Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 18:34:46 (6994)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:34]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir það sem ráða mátti af ummælum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að breytingar í þessum efnum, ný staða getur vissulega gert það að verkum að við þurfum að skoða nýjar lausnir á mörgum sviðum.

Ég verð að játa það hins vegar að þó að afstaða Samfylkingarinnar hafi hugsanlega eitthvað skýrst þá finnst mér afstaðan enn þá harla opin, að allt sé mögulegt og ekkert útilokað. Mér finnst það a.m.k. á þessari stundu frekar óljóst samningsmarkmið en það kann að vera að sú þverpólitíska nefnd sem Samfylkingin hefur nú sett á fót undir forustu fyrrverandi utanríkisráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, muni leiða til þess að það muni alla vega nást þverpólitísk samstaða innan Samfylkingarinnar um einhverja niðurstöðu í þessum efnum. Ég held að það geti verið fagnaðarefni ef svo fer því það er auðvitað nauðsynlegt að sú niðurstaða sem verður eða þær lausnir sem verða ofan á í þessu sambandi njóti allvíðtæks pólitísks stuðnings í landinu. Ég hygg að afstaða Samfylkingarinnar komi auðvitað til með að skipta þar máli upp á að ná þeirri breidd í þetta sem þörf er.

Ég geri ekki ráð fyrir að það verði auðvelt að fá Vinstri hreyfinguna – grænt framboð inn í svoleiðis lausn vegna þess að sá flokkur er sögulega séð töluvert úti á kanti miðað við aðra flokka í þessu sambandi. Hins vegar vekur það auðvitað vissar vonir að menn sem koma vissulega úr þeim röðum innan Samfylkingarinnar sem andstöðu hafa haft við varnarsamstarf við vestræn ríki tali með þeim hætti sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur gert hér.