Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 17:45:50 (7053)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:45]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum nú enn eina breytinguna á lögum um stjórn fiskveiða. Það eru tvær, þrjár, upp í fjórar breytingar á ári sem gera þarf á þessum lagabálki þar sem menn tala mikið um nauðsyn þess að halda stöðugleika og gera litlar breytingar. Það sem vekur athygli við þessi frumvörp núna um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er hvað miklar breytingar sjávarútvegsnefnd leggur til á þeim eftir að þau eru komin hér inn í þingið og eftir að hæstv. ráðherrann hefur lagt þau fram.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra færði hér ákveðin rök fyrir því í máli sínu við 1. umr. að rétt væri að miða við 6% í þorski í krókaaflahámarki og 9% í ýsu, samtals 6% af heild. Hv. framsögumaður sjávarútvegsnefndar rífur niður öll þau rök hér í ræðu sinni og leggur til, og meiri hluti nefndarinnar, allt aðrar prósentur en ráðherrann færði rök fyrir í 1. umr. Mig langar að spyrja hv. formann hvað veldur að meiri hluti sjávarútvegsnefndar er á svo allt annarri skoðun en ráðherrann þegar hann lagði fram sitt frumvarp og meiri hlutinn virðist ekki taka undir rök hæstv. ráðherra sem hann flutti hér í 1. umr. varðandi þessar prósentur.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er að hann nefndi að tillögurnar eins og þær koma núna frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar komi til með að koma sér afar illa fyrir eitt fyrirtæki. Það fyrirtæki þurfi í raun að endurskoða alla sína starfsemi og verði fyrir talsverðum skaða af þessum breytingum. Sami hv. formaður stóð hér áðan og talaði um jöfnunarpottinn. Að ekki mætti skerða afturvirkt rétt manna sem þeir hefðu áður haft. Var þá að tala um útgerðir sem aldrei höfðu fengið úthlutað úr jöfnunarpotti. Að þær yrðu að fá að halda þessum rétti sínum.

Því spyr ég hv. formann: Hvað um fyrirtækið Stakkavík í Grindavík? Á það engan rétt?