Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 18:54:06 (6997)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:54]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svo að hv. 1. þm. Reykv. n. hefur á síðari árum talað skýrar í þessum efnum en ýmsir samflokksmenn hans og það má vissulega taka ofan fyrir hv. þingmanni með að hann hefur verið eindregnari á síðari árum í stuðningi sínum við varnarsamstarf vestrænna þjóða en margir í hans flokki og vil ég með engum hætti gera lítið úr afstöðu hans að því leyti. Hins vegar eru nokkur atriði í ræðu hans sem er full ástæða til að svara.

Í fyrsta lagi það er lýtur að samningsmarkmiðum eða þætti og málflutningi íslenskra stjórnvalda í þessum efnum. Ég hafna því að ekki hafi verið fyrir hendi skýr markmið að þessu leyti. Af hálfu íslenskra stjórnvalda og þeirra stjórnmálaflokka sem hafa staðið að núverandi ríkisstjórn hefur sú stefnumörkun legið fyrir að núverandi fyrirkomulag væri fullnægjandi og hagfellt okkur Íslendingum, fæli í sér þær varnir sem við þyrftum á að halda og þess vegna hefur ekki verið hvati fyrir okkur hér á landi að hafa frumkvæði að því að leggja fram einhverjar aðrar lausnir. Við höfum sagt og á því hafa forsendur okkar byggst þegar við göngum til þessara samninga að við værum með fyrirkomulag sem hentaði okkur vel. Hefði það verið sniðugt, hefði það verið skynsamlegt af okkar hálfu að byrja á því að gera málamiðlun við sjálf okkur og tóna það með einhverjum hætti niður, eins og má ráða af orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar? Að við hefðum átt sjálfir að fara að prútta niður (Forseti hringir.) varnirnar samkvæmt varnarsamningnum?