Hlutafélög

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 16:55:01 (6967)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Hlutafélög.

684. mál
[16:55]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að segja að samhengi sé þarna á milli. Þó varðar þetta mál nýsköpun eins og hitt málið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, að því leyti eru tengsl en að öðru leyti eru þetta óskyld mál. Þetta mál er lagt fram í framhaldi af vinnu eins og ég kom inn á í máli mínu sem hefur átt sér stað og varðar sprotafyrirtæki, hátæknifyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sem við viljum reyna að efla í samfélaginu.

Í raun má segja að þetta frumvarp, og það sem það kveður á um, sé lykilatriði í því sambandi að fá fjárfesta til að leggja fjármagn til nýsköpunar og þá með Nýsköpunarsjóði. Þær 1.500 milljónir sem ég tiltók í ræðu minni fara þá væntanlega inn í svokallaðan sjóðasjóð þar sem aðrir koma að. Þannig getum við eflt nýsköpun í landinu og ég veit að hv. þingmaður er mér alveg sammála um að það sé mikilvægt.