Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 18:30:37 (6992)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:30]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir að leiða mér aðeins skýrar fyrir sjónir hvað Samfylkingin vill í þessum málum. Samkvæmt því sem hann segir er Samfylkingin sammála um þá niðurstöðu að leitað verði ákveðinna lausna innan ramma Atlantshafsbandalagsins og að það verði samráð á þeim grundvelli. Ég met það svo að í því felist sú skoðun að með einhverjum hætti sé nauðsynlegt að tryggja einhverjar varnir hér á landi. Hingað til hefur mér þótt afar óljóst hvort Samfylkingin væri yfir höfuð þeirrar skoðunar. Það kann að skýrast af því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, að auðvitað hefðu verið skiptar skoðanir innan Samfylkingarinnar eins og menn þekkja. Frá sögulegu sjónarmiði eru innan þess flokks bæði einstaklingar sem hafa verið mjög eindregnir stuðningsmenn varnarsamstarfs við Bandaríkin og aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu og eins ýmsir andstæðingar þessa varnarsamstarfs vestrænna þjóða.

Fyrir mig sem áheyranda að þeirri umræðu sem átt hefur sér stað innan Samfylkingarinnar þá hefur þetta hljómað þannig að Samfylkingin hafi átt afskaplega erfitt með að komast að niðurstöðu í þessum málum. Mér fannst það t.d. birtast í afgreiðslu flokksþings Samfylkingarinnar síðastliðið vor á þeim kafla eða á þeim hluta framtíðarstefnu flokksins sem laut að öryggis- og varnarmálum þar sem mér fannst niðurstaðan vera einhvern veginn á þá leið að menn ákvæðu að skila auðu. Hugsanlega er afstaða Samfylkingarinnar að skýrast og því ber að fagna en það væri hins vegar mikilvægt ef Samfylkingin talaði með skýrari hætti opinberlega í þessum efnum.