132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[00:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um landmælingar og grunnkortagerð. Frumvarpið er samið af nefnd sem ég skipaði haustið 2004 og hafði það hlutverk að endurskoða lög nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, einkanlega í því skyni að skilgreina hvert hlutverk hins opinbera ætti að vera í landmælingum og kortagerð.

Þó að gildandi lög um landmælingar og kortagerð séu ekki gömul, þá hefur mikil þróun orðið í tækni á sviði landupplýsinga á undanförnum árum. Einnig hefur starfsemi einkaaðila á því sviði vaxið mikið og hafa á stundum komið upp árekstrar á milli einkafyrirtækja og Landmælinga Íslands, sem leitt hafa til málareksturs fyrir samkeppnisyfirvöldum. Þá hefur starfsemi Landmælinga Íslands verið byggð upp svo að segja frá grunni eftir flutning stofnunarinnar á Akranes. Þessar breytingar kalla á endurskoðun á því lagaumhverfi sem stofnunin starfar í og á betri skilgreiningu á því hvert hlutverk hins opinbera á sviði landmælinga og kortagerðar eigi að vera.

Í 4. gr. frumvarpsins er leitast við að skilgreina hlutverk Landmælinga Íslands með nákvæmari hætti en áður. Gert er ráð fyrir að stofnunin dragi sig út úr þeim rekstri sem nú er í samkeppni við einkaaðila á almennum markaði en muni áfram tryggja að veigamiklum grunnverkefnum sé sinnt sem ekki er víst að markaðurinn sjái sér hag í að vinna á öllum tímum eða fyrir allt landið.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að stofnunin verði umhverfisráðuneytinu til ráðuneytis á fagsviðum sem hún starfar á og um stefnumótun á sviði landmælinga og opinberrar grunnkortagerðar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að stofnunin reki sameiginlegt landshnitakerfi og hæðarkerfi fyrir allt Ísland. Þessi kerfi nýtast m.a. sem grunnur fyrir vöktunarkerfi svo sem á jarðskorpuhreyfingum, fyrir verklegar framkvæmdir, skipulagsvinnu og vegna margs konar leiðsögukerfa.

Í þriðja lagi skal stofnunin hafa frumkvæði að gerð og notkun staðla á sviði landupplýsinga og er tilgangurinn m.a. að tryggja gæði og samræmingu á þessu sviði hér á landi.

Í 4. tölulið 4. gr. er skilgreint það verkefni við grunnkortagerð sem Landmælingum Íslands er ætlað að sjá um, þ.e. gerð, viðhald og miðlun tiltekinna stafrænna þekja í mælikvarðanum 1:50.000. Þetta eru upplýsingar eða svokallaðar þekjur á stafrænu formi um vatnafar, yfirborð, vegi og samgöngur, mannvirki, örnefni, stjórnsýslumörk og hæðarlínur. Markmiðið með þessu er að tryggja að tiltekin stafræn gögn af öllu landinu séu ávallt til og þeim viðhaldið. Við framkvæmd þessa verkefnis getur stofnunin aflað gagna frá einkaaðilum og falið einkaaðilum að vinna einstaka þætti og ég tel æskilegt að það verði gert í sem mestum mæli, t.d. með útboðum verkefna. Með ákvæðinu er leitast við að skýra nákvæmlega hvar mörk þessa verkefnis liggja til að forðast núning við hinn frjálsa markað og til að tryggja sem mest svigrúm einkaaðila á sviði landmælinga og kortagerðar.

Að lokum er stofnuninni ætlað að veita aðgang að þeim gögnum sem varðveitt eru í gagnasöfnum hennar og eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og alþjóðleg samtök. Ákvæði frumvarpsins um höfundarrétt, miðlun upplýsinga og afnotarétt á gögnum eru óbreytt frá gildandi lögum. Gögn þau sem til verða hjá Landmælingum Íslands verða því sem fyrr háð höfundarrétti ríkisins og heimilt er að taka sérstakt gjald fyrir sölu á afnotum á efni í vörslu stofnunarinnar svo sem stafrænum þekjum og eldri gögnum. Hins vegar er gert ráð fyrir þeirri áherslubreytingu að stofnunin verði að stærstum hluta rekin á grundvelli opinberra fjárframlaga og sértekjur minnki. Kemur þetta til af því að stofnunin mun ekki lengur annast þau verkefni, t.d. útgáfu korta, sem verið hafa í samkeppni við einkaaðila á hinum almenna markaði. Stofnunin mun einungis sinna þeim afmörkuðu verkefnum sem skilgreind eru í 4. gr. frumvarpsins og afla tekna með þjónustugjöldum vegna þeirra verkefna og áðurnefndrar sölu á afnotum af gögnum.

Frú forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til umhverfisnefndar.