Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 20:38:47 (7073)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[20:38]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Eins og kom fram í framsögu hv. formanns sjávarútvegsnefndar Guðjóns Hjörleifssonar, þá skrifaði ég undir það nefndarálit sem hér var farið yfir með fyrirvara og langar mig að gera stuttlega grein fyrir honum.

Þessi breyting á frumvarpi um uppboðsmarkaði sjávarafla felst í að heimila íbúum á Evrópska efnahagssvæðinu og færeyskum ríkisborgurum að eiga eða fjárfesta í íslenskum uppboðsmörkuðum. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga að hér gildi reglur um fjárfestingu útlendinga í þessari grein, þ.e. uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla, og geri engar athugasemdir við að þessi hópur útlendinga geti verið í hópi fjárfesta á uppboðsmörkuðum eða eignaraðilar að þeim.

Það sem ég vil gera athugasemd við er að í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þörfin á að breyta þessu byggist annars vegar á ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið. En hins vegar um samning Íslands við Færeyjar um fríverslun sem undirritaður var 31. ágúst árið 2005. Sá samningur sem undirritaður var í Hoyvík í Færeyjum hefur ekki enn verið fullgiltur hér í sölum Alþingis. Við sem undirrituðum nefndarálitið með fyrirvara, þegar mikið lá á að taka málið út úr sjávarútvegsnefnd, gerðum athugasemdir við að það hlyti að vera réttast og réttara að taka þennan samning við Færeyingana hér fyrir í formi þingsályktunartillögu og fullgilda hann áður en hægt væri að fara að vísa í hann sem ástæðu fyrir því að breyta þurfi lögum á Íslandi.

Það sem gerðist síðan í framhaldi af þessu var að tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Hoyvíkur-samningsins milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, sú þingsályktunartillaga var lögð fram hér á Alþingi. Hún liggur nú fyrir og við nefndarmenn getum kynnt okkur hana. En eftir sem áður er hér ekki um fullgildan samning að ræða. Ég held að við hljótum að þurfa að ganga þannig um þessi mál að samningur sem á að vera grundvöllur fyrir lagabreytingu á Íslandi hljóti að þurfa fullgildingu hér í sölum Alþingis áður en við notum hann sem ástæðu til að breyta lögununum og þætti mér vænt um að annaðhvort hv. formaður sjávarútvegsnefndar Guðjón Hjörleifsson eða hæstv. ráðherra, af því hann er staddur hér í salnum, tjái sig um þetta mál. Hvort það sé ekki réttari málsmeðferð að taka þennan samning við Færeyinga og fullgilda hann áður en við förum að nota hann sem grundvöll fyrir því að breyta lögum um eignaraðild útlendinga að uppboðsmörkuðum fyrir sjávarafla.

Loksins þegar hægt var að komast í að lesa þennan samning, eftir að hann var lagður hér fram, þá runnu eiginlega á mig tvær grímur, því meiri hluti sjávarútvegsnefndar lagði til ákveðna breytingu á því frumvarpi sem lagt var fram. En í frumvarpi sem kom frá sjávarútvegsráðuneytinu stóð að skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt og lögheimili hér á landi nái ekki til einstaklinga sem hafa ríkisfang og búsettir eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki stofnsamnings fríverslunarsamninga Evrópu eða til Færeyinga. Breytingin sem nefndin leggur til að gerð verði er að í stað orðsins „Færeyinga“ komi í 1. gr. Færeyinga búsettra í Færeyjum eða á Íslandi. Það er sem sagt verið að þrengja skilgreininguna á Færeyingum frá því frumvarpi sem hæstv. ráðherra lagði hér fyrir þingið.

Þegar síðan lesið er yfir samninginn sem gerður er milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar í Færeyjum hins vegar, þá sýnist mér þessi breyting ekki geta staðist. Einfaldlega vegna þess sem segir í 5. gr. samningsins, með leyfi forseta:

„Innan gildissviðs þessa samnings er hvers konar mismunun milli íslenskra og færeyskra einstaklinga á grundvelli ríkisfangs, eins og það er skilgreint í bókun 1, bönnuð.“

Hvers konar mismunun á milli íslenskra og færeyskra einstaklinga á grundvelli bókunar 1 er bönnuð. Hvað segir bókun 1? Hún segir, með leyfi forseta:

„Í samningi þessum merkir hugtakið „Íslendingur“ einstakling með íslenskt ríkisfang og „Færeyingur“ einstakling með danskt ríkisfang, sem á eða hefur átt lögheimili í Færeyjum.“

Þegar við setjum hér í breytingartillögu við frumvarpstexta, eins og hér liggur fyrir, að í stað orðsins Færeyings komi þrengri skilgreining, þ.e. skilgreining sem segir Færeyinga búsettra í Færeyjum eða á Íslandi, þá erum við að brjóta bókun 1. Því við megum ekki, eins og hún hljómar, setja strangari eða öðruvísi reglur um Færeyinga en um Íslendinga. En það erum við að gera með þessari breytingartillögu eins og nefndin leggur hana fram.

Í 5. gr. Hoyvíkur-samningsins er sérstaklega tekið fram og kveðið á um þetta með hliðsjón af fjármagnsflutningum og fjárfestingum, þ.e. það sem snýr að þessu máli hér, þetta eru fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hvers konar mismunun, að lögum eða í reynd, varðandi frelsi til fjármagnsflutninga eða fjárfestinga, á grundvelli ákvörðunarstaðar fjármagnsins eða fjárfestingastaðar, hvar sem er innan gildissvæðis þessa samnings, er bönnuð.“

Hvers konar mismunun milli Færeyinga og Íslendinga er bönnuð. Því vil ég spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar, eða eftir atvikum hæstv. ráðherra, hvor sem vill svara því, hvort þeir telji að þessi breytingartillaga eins og hún er lögð fram hér standist Hoyvíkur-samninginn eins og í orðanna hljóðan er þar. Ég get ekki fengið það til að ríma eftir að ég sé þennan samning þar sem segir mjög skýrum stöfum í bókun 1, að orðið Færeyingur þýði einstaklingur með danskt ríkisfang sem á eða hefur átt lögheimili í Færeyjum. Þannig að Færeyingur sem átt hefur lögheimili í Færeyjum einhvern tíma og býr núna í Danmörku eða Alsír eða Egyptalandi eða hvar sem er, á samkvæmt bókun 1 að hafa sama rétt og Íslendingur hér á landi varðandi fjárfestingu. Með þessari þrengri skilgreiningu Færeyings sem kemur hérna fram í breytingartillögunni er verið að ganga gegn bókun 1 í samningnum.

Mér þætti vænt um að fá svar við þessu áður en við höldum lengra og eins við fyrri spurningu minni, þ.e. hvort ekki sé eðlilegra þegar gerðir eru svona milliríkjasamningar að þeir séu fullgiltir áður en þeir eru notaðir sem grundvöllur fyrir lagabreytingu hér. Og síðasta spurningin varðandi þetta er: Hvernig stendur á því að samningur sem gerður var 31. ágúst árið 2005 er ekki fyrir löngu kominn hér inn í sali Alþingis til fullgildingar? Því það er gert ráð fyrir að hann sé fullgiltur hér og taki ekki gildi fyrr en hann er fullgiltur hér.

Frú forseti. Mér þætti vænt um að fá svör frá þeim sem spurningunum er beint til.