Staða hjóna og sambúðarfólks

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 17:25:44 (6978)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:25]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér flutti hv. þm. Össur Skarphéðinsson lærða ræðu og góða. Ég ætla að byrja á að vera sammála honum um að það er auðvitað alger neyð þegar fólk grípur til þess óyndisúrræðis að slíta samvistum vegna fjárhagslegra aðstæðna. En ég held að við séum alveg sammála um það þótt hv. þingmaður hafi komið inn á það að hann væri mér ósammála um að hjónabandið væri hornsteinn, heldur sagði hann að fjölskyldan væri hornsteinn þjóðfélagsins. Ég hef, hv. þingmaður, eiginlega leitt líkur að því og þarf ekki að hafa mörg orð um það að hjónabandið leiðir oftar en ekki til þess að það verður fjölskylda þannig að þetta er af sama meiði.

Varðandi síðan það sem komið hefur fram og kom fram í ræðu hv. þingmanns þá er það auðvitað allt það sem segja þarf og það eru miklu fleiri mál og atriði sem þarf vissulega að skoða. Við getum svo sem fært þetta í pólitískar umbúðir og sagt að árið 2005 eða 1995 eða hvenær sem það var hafi þessir hlutir gerst og þess vegna sé þetta komið upp og þessi staðreynd blasi við. Við skulum bara láta það liggja á milli hluta. En þeir aðilar sem fengju þennan starfa mundu eflaust leiða okkur í allan sannleika um það og skiptir þá ekki máli hvort menn hafi misstigið sig í pólitíkinni eða ekki en það sem við þurfum að fá fram er staða þessa fólks og eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á áðan þá er það öll flóran.