Rannsóknamiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 17:55:39 (6987)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Rannsóknamiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

223. mál
[17:55]
Hlusta

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim ágætu þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessu máli og lagt því lið, þeim Drífu Hjartardóttur og Magnúsi Þór Hafsteinssyni, sem eru báðir þingmenn í Suðurkjördæmi. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir þekkir þessi mál vel enda býr hún í næsta nágrenni við Gunnarsholt. Nákvæmlega þegar þessi orð eru töluð er landið okkar að fjúka burtu því á afréttum uppsveita Árnessýslu er heilmikið moldrok um þessar mundir og það er auðvitað alvarlegt mál.

En við erum afar stolt af starfi Landgræðslu ríkisins. Þar fer fram mjög myndarlegt starf og hefur gert um langan aldur. Þar ríkir ákveðin menning sem skiptir Ísland miklu máli, ég tala nú ekki um okkur á Suðurlandi og í Rangárþingi. Þetta er gríðarlega metnaðarfullt starf. Þar er mikil sérfræðiþekking fyrir hendi. Þar vinna margir sérfræðingar, háskólamenntað fólk og aðrir sem hafa sérþekkingu á þessum sviðum og mikla reynslu í þessum efnum.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson var einmitt að tala um gott landgræðslustarf, m.a. í Öræfum og eitt af fjölmörgum góðum verkefnum Landgræðslu ríkisins er kallað: Bændur græða landið. Þar sem bændur nýta þekkingu sína, fá áburð og annað slíkt hjá Landgræðslunni og vinna í raun og veru mjög gott og göfugt starf, bæði í Öræfum og á Suðurlandi öllu. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson talaði um að hann hefði tekið þátt í þessari umræðu á síðasta þingi. Það er hárrétt. En það vill nú þannig til að í þinginu gerast góðir hlutir hægt.

Þannig var að þegar ég var þingmaður 1995 flutti ég mína fyrstu þingsályktunartillögu um á hvern hátt mætti nýta þann trjávið sem til fellur við grisjun. Þetta var árið 1995 og menn voru dálítið glottaralegir á svipinn þegar ég flutti þessa þingsályktunartillögu. En 2003, eftir átta ár, var þessi þingsályktunartillaga samþykkt sem mér þykir auðvitað mjög merkileg tillaga vegna þess að það fellur mjög mikið til af trjáviði við grisjun á Íslandi og á eftir að falla meira af trjáviði í fyllingu tímans. Þannig að við verðum að gera okkur grein fyrir öllum þessum náttúruauðlindum.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan er jarðvegur og gróður auðlindir landsins, ekkert síður en sjórinn og vatnið o.s.frv. En ég endurtek þakkir mínar til þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég legg til að tillögunni verði vísað til landbúnaðarnefndar og vona að hún fái þar umfjöllun og verði samþykkt á þessu þingi.