Frumvarp um Byggðastofnun

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 15:19:28 (7013)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

3. fsp.

[15:19]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég tel að þótt ég hafi haldið blaðamannafund þá breyti það ekki miklu um vinnu í sambandi við byggðaáætlun sem fer fram í iðnaðarnefnd. Ég hef fengið þær fréttir að sú vinna gangi vel og lýsi yfir mikilli ánægju með að ætlunin sé að ná þar þverpólitískri samstöðu um málið, enda eru byggðamálin þannig vaxin að ég tel að allir vilji leggja gott til málanna. Það gleður mig mjög ef samstaða næst í hv. iðnaðarnefnd um þetta mikilvæga mál.

Ég kannast ekki við að ég hafi sprengt mikið í loft upp þótt ég kæmi á framfæri við þjóðina hugmyndum um breytingar á atvinnuþróunarumhverfinu og stuðningskerfi hins opinbera við atvinnulífið. Ég tel nokkuð ljóst að taka þarf á þeim málum. Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg þróun í sambandi við atvinnumál almennt. Við þurfum náttúrlega að sinna nýjum greinum, það er ekki þannig lengur að við lifum bara á landbúnaði og sjávarútvegi einum, með fullri virðingu fyrir þeim greinum. Það er margt nýtt að koma inn sem þarf að sinna og þetta frumvarp gengur m.a. út á það.

Það er þar að auki í fyrsta lagi í samræmi við stjórnarsáttmálann sem kom fram fyrst hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Um þetta mál hafði náðst samstaða á milli stjórnarflokkanna í ríkisstjórn. Ég er bjartsýn á að það verði að lögum á vordögum.