Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 18:28:36 (6991)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:28]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður sagði um afstöðu Samfylkingarinnar er ekki alveg nógu nákvæmt finnst mér. Ég tel að það hafi komið skýrt fram að Samfylkingin sem slík hafi tekið afstöðu til þess að hugað verði að vörnum landsins með því að ræða við Atlantshafsbandalagið um þá hluti. Ég tel að skynsamlegt sé að gera það. Bandaríkjamenn eiga nú líka aðild að Atlantshafsbandalaginu þannig að það er ekki viðskilnaður við Bandaríkin. Ég tel eðlilegt að menn skoði hvað það er sem Bandaríkjamenn eru tilbúnir að gera hér. Það liggur fyrir að herinn er að fara. Bandaríkjamenn hafa lýst því yfir að hann er að fara. Svo skemmtilegt er það nú, ef svo má að orði komast, að tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs getur alveg staðist, jafnvel þó að einhver varnarsamningur yrði gerður við Bandaríkin á þeim grundvelli að hér yrði enginn her, eins og stendur til að verði ekki.

Tillögugreinin, ef hún er lesin, getur staðist þó svo að einhvers konar samningur um komu Bandaríkjamanna eða varnir kæmi til, svona samkvæmt orðanna hljóðan.

Ég vildi halda því til haga að Samfylkingin hefur haft þessa skoðun. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þessi mál í Samfylkingunni, við drögum enga dul á það. Það eru mismunandi skoðanir í Samfylkingunni á þessum málum. En þetta er þó sú niðurstaða sem flokkurinn hefur og ég fylgi henni.