Endurskoðun jarðalaga vegna uppkaupa á jörðum

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 15:31:32 (7021)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Endurskoðun jarðalaga vegna uppkaupa á jörðum.

[15:31]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki sett mér nein markmið sjálfur varðandi búsetuskilyrði. Sannleikurinn er sá — við þekkjum það kannski best úr kjördæmi okkar, ég og hv. þingmaður — að hinni glæsilegu þróun hefur fylgt það að margt fólk sest að í héraði okkar og reyndar víðar um land, fólk sem starfar jafnvel í höfuðborginni eða úti í heimi. Það er á lögbýli sínu, tekur þátt í menningarlífinu og líður óskaplega vel að búa við hjarta þessa lands í náttúrunni. Ég vil engu spilla í þeim efnum.

Mér finnst aftur á móti sjálfsagður hlutur að fara yfir þetta. Undir búvöruframleiðslu erum við í dag kannski með um 2.000–2.500 jarðir af 6.000–7.000 jörðum á Íslandi. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá í sveitirnar fólk sem hefur áhuga á skógrækt, ferðaþjónustu, að búa í náttúrunni. Því má ekki spilla en hins vegar er sjálfsagt að skoða þróun sem mönnum finnst ógna sér og stöðunni. Það er fyrst og fremst það sem ég hugsa um. Í gömlu jarðalögunum (Forseti hringir.) voru búsetuskilyrði sem gengu ekki upp því að sveitarfélögin fylgdu þeim ekki eftir.