Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 17:40:58 (7049)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur 1. umr. þessa máls, ég veit að það hefur örugglega hryggt hv. formann sjávarútvegsnefndar, og hugsanlega kann það að valda nokkru um vanþekkingu mína á örfáum atriðum sem tengjast málinu.

Ég heyrði á máli hv. þingmanns að hann lítur ekki á lögin um stjórn fiskveiða sem einhvern heilagan hlut. Hv. þingmaður sagði að það mætti breyta þeim ef þyrfti. Ég velti því hins vegar fyrir mér á hvaða grundvelli menn eru reiðubúnir til að breyta stjórnkerfinu. Það hefur alltaf verið sagt að stjórn fiskveiða á Íslandi sé byggð á vísindalegum rökum og ég velti því þá fyrir mér á hvaða vísindalegu rökum sú tillaga er reist að ekki eigi að fara hærra í hámarkinu en 6% í þorski og 9% í ýsu. Þegar menn taka ákvarðanir af þessu tagi, leggja fram svona tillögur, þá hljóta þeir að gera það á grundvelli einhverra vísindalegra raka. Menn hljóta að gera það samkvæmt ráðgjöf einhverra sem hafa sérþekkingu á greininni og nú veit ég að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson hefur samviskusamlega sinnt starfi sínu sem formaður nefndarinnar og hann hlýtur að hafa rannsakað þetta til hlítar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Á hvaða grundvelli eru þessar prósentutölur reistar? Er það ekki örugglega gert á grundvelli einhverrar vísindalegrar skoðunar?