Staða hjóna og sambúðarfólks

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 17:27:41 (6979)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Margir þeirra sem ganga í hjónaband slíta því bandi og búa síðan hvor í sínu lagi. Stundum er forsjá barnanna deilt, stundum ekki. En eftir sem áður verða þær einingar sem úr slíkum slitum verða til partur af samfélaginu og þær eru fjölskyldan. Það er það sem að mínu viti er undirstaða samfélagsins og hornsteinar hennar. Hitt er auðvitað hárrétt að hjónabandið leiðir til þess að til verður fjölskylda með öllum þeim mörgu skyldum sem á því sambandi hvíla, eins og felst auðvitað vel í orðinu fjölskylda.

Ég ætla aðeins að leyfa mér, frú forseti, að segja að það er ábyggilega ekki tilviljun að það mál sem hv. þingmaður flytur hefur aldrei náð fram að ganga. Hv. þingmaður er vel af guði gerður og hefur meira að segja snert af jafnaðarmennsku í blóði sínu. Þess vegna lagði hann sterka áherslu á það í málafærslu sinni fyrir tillögunni áðan að ekki mætti samþykkt hennar og sú rannsóknarvinna sem fer í gang ef samþykkt yrði, leiða til þess að með einhverjum hætti yrði gripið til þess ráðs að rýra kjör þeirra sem fyrir eru. Væntanlega ætlast þingmaðurinn þá til þess að kjör hinna verði bætt. Það mun auðvitað kosta mjög miklar upphæðir þannig að einhvern tíma hef ég getað séð fyrir mér að hæstv. fjármálaráðherra, jafnvel forsætisráðherra, mundu segja að þetta væri útgjaldatillaga og það meira að segja af stærri sortinni. En það kynni þó ekki að vera að einmitt það væri ástæðan fyrir því að hún hefur ekki fengist samþykkt? Ef menn skoða þetta munu þeir væntanlega sjá þarna ákveðna ágalla sem þarf að bæta úr með því að lyfta þeim sem eru í sambúð eða hjónabandi til jafns við hina að þessu leyti og það hlýtur væntanlega að kosta mikla peninga. Þess vegna hefur tillagan ekki verið samþykkt hjá þessum púkum í ríkisstjórninni.