafa áhrif varðandi frumvarpið sem við ræðum hér. Ég fagna því að ráðherrann, þótt hann lofi engu, útiloki ekki að þessar greiðslur taki mið af þeim breytingum sem gerðar verða á lögum um atvinnuleysisbætur. Það er fagnaðarefni.

Ráðherra segir einnig að þessar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar verði í samræmi yfirlýsingu sem gefin var aðilum vinnumarkaðarins. Ef ég man rétt þá er um verulegar breytingar að ræða. Mig minnir að verið hafi ákveðið þak á þessu og ef ég man rétt var fjárhæðin 130 þús. kr. sem miðað var við. Þetta hlýtur að fela í sér verulega hækkun á atvinnuleysisbótum. Það er vissulega fagnaðarefni, virðulegi forseti, ekki síst í ljósi þróunar atvinnumála á Suðurnesjum við brotthvarfs hersins. Það hlýtur að hafa mikið að segja fyrir þann fjölda sem verður atvinnulaus við þá breytingu á atvinnuleysisbótakerfinu í þá veru að það tryggi þeim betri tekjur við þær aðstæður en eru í atvinnuleysisbótakerfinu eins og er.

Það er einlæg von mín, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra beri gæfu til að láta greiðslur til foreldra langveikra barna líka taka mið af þeim breytingum sem þar verða gerðar. Það yrði sannarlega til bóta á því frumvarpi, þótt það hafi nokkuð marga galla, þegar það verður lögfest.