Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 20:19:11 (7071)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:19]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það er nú búið að fara prýðilega yfir þau mál sem hér eru. Þó vil ég segja fáein orð.

Ég ræddi þetta mál við 1. umr. og satt að segja sé ég ekki að orðið hafi á því þannig breytingar að ég geti verið sáttur við það. Reyndar er þetta mál bara hluti af þeirri eindregnu stefnu stjórnvalda að einkavæða veiðiréttinn við landið og það hefur auðvitað staðið yfir undanfarin mörg ár þó að menn hafi aldrei þorað að segja þá hluti upphátt í ræðustól Alþingis. Það er kannski eins gott fyrir þá sem þá stefnu hafa viljað hafa því að það hefði ekki fallið í góðan jarðveg hjá þjóðinni enda hefur þjóðin verið á móti þessu kerfi alla tíð og er enn. Stór meiri hluti er gegn kerfinu líka í Sjálfstæðisflokknum þó ótrúlegt megi virðast því að þeir ganga fremstir í því sjálfstæðismenn að viðhalda þessu kerfi og byggja undir það með öllum hætti.

Núna er sem sagt verið að kasta síðustu rekunum á það sem eftir var af pínulitlu frelsi í sjávarútveginum. Menn voru að koma sér upp útgerð í gegnum göt á kerfinu allan þennan tíma alveg þangað til núna. Það var sem sagt í smábátakerfinu sem voru aðeins veikari blettir sem menn gátu notfært sér til þess að hefja nýja útgerð. Það er búið. Þetta eru lokin. Það er hlutverk hv. formanns sjávarútvegsnefndar og hæstv. sjávarútvegsráðherra að koma með síðustu kökuna á borðið. Þetta er hún.

Það er ekki hægt að spá neinu nema vondu fyrir þessu kerfi. Við höfum séð alveg hvernig samþjöppunaráhrifin hafa verið í aflamarkskerfinu og við höfum séð hvaða áhrif samþjöppunin hefur á hin ýmsu byggðarlög sem hafa byggt allt sitt á sjávarútvegi. Því er alveg ljóst að framtíðin í þessu kerfi er að svipta fólk frelsi í sjávarútveginum og það finnst mér dapurlegast, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið uppi með frelsi, verið svona með saltfisk í hjartastað eins og skáldið sagði, að það skuli vera hlutverk Sjálfstæðisflokksins að ganga fram í því að taka allt frelsið af fólkinu í sjávarútveginum. Það er niðurstaðan. Nú er þetta að verða bara eins og rollukvótinn. Það er nákvæmlega þannig. Þetta er bara orðið eins og rollukvótinn, alveg nákvæmlega. Það er ekki til frelsi neins staðar. Ef menn ætla að fara í þessa útgerð er þetta bara eins og hjá bændunum með sauðakvótann sem þeir verða að kaupa. Það er meira að segja meira frelsi í framleiðslu á dilkakjöti í þessu landi en í sjávarútveginum því að þar mega menn þó framleiða utan kvóta. Það er ekki hægt að banna þeim það. Hérna skal allt saman vera njörvað fast í lokað einokunarfyrirbrigði sem er eiginlega hvergi hægt að finna nokkurs staðar dæmi um með þeim hætti sem hér er gert.

Erindið sem ég átti í ræðustólinn fyrst og fremst var að ræða um eina nýjung sem er í þessu frumvarpi. Þessi nýjung er fólgin í því að koma til bjargar þeim sem eiga kvóta í rækju og bjargráðið sem menn grípa til er að koma með enn eina aðferðina hvað varðar fyrirkomulagið, þ.e. að nú þurfi menn ekki að bera það fyrir sig að stjórna þurfi veiðum í fiskstofn, að ekki þurfa að bera það fyrir sig heldur að hægt sé að bera það fyrir sig að þeir sem séu í viðkomandi útgerð megi ekki missa veiðiréttinn. Nú er veiðirétturinn orðinn aðalatriðið en ekki það að varðveita fiskstofnana sem var afsökunin og rökin voru færð fyrir því að það mætti skerða frelsi manna til að gera út. Þetta frelsi mátti skerða samkvæmt rökstuðningi sem hafður var uppi í sölum Alþingis. Þá mátti skerða þetta frelsi af því að það þurfti að halda aftur af veiðum í viðkomandi fiskstofn.

Nú liggur fyrir menn hafa ekki veitt þann kvóta sem útgefinn hefur verið og Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að veiða megi úr þessum stofnum og allt í lagi með það. En það hefur ekki verið hagkvæmt. Þá er niðurstaðan að nú geti menn bara farið hina leiðina, að nú þurfi ekki lengur að hafa þau rök í málinu að það þurfi að stjórna veiðum af því að það þurfi að vernda fiskstofninn. Nú eru því allt í einu komin þessi rök í málið, að það þurfi að passa upp á að menn tapi ekki kvótanum sínum. Þetta er aldeilis stórkostlegt.

Ég óskaði eftir því að við fengjum að minnsta kosti einn lögspeking til þess að fara yfir málið í nefndinni og hv. formaður nefndarinnar brást vel við því. Ég stakk meira að segja upp á því að ágætur maður, Sigurður Líndal, mundi koma til nefndarinnar og fara yfir það hvort þetta stæðist stjórnarskrá. Ég nefndi nú ekki þetta nafn, Sigurður Líndal, að ástæðulausu. Ég gerði það vegna þess að Sigurður Líndal hefur talað fyrir þeim rökum hvað varðar veiðirétt sem eru lengst til hægri og ganga lengst í því að veiðirétturinn sé eignarréttur útgerðarmanna, enda kom það í ljós þegar á átti að herða að hann hafði uppi þau rökin. En það var athyglisvert að þessi maður sem hefur gengið langlengst, þessi ágæti lögmaður sem ég ber mikla virðingu fyrir — hann hefur bara aðra skoðun en ég hef á veiðiréttinum, að hann sé eignarréttur manna. Hann hefur sem sagt talað fyrir því — en það er athyglisvert að í þeim punktum sem ég hef og nefndaritari tók niður og ég man reyndar eftir og tel að þeir séu ágætlega niður settir af nefndaritaranum þá er í fyrsta lið sagt: „Sigurður Líndal telur að þetta sleppi.“ Ágætur lögmaður Sigurður Líndal segir sem sagt að hann telji að þetta sleppi, þ.e. að ekki sé um brot á stjórnarskránni að ræða. En orðalagið var einmitt með þessum hætti að þetta sleppur, að hann hélt. Hann var ekki alveg viss. Hann hélt að þetta slyppi. Lengra treysti þessi ágæti lögmaður sér ekki til að ganga enda var hann boðaður með litlum fyrirvara á fund nefndarinnar.

Síðan í næsta punkti þá sýnist lögmanninum að frambærilegar ástæður séu fyrir setningu bráðabirgðaákvæðisins, að ákvæði takmarkist við þá sem hafa fengið úthlutun á veiðiheimildum og að ósanngjarnt sé að þeir missi veiðiheimildir sínar við þær aðstæður sem nú eru uppi í rækjunni.

Ég er algjörlega ósammála þessari niðurstöðu vegna þess að ég tel að það hljóti nú að vera svo að menn geri almennar kröfur til þeirra sem fá veiðirétt, sérstaklega þegar grunnrökin fyrir því að menn fái úthlutað veiðirétti voru frá upphafi þau að takmarka þyrfti veiðarnar. Ég vek athygli á því aftur og enn að það er verið að koma með allt aðra röksemdafærslu inn í þetta mál en menn byggðu grunnrökin á á sínum tíma.

Í einum punktinum segir lögmaðurinn, og það er kannski sá punktur sem ætla síðast að nefna frá honum: „Hér er ekki síður verið að vernda atvinnuréttindi þeirra sem eru að veiða úthafsrækju. Þeir hafa fjárfest í atvinnutækjum og þjálfað mannskap. Atvinnufrelsið takmarkast af því.“

Hér er sem sagt strikað undir það að það sem máli skiptir séu ekki rökin sem eru fólgin í því að takmarka þurfi veiðar vegna þess að fiskstofninn þoli ekki ótakmarkaðar veiðar heldur hitt að aðilarnir sem voru að veiða hafi fjárfest í þessu og því þurfi að passa upp á veiðiréttinn þeirra. Það er ekki nóg að úthluta þeim veiðiréttinum. Það dugar ekki. Það er allt í einu ekki nóg. Það er merkileg niðurstaða.

Svo er hitt líka, sem mér finnst að bæði hæstv. sjávarútvegsráðherra og ágætu nefndarmennirnir sem fóru yfir þetta virtust ekki hafa tekið mark á, að þær útgerðir langflestar sem eiga hlut að máli eiga veiðirétt í fjölmörgum öðrum tegundum. Það er ekki verið að fara fram á að þeir veiði nema sem svarar 50% af heildarþorskígildum sínum annað hvert ár, vel að merkja. Það þvælist nú ekki fyrir neinum sem á eitthvað af veiðiheimildum af öðru tagi að veiða 50% annað hvert ár, fjórða partinn af sínum veiðirétti. Það er ekki um margar útgerðir að ræða sem veiða eingöngu rækju þó þær séu til.

Mér finnst merkilegt að þeir sem hafa staðið hér og varið þetta kerfi og varið upphaf þess og haft grunnrökin að vopni, þ.e. að það þyrfti nú að stjórna fiskveiðunum, eru allt í einu horfnir frá þeirri stöðu og komnir yfir í það að grunnrökin eigi að vera þau að verja þurfi veiðirétt þeirra sem þegar eiga veiðirétt, hvort heldur þeir hafi keypt hann eða átt hann frá upphafi. Ég veit svo sem ekki neitt um það. Það skiptir ekki máli í þessari röksemdafærslu. Þetta segir bara sína sögu um þessi fiskveiðimál í gegnum tíðina. Rökin hafa sjaldan dugað og það hefur komið ný aðferð í hvert einasta skipti sem menn hafa þurft að taka hér á málum. Fjöldi aðferða hefur verið notaður til þess að úthluta mönnum veiðirétti þó yfirleitt sé talað eins og það hafi verið þrjú ár og þriggja ára veiðiréttur. Meira að segja féll nýlega dómur í Hæstarétti sem gengur út á að mönnum skuli skammtaður sá tími sem upphaf veiðiréttar, þ.e. að sé ekki sama hvaða ár séu meira að segja notuð heldur skuli það vera þau síðustu þrjú. Þá skulu menn velta fyrir því sér hvernig veiðiréttur hefur orðið til að ýmsu leyti öðru í gegnum tíðina þar sem Alþingi hefur ákveðið að hann skuli hafa orðið til af hinum ýmsu ástæðum. Við höfum farið yfir kvóta í sölum Alþingis. Menn hafa valið og notað tíu, tólf, fimmtán aðferðir til þess að úthluta veiðirétti meira og minna í stýrðu umhverfi.

Þetta er mikið umhugsunarefni. Ég minni bara á þetta vegna þess að allt er þetta meira og minna í stíl. Menn hafa notað hér ótrúlegar aðferðir við að burðast við að reyna að einkavæða fiskstofnana á Íslandsmiðum. Það er niðurstaðan sem menn stefna að en aldrei hafa þeir verið menn til þess að koma og segja það hreint út að það sé það sem þeir ætli sér og vilji og hafa þeir verið beðnir að þegja sem snarast sem hafa látið það út úr sér. Það hefur komið fyrir einstaka frjálshyggjumann að láta það út úr sér að fiskstofnarnir ættu að vera einkaeign. En þeir hafa snarlega verið beðnir að vera nú ekki að bulla þetta því það gæti styggt einhvern. En þangað er nú stefnunni heitið og hefur verið heitið lengi.

Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að fara yfir þessi mál núna. Ég gerði það við 1. umr. Það hefur engin slík breyting orðið á þessu máli að ég telji ástæðu til að fara yfir það. Hv. þm. Jón Gunnarsson gerði það prýðilega fyrir okkar hönd. Ég vildi koma því að hér sem ég hef verið að segja, sérstaklega um þetta ákvæði til bráðabirgða, vegna þess að þar eru menn að slá enn einn nýja tóninn í þennan fiskveiðikirkjugarð sem þessi lög um stjórn fiskveiða eru.