Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 18:27:51 (7066)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða aftur en um er að ræða annað mál en við ræddum undir síðasta dagskrárlið. Hér er verið að flytja frumvarp sem varpar í raun rekunum á sóknardagakerfið fyrir krókabáta sem fellur niður í lok þessa árs en 1. gr. frumvarpsins sem nú er flutt fjallar um að felld verði úr lögum um stjórn fiskveiða ákvæði um sóknardagakerfi fyrir krókabáta.

Sóknardagakerfið var leið sem grunnslóðarflotinn fann í kvótakerfinu fyrir nokkrum árum og gat þannig byggt sig upp að nýju í ákveðnum byggðarlögum og gerði m.a. kleift að stórefla útgerð að nýju í byggðarlögum, t.d. á Vestfjörðum, sem höfðu lent mjög harkalega úti í hinu framseljanlega kvótakerfi sem keyrt var yfir sjávarútveginn og byggðirnar vítt og breitt um landið, kvótakerfi sem hafði að engu réttindi eða hagsmuni íbúanna í byggðarlögunum heldur var því ætlað að ganga fyrst og fremst hagsmuna stórútgerðar og fjármagnseigenda í sjávarútvegi.

Með lögum í fyrra var sóknardagakerfi þessara báta breytt í framseljanlegar aflaheimildir, nokkuð sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs börðumst gegn. Við vildum halda sóknardagakerfinu því það gaf þó vissa möguleika, bæði fyrir nýja aðila til að koma inn í fiskveiðarnar og einnig hafði það sýnt sig að vera afar mikilvægt fyrir sjávarbyggðir sem m.a. höfðu orðið illa úti í kvótakerfinu og fyrir fiskvinnsluna í þeim byggðum. Þá sýndi sig líka hversu smábátaflotinn var mikilvægur fyrir þá fiskvinnslu sem ekki rak eigin útgerð. En hagsmunir stórútgerðar, þessi ofboðslega blinda trú á takmarkalausa hagkvæmni stærðarinnar og að ganga erinda fjármagnseigenda réð ferð hjá ríkisstjórninni, sem í svo mörgu öðru. Í þessu frumvarpi er endanlega verið að fella sóknardagakerfið úr lögum.

2. gr. er einmitt dæmigerð um hvernig lög eru sett hugsunarlaust um stjórn fiskveiða. En eins og frumvarpið var flutt á sínum tíma, segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 6% af þorski og 9% af ýsu miðað við heildarkrókaaflahlutdeild í hvorri tegund.

Við fyrri málslið 2. mgr. bætist: eða meira en 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.“

Það reyndist nefnilega svo að eftir að aflaheimildir smábátanna voru gerðar framseljanlegar og sóknardagakerfið lagt af fóru útgerðaraðilarnir að kaupa upp aflaheimildir. Þetta gekk mjög hratt fyrir sig. Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 19. október 2005, herra forseti, má sjá hvaða áhrif eins árs reynsla af þessu kerfi, þ.e. að leggja niður sóknardagakerfið og gera það framseljanlegt, hefur haft á smábátaflotann. Þar segir, með leyfi forseta:

„Miklar breytingar hafa orðið á smábátaflotanum við afnám sóknardagakerfisins. Bátarnir hafa stækkað og þeim hefur fækkað. Við upphaf þessa fiskveiðiárs, þ.e. frá 1. september 2005, voru krókaaflamarksbátar 628 og hafði fækkað um 108 á einu fiskveiðiári.

Meðalstærð bátanna er nú 6,19 brúttótonn og hafa þeir að meðaltali stækkað um 17,5% frá árinu 2003. Nú er 571 krókaaflamarksbátur með hlutdeild í þorski og hefur þeim fækkað um 113 báta á einu ári. Nú eru 78 bátar, eða 13,7% heildarinnar með helming allra aflaheimilda í þorski en fyrir ári voru 128 bátar með helming veiðiheimildanna. Það hefur því orðið veruleg samþjöppun í þessu flota, bátum lagt og heimildir færðar yfir á aðra báta. Mikil tilfærsla hefur orðið á aflaheimildum milli staða. Langmest hefur flust til Reykjaness, sem hefur bætt við sig 2.903 þorskígildum og 1.621 tonni af þorski. Mest af þessu hefur flust til Grindavíkur, eða 1.207 tonn af þorski. En mest hefur þó verið flutt frá Vestfjörðum eða 1.840 þorskígildi og 1.704 tonn af þorski.“

Við þessa breytingu er alveg ljóst að þeir landshlutar sem höfðu lent hvað harðast í kvótakerfinu á sínum tíma, þegar kvótinn var miskunnarlaust keyptur burt úr byggðunum, nú verða sömu byggðarlög aftur hart úti. Enn og aftur leggst þetta kerfi með fullum þunga á að rýra kjör og möguleika fólksins sem hafði sest að eða búið um langan aldur í þessum byggðarlögum og byggt upp þennan atvinnuveg á heimaslóð, fiskvinnslu og útgerð, ekki var gerður greinarmunur á rétti þeirra sem unnu í landi eða á sjó, allir áttu jafnan hlut að því að nýta og vinna þau verðmæti sem fiskurinn er, og eftir stendur fólk varnarlaust gagnvart þessari miskunnarlausu fiskveiðistjórn. Þessi breyting hefur orðið aðeins á einu ári bara á þessum bátaflota við það að leggja niður dagabátana og gera þá að framseljanlegum kvóta.

Við lifum aftur slíka samþjöppun sem á nú að fara að bregðast hér við, þessa miklu samþjöppun. Það er svo sem góðra gjalda vert að bregðast við samþjöppun sem er að verða á smábátaflotanum. En þetta var samt fyrirsjáanlegt í því kerfi sem þarna var sett upp og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðum við því á sínum tíma að með breytingunni væri enn verið að auka á samþjöppun í sjávarútveginum og skerða kjör og möguleika sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið.

Þessi tilraun að setja þarna mörk á fékk mjög afdráttarlausa umsögn, t.d. Landssambands smábátaeigenda sem hvöttu mjög til þess að hærri mörkin yrðu færð niður, gerð lægri. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að hámarkið væri miðað við 6% af þorski og 9% af ýsu, sem hver einstaklingur eða útgerð, eða lögaðili mætti eiga af heildarkrókaaflamarkshlutdeildinni. En stjórn Landssambands smábátaeigenda leggur til að þessi stærð sé neðar og ég vil leyfa mér að vitna til umsagnar Landssambands smábátaeigenda hvað varðar þetta mál. Í umsögn þeirra sem dagsett er 21. febrúar 2006 segir, með leyfi forseta:

„Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda mánudaginn 20. febrúar 2006 tók stjórnin til umfjöllunar frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem takmarkar krókaaflahlutdeild fyrirtækja og einstaklinga. Stjórnin samþykkti eftirfarandi: „Stjórn Landssambands smábátaeigenda telur að þau hámörk sem sett eru í framkomnu frumvarpi séu allt of há og beinir þeirri eindregnu áskorun til hæstv. sjávarútvegsráðherra og sjávarútvegsnefndar Alþingis að lækka þau í 3%.“

Jafnframt lýsir stjórn Landssambands smábátaeigenda því yfir að hún telur eðlilegt að sett séu ákvæði til bráðabirgða gagnvart þeim aðilum sem nú þegar kunna að vera komnir yfir 3% hámörk þar sem núverandi stöðu þeirra verði ekki raskað en slíkt ákvæði kæmi til endurskoðunar að 10 árum liðnum. Stjórn Landssambands smábátaeigenda minnir á að aflaheimildir smábátaflotans eiga sér sterkar sögulegar rætur í einstaklingsútgerð og dreifðri eignaraðild. Barátta félagsins hefur frá upphafi byggst á þeim grunni og enginn vafi leikur á að hið sama gildir um hinn mikla stuðning stjórnvalda og almennings.“ — Ég vil sérstaklega nefna „almennings“ því mér hefur ekki fundist stjórnvöld sýna smábátaútgerðinni stóran skilning, t.d. með því að afnema sóknardagakerfið. — „En af framangreindum tillögum telur stjórn Landssambands smábátaeigenda að hún mæti tvenns konar sjónarmiðum, annars vegar því að veiðiheimildir smábátanna safnist ekki á örfáa báta og hins vegar að raska ekki stöðu þeirra sem mestar veiðiheimildir hafa í krókaaflamarkinu nú um stundir.“

Ég held að flestum hafi komið á óvart hversu samþjöppunin var orðin mikil og hvað hún hafði gengið hratt fyrir sig. Þannig að þegar var verið að ræða þessi viðmið bjuggust engir við, eða a.m.k. bjóst ég ekki við að þetta væri komið svo hátt sem raun ber vitni hjá einstaka útgerðum. Nú hefur meiri hluti hv. sjávarútvegsnefndar lagt til að þær hámarkshlutfallstölur sem voru í upphaflega frumvarpinu verði lækkaðar, þ.e. 6% af þorski, hámark af þorski og 9% í hámarki af ýsu verði að lækkað niður í 5% og hlutfallstölur í heildarverðmæti krókaaflamarkshlutdeildar verði lækkaðar úr 6% niður í 5%. Mér finnst þetta vera til bóta og viðbrögð meiri hlutans eru því jákvæð. Ég hefði viljað ganga enn lengra, ég tel að það hefði átt að lækka þetta enn meir. Það er nauðsynlegt að tryggja þessari útgerð þá fjölbreytni sem henni er mikilvæg, að sem flestir geti stundað þessa útgerð og sett sér hámark til að einstaklingar eða einstakir lögaðilar geti ekki sölsað hana undir sig, eins og leitt geti til í óbreyttum lögum.

Þess vegna hef ég lagt fram hér breytingartillögur á þskj. 1084, þar sem mér þykir rétt hvað þetta varðar að fara fullkomlega að tillögum Landssambands smábátaeigenda varðandi hámörkin, þ.e. að hámarkshlutdeild einstaklings eða lögaðila í útgerð í þessum flota megi aðeins vera 3% af heildarkrókaaflamarkshlutdeildinni bæði hvað varðar þorsk og ýsu, að hámarkið sé sett 3%. Sömuleiðis verði hlutfallstölurnar í heildarverðmæti krókaaflamarksins einnig 3% eða eins og tillaga Landssambands smábátaeigenda gerir ráð fyrir. Mér finnst mjög mikilvægt að tekið sé á þessu máli strax. Það hefði náttúrlega átt að gera þetta í fyrra um leið og dagakerfið var afnumið eða réttara sagt veitt heimild til að breyta sóknardögum í aflamarkshlutdeild, þá hefði átt að setja jafnframt strax hámark, en betra er seint en aldrei og er það í sjálfu sér hægt að fagna að þetta sé komið fram nú því breytingarnar eru það örar.

Við sjáum hvað er að gerast í öðru. Við sjáum hverju við stöndum frammi fyrir t.d. í landbúnaðinum þar sem einstakir lögaðilar eru nú að safna framleiðslurétti í mjólk og beingreiðslum í sauðfé. Þar hafa ekki enn verið sett nein hámörk þannig að einstakir aðilar, lögaðilar, stunda nú nánast hömlulaus uppkaup á mjólkurkvóta, framleiðslurétti í mjólk, og þar af leiðandi líka ávísun ríkisvaldsins á beingreiðslur í mjólk. Sama er varðandi sauðfé. Þetta er ógnvænlegt og mér þykir mjög miður það kraftleysi sem virðist vera af hálfu forsvarsmanna landbúnaðarins hvort sem það er hjá Bændasamtökunum eða hér hjá landbúnaðarráðherra og stjórnvöldum, það er kraftleysi í þeim að taka ekki á þessu máli.

Ég hef flutt á Alþingi lagafrumvarp þar sem lagt er til að sett sé hámark á eign einstaklings eða lögaðila í framleiðslurétti á mjólk og kjöti og reyndar í öðrum matvælagreinum, bæði til að tryggja dreifða og örugga framleiðslu en líka til að tryggja matvælaöryggið á því sviði vegna þess að því færri aðilar sem eru í greininni þeim mun meiri áhætta er náttúrlega ef eitthvað kemur upp á.

Svo er líka afar óeðlilegt, eins og í landbúnaðinum, að einstakir lögaðilar geti með þessum hætti safnað að sér stuðningi ríkisins við þessa framleiðslu sem miðar fyrst og fremst að því pólitískt að tryggja dreifða búsetu, góða landnýtingu og matvælaöryggi. En eins og nú er eru þar engar skorður settar. Því ber að fagna að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur auga fyrir því að þessu þurfi að kippa í liðinn þó að hann hefði átt að gera það í fyrra. (Gripið fram í: Hann er smekkmaður.) Hæstv. ráðherra er smekkmaður eins og hann segir sjálfur en hann hefði átt að gera þetta í fyrra því að það lá alveg ljóst fyrir að þetta mundi gerast. Hæstv. sjávarútvegsráðherra er þó maður að meiri, betra er seint en aldrei, að koma fram með þetta frumvarp nú áður en verr er farið og meiri samþjöppun orðin. Ég vona að þetta frumvarp sé þá líka það pottþétt að ekki sé hægt að fara í kringum þessar reglur, að ekki sé hægt að bora sig í gegnum kerfið og fara aftan að vilja Alþingis í þessum efnum og komast þannig yfir fiskveiðiheimildirnar.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti lýst því yfir að þetta kerfi sé eins pottþétt og lagt er nú upp og hér er ætlunin, og að ekki sé með klókindum og refskap eða með öðrum nálgunum eða ímyndun hægt að komast aftan að kerfinu og safna upp aflaheimildum. (Gripið fram í: Það er örugglega hægt.) Ég treysti svolítið á sjávarútvegsráðherra í þessum efnum og þess vegna þætti mér afar vænt um ef hann gæti gefið yfirlýsingu hér — því að ég er alltaf svolítið vantrúaður — að þetta kerfi verði alveg pottþétt og að ekki sé hægt að fara aftan að vilja sjávarútvegsráðherra og væntanlega vilja Alþingis hvað það varðar að sporna við samþjöppun veiðiheimilda hjá krókaaflamarksbátum með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, umfram það sem heimildir þar verða settar um. Ef hæstv. ráðherra gæti gert það og sannfært mig um það yrði ég býsna ánægður. (Gripið fram í: Og hamingjusamur.) Já, ég verð að segja það, því að mér hefur virst að í allri þessari umræðu, ekki síst um sjávarútvegsmálin, séu menn nánast árlega að staga upp í gatið sem myndast hefur á lögunum þannig að þetta eru orðin margstoppuð lög.

Varðandi ákvæðið um þá sem nú þegar eru komnir yfir hámörkin sem sett eru þá finnst mér eðlilegt að þeir fái aðlögunartíma til að færa sig aftur niður, því að þessar fiskveiðiheimildir eru ekki eign í þeim skilningi að þær séu eignarheimildir heldur eru þetta fyrnanleg réttindi sem fyrnast á ákveðnum tíma og hvort það tímabil eru fimm ár eða tíu ár skiptir ekki meginmáli. Aðalmálið er að hin pólitísku mörk séu sett og síðan aðlagi útvegurinn sig að þeim. Þessi lágmörk eru kannski meginmálið sem ég vildi koma hér að, herra forseti, að forðast samþjöppun og tryggja dreift eignarhald á útgerðinni.

Ég hef leitt hugann að því hvort ekki væri rétt að setja lög um einstaklingsútgerðir sem hefðu ákveðinn forgang, einstaklingsútgerðir miðaðar við ákveðinn stærðarflokk báta og útgerðaraðila, einstaklingsútgerðir þar sem sett væri sú kvöð að eigandi aflamarksheimildanna yrði jafnframt að vera á bátnum og það væri ekki hægt að vera með aflaheimild eins og hverja aðra verslunarvöru hjá aðilum sem eru kannski óviðkomandi útgerð að öðru leyti. Það skiptir miklu máli í þessum atvinnuvegi að tryggja einstaklingsframtakið hjá þeim sem raunverulega eru í útgerð og stunda fiskveiðar og það eru einmitt þeir sem eru greininni, byggðunum og atvinnuveginum í heild mjög dýrmætir. Ég teldi brýnt að setja lög um einstaklingsútgerðir og að þau mundu þá verða ein girðingin enn til að koma í veg fyrir uppsöfnun aflaheimilda á hendur aðila sem kannski tengjast ekki einu sinni útgerð að öðru leyti.

Varðandi önnur atriði sem þetta frumvarp kveður á um þá fór ég við 1. umr. ítarlega yfir þann þátt sem lýtur að rækjuútgerðinni. Rækjuútgerðin á Íslandi stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda. Hann hefur verið fjölþættur, gengið hefur verið mjög óhagstætt, það hefur verið skortur á rækju á Íslandsmiðum og aflabrestur á öðrum miðum sem Íslendingar hafa sótt og verð á mörkuðum hefur einnig verið mjög lágt. Rækjuverksmiðjunar eru nú hver á fætur annarri að loka af þessum ástæðum, sem eru gríðarleg áföll fyrir þær byggðir sem um er að ræða.

Mér finnst ábyrgð þjóðarinnar vera mikil í þessum efnum vegna þess að sú stefna var sett upp, meira eða minna handstýrt af stjórnvöldum, að hvert byggðarlag ætti að sérhæfa sig á einhverju sviði innan sjávarútvegsins. Eitt byggðarlagið skyldi vera með rækju, annað með saltfisk og það þriðja með frystingu, flakavinnslu og þess háttar. Þetta átti að skapa svo mikil samlegðaráhrif og skila svo mikilli hagkvæmni fyrir sjávarútveginn í heild. Þetta var síðan byggt upp. Heilu byggðarlögin voru sett undir það að láta sjávarútveg sinn hvíla langmest á rækjuiðnaði en nú þegar á bjátar, þegar sýnt er að t.d. rækjan gengur ekki upp, a.m.k. ekki eins og er, þá standa þessi byggðarlög meira eða minna varnarlaus, ofurseld þessari hagræðingarstefnu og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar. Mér finnst þjóðfélaginu bera samfélagsleg skylda til að styðja við uppbyggingu á fjölþættu atvinnulífi á viðkomandi stöðum á ný sem byggir á auðlindum og afli á heimaslóð. Númer eitt væri t.d. að fara að stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að þriðjungur fiskveiðiheimildanna yrði bundinn byggðarlögunum. Það væri strax mikilvægt skref í þá átt.

Eins og fiskveiðistjórnarkerfið er nú og skipan mála í fiskvinnslu þá eru íbúarnir í viðkomandi byggðarlögum gjörsamlega ofurseldir þessu þrátt fyrir að þeir hafi í gegnum áratugina byggt upp þessa auðlind. Það frumvarp sem við erum að fjalla um, þó að í litlu sé, er að bregðast aðeins við þessu og hindra frekari samþjöppun varðandi krókaaflamarksbátana með því að setja á þá hámark og það finnst mér vera spor í áttina þó að það hefði mátt gerast fyrr. Ég legg til að þessi hámörk séu lægri, að hámarkið sé bundið við 3% hvað varðar bæði þorsk og ýsu og heildaraflamarksverðmæti, að það sé sett sem hámark og þar verði farið að tillögu Landssambands smábátaeigenda sem hefur einmitt bent á gríðarlegt mikilvægi þessarar útgerðar sem okkur ber, að mínu viti, skylda til á Alþingi að standa vörð um. Ég legg það til en ítreka það sem ég hef áður sagt að þessi atriði í frumvarpinu og sérstaklega breytingar af hálfu meiri hluta sjávarútvegsnefndar eru þó mikilvægt spor í þessa átt.