Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 18:59:16 (7067)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er kannski rétt að minna á í upphafi að tilgangur laga um stjórn fiskveiða er eins og segir í 1. gr. í lögum nr. 38/1990, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra“ — þ.e. fiskstofnanna — „og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Ætli við verðum ekki að líta svo á, hæstv. forseti, að það frumvarp sem við ræðum hér sé fram komið vegna þess að menn hafi áhyggjur af því hvað verði um trausta atvinnu og byggð í landinu, ef svo heldur fram sem verið hefur um samþjöppun aflaheimilda í því kerfi sem almennt er nú kallað smábátakerfið en heitir í dag krókaaflamarkskerfi.

Miklir tilflutningar hafa orðið á aflaheimildum og menn hafa vitað lengi að slíkur tilflutningur hefur veruleg áhrif á atvinnustig í byggðarlögum sem verða fyrir því að missa frá sér aflaheimildir eða þar sem skipum fækkar mikið — í framhaldi af því hefur fiskvinnslustöðvum fækkað og vinnustöðum í fiskvinnslu.

Þetta hefði, hæstv. forseti, ekki átt að koma neinum á óvart, því að þessi þróun hefur öll verið skrifuð í skýrslur sem unnar hafa verið fyrir stjórnvöld. Það hefur oft verið sagt hér, þegar við höfum verið að velta fyrir okkur þeirri ákvörðun stjórnvalda að kvótasetja aukategundir í veiðikerfi smábátanna, þorsk, ýsu, ufsa, keilu, löngu o.s.frv., hvaða afleiðingar það mundi hafa. Ég hygg að margir hafi bent á að þegar þessar tegundir yrðu allar komnar inn í kvóta yrði líklega sama þróun í veiðikerfi smábátanna og varð í hinu almenna aflamarkskerfi. Það yrði sem sagt samþjöppun, verð á kvóta mundi hækka og fiskiskipum fækka. Í kjölfarið mundi svo fylgja fækkun atvinnutækifæra á mörgum stöðum landsins og fólksfækkun.

Því miður hefur þetta víða gengið eftir eins og sagt og skrifað hefur verið. Ég er með tvær skýrslur fyrir framan mig, hæstv. forseti. Í fyrsta lagi skýrsluna Sjávarútveg og byggðaþróun á Íslandi sem var unnin fyrir Byggðastofnun í mars 2001. Það er fróðlegt að glugga í samantekt í henni vegna þess að hún var gerð í þeim tilgangi að skoða hvaða áhrif tilflutningur á aflaheimildum hefði á þær byggðir sem höfðu orðið fyrir því, hvaða áhrif það hefði á byggðir þar sem skipum hefði verulega fækkað eða fiskvinnslustöðvum fækkað í kjölfar minnkandi aflaheimilda. Síðan var unnin önnur skýrsla sérstaklega fyrir Vestfirði, en eins og allir vita eru Vestfirðir ákaflega háðir fiskveiðum og sjávarútvegi og sennilega enginn landshluti eins háður því hlutfallslega um áratugi. Gerð var sérstök úttekt á áhrifum kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestförðum sérstaklega.

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt, þegar við nú skoðum afleiðingarnar af kvótasetningunni í smábátakerfinu, að við rifjum upp viðvörunarorðin sem stjórnvöld og alþingismenn fengu að heyra ef lagt yrði út á þá braut sem stjórnvöld síðan gerðu. Stjórnarandstaðan mælti öll eindregið gegn því að aukategundirnar yrðu kvótasettar og eins mælti hún gegn því að veiðikerfi smábátanna á handfærum, þ.e. sóknardagakerfið, yrði aflagt. Samt voru þessar leiðir báðar farnar og það var auðvitað meiri hlutinn hér í Alþingi, þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, sem keyrði þessar breytingar fram. Við erum núna að fást við afleiðingarnar af þessum gjörðum og því tel ég rétt að rifja upp hvaða vitneskju menn höfðu áður en þessi lög voru sett, áður en þessi verk voru unnin — við erum núna að takast á við afleiðingarnar af þeim og reyna að sporna við því að samþjöppunin verði allt of hröð og setja takmörkun á það hvað eitt fyrirtæki megi eiga miklar aflaheimildir í krókaaflamarkskerfinu, veiðikerfi smábátanna.

Mig langar að vitna í þessar skýrslur eftir hendinni og vil byrja á að vitna í skýrsluna um Sjávarútveg og byggðaþróun á landinu í heild. Þar eru tekin nokkur dæmi sem ég ætla að vitna í. Eins og ég sagði var henni skilað á árinu 2001 og var hún úttekt á því hvað hefði verið að gerast í stóra kerfinu og menn hefðu þar af leiðandi átt að geta lært af því. Menn voru að skoða ákveðna þróun sem hafði átt sér stað. Í lokasamantekt segir m.a., með leyfi forseta:

„Mest er skerðingin á Vestfjörðum, þar sem veiðiheimildir í þorskígildistonnum eru um 45% af því sem þær voru fiskveiðiárið 1992/93.“

Þær hafa sem sagt dregist saman um 45% á árunum frá 1993 og fram til fiskveiðiársins 2001.

Þetta hafði gerst, hæstv. forseti, á sama tíma og veiðiheimildir í þorski höfðu þó verið að aukast, höfðu aukist um 8% á yfirstandandi fiskveiðiári þegar þessi skýrsla var unnin árið 2001, samanborið við fiskveiðiárið 1992–1993.

Þegar þessi vitneskja lá fyrir gátu menn auðvitað séð að mikil hætta var í því fólgin að aflaheimildir færu frá sjávarútvegsstöðum þar sem atvinnulíf var einhæft og byggði að stórum hluta á einni undirstöðuatvinnugrein.

Á fiskveiðiárinu 1992/1993 var úthlutað aflamarki í þorski til skipa sem höfðu heimahöfn á Vestfjörðum, rúmlega 23.000 tonnum af þorski. Þegar skýrslan var unnin á árinu 2000–2001 var þorskúthlutunin orðin aðeins tæp 13.000 tonn. Hafði minnkað um 10.338 tonn á þessu árabili þrátt fyrir að aflaheimildir hefðu aukist á milli áranna. Í kjölfar þessara hremminga átti ákveðin þróun sér stað og sú þróun var afar dapurleg fyrir umræddar byggðir. Í þessari skýrslu segir, með leyfi forseta, undir millikaflanum Byggðarlög í vanda:

„Á 15 árum, þ.e. 1980 til 1994, fjölgaði íbúum á Ísafirði og Hnífsdal um 217. Frá 1995 til 2000“ — á sama tíma og aflaheimildirnar fóru frá þessum stöðum — „fækkar þeim öll árin og nemur fækkuninni samtals 433 íbúum.“

Árið 1996 voru starfandi sjö fiskvinnsluhús á Ísafirði og í Hnífsdal með yfir 35 manns og fleiri við fiskverkun. Samtals störfuðu hjá þessum fyrirtækjum 620 manns í fullu starfi.

Það fór hins vegar svo, hæstv. forseti, að störfum í fiskvinnslu hjá umræddum fyrirtækjum, með 35 manns og fleiri í vinnu á Ísafirði og í Hnífsdal, fækkaði um 430. Sama þróun varð í Hrísey. Þar voru íbúar 277 í árslok 1994 en voru 188 árið 2000. Á þeim tíma höfðu aflaheimildir Hríseyinga minnkað úr 4.038 tonnum niður í 579 tonn fiskveiðiárið 2000/2001 eða um 3.459 þorskígildistonn. Mönnum hefði átt að vera það ljóst, með því einu að líta á þessa skýrslu sem var unnin almennt yfir landið, hvað það hefði að segja fyrir sjávarbyggðir sem voru með tiltölulega einhæfan atvinnuveg ef aflaheimildir færu í miklum mæli frá ákveðnum stöðum, skipum fækkaði og fiskvinnslustöðvum fækkaði. Það er sem sagt bein tenging á milli þess í sjávarbyggðunum að aflaheimildirnar séu til staðar og að fólk geti búið þar og hafi þar atvinnutækifæri. Í lokaorðum skýrslunnar segir svo, með leyfi forseta:

„Hér að framan hefur verið leitast við að svara þeirri fyrirspurn stjórnar Byggðastofnunar hvort lögin um stjórn fiskveiða hafi haft áhrif á byggðaþróun í landinu. Ljóst er að ákvæði laganna um frjálst framsal veiðiheimilda hefur haft víðtækar afleiðingar á þróun byggðar í landinu með tilflutningi aflaheimilda á milli landshluta og einstakra byggðarlaga. Þetta hefur leitt til verulegrar skuldaaukningar í sjávarútvegi, lækkunar launa í fiskvinnslu í samanburði við aðrar atvinnugreinar og fólksflótta af landsbyggðinni.“

Svo segir í þessari almennu skýrslu sem var unnin fyrir Byggðastofnun árið 2001 þar sem verið var að kortleggja hvað það þýddi ef mikið yrði um tilflutninga og samþjöppun á aflaheimildum og ef skip færu úr einu byggðarlagi í annað og yrði safnað saman til tiltölulega fárra fyrirtækja. Sú þróun hafði átt sér stað í stóra aflamarkskerfinu og þess vegna hefði öllum mátt vera ljóst að nánast væri fullvissa fyrir því að færum við sömu leið í smábátakerfinu, þ.e. ef við færum eftir sama laga- og regluverki, og kvótasettum allar tegundir í smábátakerfinu, mundu hefjast þar uppkaup og tilflutningur aflaheimilda fyrir fjármuni. Það er einmitt það sem hefur gerst, hæstv. forseti. Við sitjum uppi með það vandamál í byggðaþróun og íslenskum sjávarútvegi, að fólkið fer þaðan sem aflaheimildirnar fara, alla vega í þeim byggðum þar sem ekki er eitthvað annað til staðar, eða verið að byggja eitthvað annað verulega upp sem á þá að koma í staðinn fyrir þau störf sem tapast í sjávarútveginum. Það á því miður við um mjög mörg byggðarlög á Íslandi sem háð eru sjávarútvegi að þau hafa tapað aflaheimildum.

Einstaka byggðarlag hefur aukið við aflaheimildir sínar. En þau eru tiltölulega fá. Vandi þeirra byggðarlaga sem minni aflaheimildir, færri skip, minni fiskvinnslu og lægri laun yfir heilan landshluta, eins og t.d. má nefna um Vestfirði þar sem laun fólks voru á árum áður verulega yfir landsmeðaltali, 12–15% yfir landsmeðaltali. Þau eru núna undir landsmeðaltali. Þetta hefur mjög neikvæð áhrif. Þetta máttu menn vita að mundi gerast.

Til að kaupa upp aflaheimildir þurfa menn yfirleitt að skuldsetja sig, einnig þeir sem eru fyrir í sjávarútveginum. Þeir fjármunir sem notaðir eru til uppkaupa á aflaheimildum eru teknir að láni. Þar af leiðandi hafa skuldir sjávarútvegsins vaxið og þær hafa vaxið mikið. Þegar þessi skýrsla var unnin höfðu þær vaxið um rúm 60%, aðeins á fimm árum, frá 1995–2000, eða úr 108 milljörðum í 173 milljarða á föstu verðlagi, hæstv. forseti.

Þetta er hægt að segja almennt um afleiðingar af kvótakerfinu og hvað getur fylgt á eftir, ef þróunin verður sú sama og orðið hefur. Allar líkur bentu til að svo yrði í framhaldi af þessari lagasetningu. Þess vegna var það langt frá því út í bláinn þegar stjórnarandstaðan varaði ríkisstjórnina við að fara þessa leið. Hún varaði menn ítrekað við að fara þessa leið. Dæmin voru til á borðunum. Það var búið að vinna forvinnuna og draga fram upplýsingar sem sýndu mönnum fram á hvað gæti fylgt á eftir. Því miður hefur það víða gengið eftir. Við horfum upp á mikinn vanda í sumum byggðarlögum, sem betur fer ekki í öllum en vandinn er allt of víðtækur, vítt og breitt um landið.

Þá ætla ég að víkja aðeins að hinni skýrslunni, hæstv. forseti, sem ég tók með mér upp í þennan ræðustól, sem var líka unnin fyrir stjórnvöld til að kortleggja hvaða afleiðingar fylgdu kvótasetningu. Það var gert með því að vinna sérstaka skýrslu fyrir Vestfirði eingöngu, sem eru eins og menn vita mjög háðir sjávarútvegi. Þeirri skýrslu var skilað í október árið 2001. Því var velt upp hvað mundi gerast á Vestfjörðum þegar ýsa, ufsi og steinbítur yrðu sett inn í kvótakerfið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Miðað við landaðan afla á síðasta fiskveiðiári og úthlutað krókaaflamark má áætla að afli vestfirskra krókaaflamarksbáta verði 6.200 tonnum minni á þessu fiskveiðiári“ — þ.e. frá árinu 2001/2002 — „en á því síðasta, miðað við slægðan afla, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Fyrirsjáanlegt er að samdráttur í aflaverðmæti hjá vestfirska krókabátaflotanum muni nema rúmum milljarði á nýhöfnu fiskveiðiári vegna kvótasetningar ýsu, ufsa og steinbíts, sé miðað við meðalverð á fiskmörkuðum í síðasta mánuði.“

Síðan segir:

„Miðað við samdrátt í afla til vinnslu upp á 6.200 tonn af slægðum afla, vegna kvótasetningar ýsu, steinbíts og ufsa, má gera ráð fyrir því að ársverkum í landvinnslu á Vestfjörðum fækki um 93, sé miðað við upplýsingar frá Samtökum fiskvinnslustöðva.

Landssamband smábátaeigenda gerir ráð fyrir því að störfum við smábátaútgerð á Vestfjörðum fækki um 160–200 vegna kvótasetningar ýsu, steinbíts og ufsa.“

Hæstv. forseti. Þessar upplýsingar lágu allar fyrir þegar menn fóru þessa leið. Stjórnarliðar geta ekki haldið því fram að þeir hafi farið út í þetta án þess að því væri spáð með neinum hætti hvar þeir mundu lenda og hvaða áhrif þetta hefði á byggðir og byggðaþróun, tekjuöflun og þar með afkomuna í heilum landshlutum.

Nýverið hittum við þingmenn Norðausturkjördæmis fólk af Norðvesturlandi sem var að fara yfir atvinnumálin með okkur á því svæðinu í kjördæminu. Þar höfðu menn auðvitað verulegar áhyggjur. Rækjuveiðin við Húnaflóann, sem var oft uppistaðan í atvinnu byggðanna þar, er hrunin. Fiskveiðiheimildir á stöðunum eru litlar, fiskvinnsla lítil og atvinnumöguleikar höfðu dregist verulega saman á þessu sviði. Samþjöppun aflaheimildanna hefur leitt til þess að margir bátanna voru seldir þar sem menn töldu sig ekki hafa nægar aflaheimildir til þess að gera út eftir að kvótasetningin hafði átt sér stað. Eða þá hitt að menn ákváðu að heppilegur tími væri til að ná þessum peningum út úr greininni og hætta bara. Afleiðingarnar urðu því miður þær að útgerð hefur dregist saman á Norðurlandi vestra. Fólk stendur frammi fyrir því að þrátt fyrir að þorskur hafi gengið inn í Húnaflóann og ýsan og þar sé mikil veiði þá er ekki þar með sagt að þær heimildir tilheyri byggðunum við Húnaflóann. Bátarnir eru tiltölulega fáir. Ég held að það séu tveir bátar eftir á Hvammstanga.

Þetta er staðan, hæstv. forseti. Því er ekki undarlegt að sveitarstjórnarmenn komi til að ræða við fulltrúa kjördæmisins á Alþingi um stöðuna í atvinnumálum á sínu landsvæði. Það er ömurlegt til þess að vita að þegar þorskurinn gekk inn í Húnaflóann og át upp rækjuna þá fengu menn ekki að bjarga sér og veiða fiskinn í flóum og fjörðum, í því verslunarkerfi sem orðið hefur raunin. Við stöndum frammi fyrir þessum vanda og ræðum þess vegna frumvarp um hvort setja eigi takmörkun á það hve mikil samþjöppun geti orðið í eignarheimildum í smábátakerfinu.

Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt að stjórnvöld grípi til að setja einhverja takmörkun á það en það er svolítið seint í rassinn gripið, hæstv. forseti. Þetta máttu menn allt saman vita og hefðu betur sett sér reglurnar úr því að stjórnarmeirihlutinn hafði svo einbeittan vilja til að fara þessa kvótasetningarleið. Menn hefðu betur sett sér reglurnar um það strax í upphafi, hvernig menn vildu leyfa þessum heimildum að færast til. En það er ekki eins og við séum alltaf að horfa á skilgreiningu fiskveiðistjórnarlaganna út frá því hvernig litið er á eignarhald í stóra aflamarkskerfinu. Við erum auðvitað að tala um, geri ég ráð fyrir, að litið sé á sömu skilgreiningar varðandi þessa eignarhaldstakmörkun sem sett er inn í krókaaflamarkskerfið eins og nú þegar er mörkuð í 11. gr. a og 11. gr. b í lögum um stjórn fiskveiða. Þar er talað um aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila o.s.frv., einnig aflahlutdeild fiskiskipa sem aðilar hafa á kaupleigu eða leigu til 6 mánaða eða lengur og síðan er skýrt út hverjir teljist tengdir aðilar, dótturfyrirtæki og móðurfyrirtæki, aðilar þar sem annar aðilinn er einstaklingur eða lögaðili o.s.frv.

Ég lít svo á að þótt við séum eingöngu að breyta þessu að því er varðar krókaaflamarkið þá sé nákvæmlega sama skilgreining á eignarforminu þar og í almenna aflamarkskerfinu. Það hlýtur eiginlega að vera svo. Við eigum reyndar að passa upp á að allir séu jafnir fyrir lögum og að lögin séu framkvæmd eins gagnvart þeim sem við eiga að búa, hæstv. forseti.

Vitneskjan um afleiðingarnar af kvótasetningu fyrir byggðir og útgerð lá a.m.k. fyrir í tveimur skýrslum. Kannski hafa stjórnvöld látið vinna fyrir sig fleiri upplýsingar þegar þau kvótasettu þessar fisktegundir og tóku þar með hið litla frjálsræði burtu úr fiskveiðistjórnarkerfinu sem þar hafði verið, sem hafði m.a. hjálpað byggðarlögum til að bregðast við samdrætti eins og á Vestfjörðum þegar yfir 10 þús. tonn af þorski hurfu á fimm árum, á árabilinu 1995–2001, af einum útgerðarstað, þ.e. Ísafirði.

Frumvarpið sem hér um ræðir tekur til nokkurra atriða. Í fyrsta lagi tekur það til sóknarkerfis dagabátanna, handfærabátanna þar sem segir að 6. gr. laganna falli brott. Það þýðir í reynd að handfærakerfið með sóknardagafyrirkomulagi er aflagt. Í öðru lagi tekur það til hámarkshlutdeildar aðila í þorski, sem var 6% en er komin niður í 4% í breytingartillögum meiri hlutans og niður í 5% í ýsu í staðinn fyrir 9% í frumvarpinu.

Ég tel að það sé til bóta að fara niður með þessar prósentur ef maður horfir til þess markmiðs að stjórnvöld séu þó núna að reyna að setja frekari takmörkun á samþjöppun í kerfinu með það að markmiði að draga úr afleiðingum þess slyss, vil ég kalla það, sem varð þegar við fórum þá leið að kvótasetja allar aukategundirnar í smábátakerfinu. Mér finnst að það hafi verið slys og hef ekki séð að það hafi fært byggðunum meira atvinnuöryggi að fara þá leið sem við fórum, eða réttara sagt sem stjórnvöld ákváðu að fara.

Eitt er ljóst að ekki er einfalt fyrir einstaklinga að kaupa sig inn í það kerfi í dag á því verði sem er á aflaheimildum. Það gerðist auðvitað nákvæmlega það sama í smábátakerfinu og í stóra kerfinu að verð aflaheimildanna rauk mjög upp. Hefur sennilega aldrei verið hærra en á yfirstandandi fiskveiðiári. Leiguverðið er líka á uppleið í smábátakerfinu og sumir þeir sem áttu báta með tiltölulega litlum aflaheimildum seldu þá frá sér og hugðust síðan kannski halda bátunum eða kaupa jafnvel annan kvótalausan og ætluðu sér að stunda atvinnu með að leigja til sín aflaheimildir tímabundið. Þeir sjá ekki neina glóru í því í dag. Það getur hver einstaklingur reiknað út fyrir sig að þegar menn leigja aflaheimildirnar á 100 kr. kílóið, eins og það er að nálgast í smábátakerfinu, 130, 140, jafnvel 150, í stóra kerfinu, að þá er ekki mikið eftir í afkomu fyrir útgerðina og þann sem er að reyna að gera út. Ég er ansi hræddur um, og hef af því reyndar verulegan ótta, að það leigufyrirkomulag sem við erum með á aflaheimildum í framseljanlegu kvótakerfi hafi orðið til þess að draga verulega úr að allur afli berist á land. Ég hef miklar áhyggjur af því.

Það er að vísu svo að menn eru náttúrlega að reyna að veiða stærsta fiskinn og verðmætasta. Fiskurinn er verðmætastur þegar hann er fullur af hrognum og með mikla lifur. En jafnvel þó að menn sækist eftir stærsta fiskinum verður nú fiskurinn ekki valinn á krókana algerlega. Því er ekki að leyna og það vita allir sem vilja vita að stærsti fiskurinn er við landið á hrygningartímanum og mestar líkur til að á þessum tíma árs geti menn stýrt veiðum að einhverju leyti til að veiða stærsta fiskinn.

Ég óttast mjög að við séum með leigukerfinu að valda því að verðminni fiskurinn komi alls ekki að landi. Ég er búinn að heyra margan sjómanninn sem hefur talað við mig um þessi mál lýsa því að þar sem menn eru að vinna með leigukvóta séu mjög stífar kröfur um að koma með sem verðmætastan afla að landi og stærsta fiskinn. Menn geta svo dregið ályktanir af því. En ég hygg að það geti orðið til þess að brottkast aukist. Ég held að stjórnvöld þurfi að horfa á það vandamál ekkert síður en það að hrefnan éti ungviðið. Ef við nýtum ekki aflaheimildirnar sem við drepum, erum við að sóa verðmætum. Alveg á sama hátt og hvalirnir hér við land hafa áhrif á nýtingu okkar á stofnunum og afrakstur. Við eigum ekki að hafa löggjöfina þannig að við ýtum undir það.

Í frumvarpinu er lagt upp með að taka upp rafrænar tilkynningar um tilfærslu á aflamarki og gerðir verði sérstakir þjónustusamningar um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa. En þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir gerð þjónustusamninga og víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. að því leyti sem þau lúta að framkvæmd flutnings aflamarks og greiðslu gjalds vegna hans.“

Hvernig eru 1.–3. mgr. í lögunum í dag? Þær hljóða svona, með leyfi forseta:

„Þegar fiskiskipi hefur verið úthlutað aflamarki er heimilt að flytja aflamarkið milli skipa enda leiði flutningurinn ekki til þess að veiðiheimildir skipsins verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Tilkynning um flutning aflamarks skal hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 15 dögum eftir að veiðitímabili lýkur.“

Þetta er 1. mgr. af þessum þremur. 2. mgr. er svona, með leyfi forseta:

„Tilkynna skal Fiskistofu um flutning aflamarks og öðlast hann ekki gildi fyrr en stofnunin hefur staðfest flutninginn. Í tilkynningu skulu m.a. koma fram upplýsingar um magn aflamarks sem flytja skal, auk upplýsinga um verð, nema þegar aflamark er flutt á milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.“

Síðan í 3. mgr. segir:

„Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin skrá upplýsingar um flutning aflamarksins samkvæmt tilkynningu þar að lútandi. Ráðherra skal með reglugerð ákveða í hvaða formi tilkynningar til Fiskistofu um flutning aflamarks skuli vera. Sá sem tilkynnir um flutning aflamarks skal greiða Fiskistofu gjald að fjárhæð 2.000 kr. með hverri tilkynningu. Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Hann skal uppfylla kröfur Verðlagsstofu skiptaverðs sem gerðar eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.“

Hæstv. ráðherra getur vikið frá þessum skilyrðum með reglugerð og þá er vikið frá viðmiðunarverði Verðlagsstofu skiptaverðs, upplýsingum um verð heimildanna, o.s.frv.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé eindreginn ásetningur hans að setja reglugerð sem heimilar þessi frávik. Hvort rafræna skráningin og rafrænu tilkynningarnar geti ekki eftir sem áður átt sér stað þó ekki sé vikið frá þessum ákvæðum um verð og magn aflaheimildanna, um staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs varðandi hlutaskiptin og það verð liggi fyrir sem byggist á úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna ef því er að skipta.

Þetta tel ég að skipti afar miklu máli. Við skulum ekki gleyma því að þau atriði sem hér eru tilgreind í lögum hafa á undanförnum árum orðið grunnur þess að menn hafa lent í hörðum kjaradeilum m.a. um þessi atriði. Ég vil sérstaklega beina þeim orðum til ráðherra að hann skoði mjög vandlega hvað hér verður aðhafst vegna þess að það er ekki auðvelt held ég að fara frá þessum lagaákvæðum svo ekki rísi upp meiri ágreiningur og nýr ágreiningur milli sjómanna og útvegsmanna, eða þá milli sjómanna og stjórnvalda sem er allt eins líklegt.

Síðan er ákvæði til bráðabirgða um úthafsrækjuafla og auðlindagjald vegna úthafsrækjuaflaheimilda. Lagt er til að sá skattur verði innheimtur í lok hvers fiskveiðiárs miðað við landaðan úthafsrækjuafla hvers fiskiskips á því fiskveiðiári. Ég er út af fyrir sig sammála því að það sé miklu betra að taka innheimtu auðlindagjaldsins af lönduðum afla en að gera það með þeirri aðferð sem við höfum verið að gera í lögunum.

Þegar þessi lög voru til umræðu á sínum tíma varaði ég sérstaklega við að sú staða gæti komið upp, ef aflaverðmæti skipa í einhverjum ákveðnum útgerðarþætti breyttust verulega milli ára, að útgerðin ætti samkvæmt lögunum eins og þau eru að greiða auðlindagjald miðað við verðmæti aflans árið á undan sem gæti verið í allt öðrum viðmiðunarverðum en sá raunveruleiki sem menn stæðu frammi fyrir á því fiskveiðiári sem þeir ættu að borga. Þetta er einmitt komið upp í rækjunni. Þar hefur bæði orðið afurðaverðfall og síðan hafa auðvitað gengismálin haft veruleg áhrif og mikið fall hefur líka orðið á verði fyrir veidda rækju, svo mikið að rækjuútgerðin hefur nánast lagst af. Ef sú reglan hefði verið sett að auðlindagjaldið væri alltaf borgað t.d. á þriggja, fjögurra mánaða fresti af verðmætum þess sem menn höfðu aflað þar á undan, þá hefðu menn ekkert þurft að setja svona reglu. Hún hefði þá verið innbyggð í lögunum. Hún var reyndar innbyggð í lög hvað varðaði sóknardagabátana sem höfðu ekki úthlutaðar aflaheimildir heldur greiddu af lönduðum afla. Eins og staðan er núna í rækjuútgerðinni tel ég að ekki sé hægt að gera annað en að fara þessa leið, að láta menn ekki vera að borga fyrir úthlutað aflamark sem þeir ekki geta nýtt eða eru ekki að nýta.

Hæstv. forseti. Í lögunum um stjórn fiskveiða eru ekki mjög margir þættir sem koma að því að bregðast við vanda byggðarlaganna. Það eru þó atriði er snúa að byggðakvótanum. Í 9. gr. laganna eru heimildir um sérstakar úthlutanir sem byggjast á 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda til stuðnings byggðarlögum í samráði við Byggðastofnun, eða eins og hér segir, með leyfi forseta:

„a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski.

b. Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.“

Þetta eru þær heimildir sem eru til staðar til þess að bregðast við vanda byggðarlaga þar sem atvinnubrestur verður, aflaheimildir dragast saman eða samdráttur verður vegna náttúrulegra aðstæðna. Til þeirra hefur verið gripið m.a. vegna hruns í rækjuveiðum innfjarða, vegna hruns í hörpudisksveiðum. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að veiðar á þessum tegundum voru mestar á svæðinu frá Breiðafirði og yfir á Norðurland, á rækju og hörpuskel, og auðvitað hefur verið reynt að bregðast við.

Byggðakvótinn er ein leið, og þær eru ekki margar, til þess að bregðast við þeim vanda sem kemur upp vegna þessara atriða sem eru í lögum um stjórn fiskveiða. Það er ekki óeðlilegt að Fjórðungssamband Vestfirðinga hafi bent á að hægt væri að nota hann til að bregðast við þegar byggðir lenda í vanda af þessum sökum.

Svo hafa kannski komið frávik frá þessu eins og á Bíldudal þar sem veiðar hafa verið bannaðar vegna mengunar án þess beinlínis að heimildir kæmu til í staðinn. Þangað hefur hins vegar verið ráðstafað byggðakvóta. Við höfum staðið í því, allir þingmenn Norðvesturkjördæmisins, að reyna að leggja því lið að þar væri hægt að efla atvinnulíf á nýjan leik, m.a. með því að þangað kæmu heimildir að þessum byggðapottum.

Ég hef af því spurnir, hæstv. forseti, og vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra að því, að aflaheimildir sem hafi verið úthlutað til Bíldudals í þessum sérstaka tilgangi, að reisa þar við atvinnulíf, hafi verið leigðar af staðnum, hvort ráðherra hafi upplýsingar um það. Ég tel að það sé afar misráðið, ég verð að segja það, og alveg furðulegt að menn geti leyft sér að fara þannig með þær heimildir sem beinlínis eru ætlaðar til þess að bregðast við vanda, að þær séu leigðar frá stöðum þar sem atvinnuleysi er mikið. Það eykur ekki vilja okkar alþingismanna til að standa með fyrirtækjum sem þannig standa að verki á stöðunum. Ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég vonast til þess að það sem ég spyr um sé ekki rétt. Ég óttast hins vegar að það sé það. Mér finnst ekki verjandi gagnvart íbúum á stöðunum að aðilar sem hafa fengið slíka úthlutun til þess að halda uppi atvinnu, gera út eða vinna fisk í viðkomandi byggðarlögum, komist upp með að framkvæma hlutina með þessum hætti. Þetta er auðvitað einn þáttur af sjávarútvegsstefnunni í heild sinni, að hafa það innbyggt að geta brugðist við með því að úthluta sérstökum kvótum, og það er ömurlegt til þess að vita að menn misnoti aðgerðir sem eru ætlaðar íbúunum öllum. Maður fær sig varla til að trúa því, hæstv. forseti, að menn leggist svo lágt að fara þannig með þann rétt sem almennt er markaður fyrir byggðirnar í heild.

Hæstv. forseti. Ég hygg að ég hafi nú farið nokkuð yfir frumvarpið og ákvæði þess og reyndar rakið í upphafi máls míns þau varnaðarorð sem voru til á blöðum og stjórnvöld höfðu fyrir framan sig þegar sú leið var farin að kvótasetja aukategundirnar í aflamarkskerfi smábátanna. Síðast fórum við þá leið varðandi handfærabátana og erum núna að leggja niður dagakerfið.

Það vill svo til að ég hef fyrir framan mig upplýsingar frá Vestfjörðum sem aðilar sem hafa verið að gera þar út í handfærakerfi á undanförnum árum hafa tekið saman. Þeir munu væntanlega taka slíkar upplýsingar saman aftur í upphafi júnímánaðar þegar sjómannadagurinn rennur upp. Þeir hafa gert það sér til fróðleiks, ekki ánægju, að telja smábáta í höfnum Vestfjarða fyrir kvótasetninguna í handfærakerfinu og eftir. Ég ætla að lesa þessar tölur hér upp, þær eru ágætisáminning fyrir okkur um það hverjar afleiðingarnar hafa verið. Vonandi verður aftur talið núna í upphafi júní 2006. Það væri auðvitað vonandi að bátunum hefði ekki haldið áfram að fækka en ég óttast að svo sé.

Árið 2004 voru 44 smábátar í höfn á Patreksfirði á sjómannadaginn, 2005 voru þeir 27. Á Tálknafirði voru þeir 30 árið 2004, þeir voru 16 árið 2005. Á Bíldudal voru þeir 11 árið 2004, þeir voru 4 árið 2005. Á Þingeyri voru þeir 14 árið 2004, þeir voru 9 árið 2005. Á Flateyri voru þeir 23 árið 2004, þeir voru 13 árið 2005. Á Suðureyri voru þeir 39 en 22 ári síðar, 2005. Á Ísafirði voru þeir 33 en 17 árið 2005. Í Bolungarvík voru þeir 44 en 33 ári síðar. Bátum í höfnum á Vestfjörðum hafði fækkað úr 238 á árinu 2004, meðan dagakerfið var við lýði, og niður í 141 á árinu 2005. Ég óttast, hæstv. forseti, að þeim hafi enn fækkað.

Það er ömurlegt til þess að hugsa að við þurfum að horfa fram á að atvinnutækifærum fækki í landshluta eins og Vestfjörðum sem til langs tíma hefur sótt nánast alla sína björg í sjó. Við erum svo sem ekki, Vestfirðingar, að sækjast neitt sérstaklega eftir stóriðju og höfum ekki auglýst eftir henni. Við hefðum gjarnan viljað líta svo á að sjávarútvegurinn væri okkar stóriðja og í framtíðinni mundi ferðaþjónustan bætast þar við — með batnandi samgöngum, sem vonandi verður á næstu árum og áratugum, mundum við bæði geta þjónustað hvert annað betur og staðið betur saman og byggt upp í fjórðungnum. Þetta á auðvitað við um fleiri byggðir en Vestfirði, þetta á líka við um Norðurland og Breiðafjörð.

Í byggðaáætluninni, sem við munum væntanlega klára einhvern tíma, fyrir árin 2006–2009 stendur m.a. í 17. lið, með leyfi forseta:

„Greining sóknarfæra hefðbundinna atvinnugreina og efling opinberrar þjónustu.“

Síðan segir:

„Gerð verði úttekt á stöðu landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar á landsbyggðinni og greind helstu sóknarfæri og nýsköpunarmöguleikar þessara hefðbundnu atvinnugreina. Hugað verði að því hvort efla megi opinbera þjónustu við þessar atvinnugreinar á landsbyggðinni, t.d. með flutningi á tilteknum verkefnum.“

Jú, við erum alveg tilbúin að taka við tilflutningi á verkefnum. En ég veit ekki, í ljósi þess sem ég var að lesa hér upp úr áður unnum skýrslum, hvort það efli vilja stjórnvalda til þess að leyfa þessum landshlutum að njóta sjávarins þó að unnar verði nýjar skýrslur í byggðaáætlun fyrir þessi landsvæði. Sem betur fer eigum við enn eitt og eitt stöndugt fyrirtæki sem er að reyna að þróa sjávarútveginn, m.a. þorskeldi. Við bindum vonir við að það geti þróast og orðið þessum landsvæðum lyftistöng í framtíðinni. Við byggjum á því að vita, ekki úr rannsóknum heldur af veiðum rækjubáta í áratugi, að þorskseiðin eru nokkuð örugg á hverju ári í Ísafjarðardjúpi og sama má segja um Húnaflóa. Þetta hafa rækjusjómenn vitað lengi og þurfti ekki sérstakar rannsóknir til þó að þeim beri vissulega að fagna.

Það er hægt að efla rannsóknir á lífríki flóanna og fjarðanna fyrir vestan og norðan sem ég hygg að séu mikil uppbyggingarsvæði fyrir fiskstofna hér við land. Það hefur sýnt sig að þegar menn hafa verið að reyna að veiða þorskseiði á undanförnum árum hafa þau verið veiðanleg inni í flóum og fjörðum fyrir vestan og hafa m.a. verið flutt þaðan austur í Eyjafjörð og til Austurlands ef ég veit rétt. En við höfum líka alið þau í sérstakri eldisstöð inni í Ísafjarðardjúpi og síðan sleppt þeim eftir árið til áframeldis í kvíar í Djúpinu.

Auðvitað vonum við að þetta verði m.a. eitt af þeim atriðum sem muni efla atvinnustig á þessum landsvæðum í framtíðinni, á Breiðafirði, Vestfjörðum og Norðurlandi, ásamt stórefldri ferðaþjónustu. Ég hef mikla trú á því að ferðaþjónustan muni eflast en til þess þurfum við bættar samgöngur og öruggar samgöngur. Ef við ætlum að reyna að selja ferðaþjónustuna allan ársins hring þarf að vera hægt að koma ferðamönnunum á staðinn. Menn þurfa þá að geta komið þeim á staðinn allan ársins hring. Þó að ferðamenn vilji sækja í óvissuferðir norður í Djúpavík í Reykjafirði á Ströndum, jafnvel yfir vetrartímann, vilja þeir ekki fá óvissuna fyrr en þeir eru komnir þangað. Þeir þurfa ekki á óvissunni að halda á leiðinni norður með því að þurfa að snúa við einu sinni, tvisvar eða jafnvel þrisvar. Það þarf að vera hægt að selja þeim það sem verið er að bjóða þeim og bjóða þeim upp á óvissuna þar sem búið er að búa til ferðir og aðstöðu til þess að selja þeim það sem þeir eru að sækjast í.

Ég held að það sé hægt að markaðssetja Ísland á marga vegu, ekki bara yfir sumartímann, en til þess þurfum við að vera framsýn og áræðin. Það gerist ekki með því að draga ár eftir ár úr vegafé inn á þessi svæði því að þarna er ekki þenslu fyrir að fara. Menn finna hana örugglega einhvers staðar annars staðar en á Vestfjörðum og á Norðvesturlandi.