Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 17:43:41 (7051)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef það að meginreglu í umræðum um smábáta að ég fylgi alltaf því sem Landssamband smábátaeigenda segir. Ég tel að þeir hafi mikið og gott vit á þessum málum.

En þá hefur það komið fram hjá hv. formanni sjávarútvegsnefndar að þetta mál er ekki byggt á neinum vísindum. Það er bara gripið utan úr loftinu, byggt á einhverju sem ekki er einu sinni tilfinning kannski. Það er sem sagt einhvers konar tilviljun sem veldur því að það er þessi tala en ekki einhver önnur. Eða er það rangt hjá mér? Getur verið að það sé einhver hugsun á bak við þetta? Ég held, frú forseti, að það hljóti að vera, og að hæstv. sjávarútvegsráðherra og þar með formaður sjávarútvegsnefndar telji að hæfilegt sé að fara ekki hærra en þetta sem hámark.

Mig langar því að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar. Ef löggjafinn telur að ekki eigi að fara hærra en 6% í þorski og 9% í ýsu og 6% í eigu tengdra aðila, er þá ekki jafnnauðsynlegt að hafa hámörkin jafnlág í öðrum greinum flotans?