Staða hjóna og sambúðarfólks

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 17:17:32 (6977)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:17]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ekki ætla ég að tefja framgang málsins með langri ræðu. Ég hafði ætlað mér að kveðja mér hljóðs í andsvörum en get komið viðhorfum mínum að í stuttri ræðu.

Í fyrsta lagi er ég ekki viss um að ég sé sammála hv. þingmanni um að hjónabandið sé undirstaða samfélagsins. Ég er þeirrar skoðunar að fjölskyldan sé undirstaða samfélagsins. Það er fullt af fólki sem ekki er í hjónabandi og ekki einu sinni í skráðri sambúð sem eigi að síður sinnir sínum góðu skyldum sem góðir samborgarar, bæði gagnvart börnum og öðrum sem eru partur af samfélaginu.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að skilgreiningin á fjölskyldu hafi með tímanum breyst. Sjálfur lít ég svo á að skilgreina beri sem fjölskyldu þá sem eru einstæðir með börn og út af fyrir sig líka þá sem búa einir. Sú litla eining er líka í nútímasamfélaginu fjölskylda. Þetta eru hornsteinar samfélagsins. Kerfið sem við höfum byggt upp hefur með samþykki allra flokka í gegnum tímann reynt að taka mið af þörfum þeirra sem verst eru staddir. Oft og tíðum eru það því miður þeir sem búa einir með lítil börn. Lítil börn krefjast mikils tíma og töluverðs kostnaðar. Sá sem elur önn fyrir börnum í uppvexti hefur ekki sömu möguleika til að afla sér mikilla tekna með jafnmikilli vinnu og er plagsiður okkar Íslendinga. Af því leiðir að stundum eru það einmitt þeir hópar sem þurfa sérstaks stuðnings við. Það kemur fram í hærri barnabótum. Það kemur líka fram í ýmiss konar tilhliðrunum eins og hvað varðar pláss fyrir börn á dagvistarheimilum og líka lægra verði. Þetta hefur verið talið jákvætt og flestir stjórnmálaflokkar hafa haft nokkurn dyn á hugmyndum af þessu tagi. Segja má að þær séu undirstaðan í velferðarkerfi okkar.

Ég tek það alveg skýrt fram að ég tók mætavel eftir því þegar hv. þingmaður sagði að tilgangur tillögunnar væri ekki sá að draga úr því sem þessu fólki er með einhverjum hætti veitt af samfélaginu til að jafna kjör þess, hugsanlega til að koma því í betri stöðu í samfélaginu, líka til að láta því líða betur. Ég held hins vegar að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi náð utan um stærsta hlutann af þeim vanda ef um vanda er hægt að tala. Hv. þm. Helgi Hjörvar gat þess réttilega að það væru ekki síst þeir sem búa eingöngu við framfærslu af hálfu ríkisins, eins og öryrkjar, ekki síst ungir öryrkjar sem líka hafa fyrir fjölskyldu að sjá sem lenda í mikilli fjárhagslegri neyð.

Nú get ég ekki staðfest slík dæmi sem hv. þingmaður nefndi. Vafalítið hefur hann rétt fyrir sér og hefur skoðað þetta. Ég skil hins vegar ákaflega vel þá sem í mikilli fjárhagslegri neyð reyna allt sem þeir geta til að fleyta sér áfram. Ég minnist þess fyrir nokkrum árum þegar mikil áhersla var á málefni öryrkja, þá fengum við þingmenn bréf þar sem einstakir landar okkar í þeim hópi sögðu að þeir ættu einskis annars úrkosti en hugsanlega að kljúfa fjölskylduna. Vísast er það staðfesting á því sem hv. þingmaður segir að við þær aðstæður geta einstaklingar sem með þeim hætti leysa sundur það band sem tengir fjölskylduna saman í gegnum sambúð komist betur af, en það er því miður algert neyðarúrræði. Sú staðreynd að þetta kunni að vera til í samfélagi okkar sýnir að verulegir gallar eru á samfélaginu.

Ég hugsa að kjör þess fólks sem býr við svona þröngar fjárhagslegar aðstæður hafi heldur rýrnað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Með þessu er ég alls ekki að sproksetja hv. þingmann en staðreyndin er einfaldlega sú að við höfum á síðustu árum séð það gerast að vaxandi hluti af tekjum þeirra sem eru með lágar tekjur falla ofan skattfrelsismarka. Þetta stafar af því að ríkisstjórnin hefur ekki hækkað skattfrelsismörk eins og annað sem hækkað hefur í samfélaginu sem við höfum yfirleitt notað til viðmiðunar þar við. Þetta leiðir mig að þeirri niðurstöðu að sá vandi sem hér er verið að reyna a.m.k. að leiða fram hafi magnast á síðustu árum og hann megi beinlínis að hluta til rekja til núverandi ríkisstjórnar og efnahagsstefnu hennar. Ég rifja það upp að árið 1995 þegar ríkisstjórnin tók við voru þeir sem höfðu framfærslu sína fyrst og fremst af strípuðum bótum að greiða í skatt 1–2% af þeim tekjum sem þeir höfðu sér til framfærslu. Í dag greiða þeir 14–15%. Vel er hægt að færa rök að því að kaupmáttur þeirra eða ráðstöfunartekjur hafi líka aukist á þeim tíma. En það er alveg ljóst að í sumum tilvikum eru menn fastir í gildrum þar sem þeir eru vegna einhvers konar erfiðleika, líkamlegra ágalla, tímabundinna eða varanlegra veikinda ófærir um að afla sér fjár til framfærslu með vinnu, þá lifa þeir á þessum bótum. Við höfum síðan einnig búið við kerfi eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á í sinni ágætu ræðu áðan þar sem mjög erfitt er fyrir fjölskyldur sem búa saman þar sem annar er í þeirri stöðu, að auka tekjur sínar með því að hinn heili í sambandinu vinni og vinni mikið.

Ástæðan er sú að það skerðir svo verulega og freklega þær bætur sem hinn aðilinn sem ekki er heill í sambandinu fær frá ríkinu. Þetta held ég að sé stærsti vandinn án þess að ég hafi skoðað þetta út í hörgul. Mér finnst ekki alveg sanngjarnt hjá hv. þingmanni að leiða getum að því að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi verið að vísa þessari tillögu út af borðinu. Mér fannst hann síður en svo vera að gera það þegar hann skoraði á hv. flutningsmenn að taka frekar á þessum vanda með því að leggja fram tillögur um hvernig væri hægt að ráða bót á honum, þ.e. með því að afnema tekjutengingar af örorkugreiðslunum eins og hv. þm. Helgi Hjörvar virtist í máli sínu einskorða sig við. Um þetta risu miklar deilur fyrir nokkrum árum. Um þetta féllu hæstaréttardómar sem voru þess eðlis að þeir þörfnuðust sérstakrar túlkunar við og þeir sem þeim túlkunum sættu fannst sér freklega misboðið.

Nú vil ég, frú forseti, af því að tími minn er að verða búinn, segja það alveg skýrt að ég hef ekki á móti því og vil frekar greiða götu þess að málið nái fram að ganga af því að það felur í sér skoðun á ákveðnum vanda sem hugsanlega er til staðar. Það er sjálfsagt að leiða þá stöðu fram og það speglar þá líka kjör þeirra sem búa við þær aðstæður að eiga einskis annars úrkosti en velta fyrir sér úrræðum af þessu tagi.