132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[00:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Örfá orð um frumvarp til laga um landmælingar og grunnkortagerð. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er markmiðið með þessu frumvarpi að gera skarpari skil á milli þess sem telst vera nauðsynlegt að hafa í opinberri forsjá og hins sem er talið að geti unnist af fyrirtækjum í samkeppnisrekstri um þá málaflokka.

Mér finnst þessi nálgun ekki rétt. Sú nálgun sem ég vil hafa í svona umræðu er fyrst og fremst að leitað sé leiða til að þessi störf séu unnin á sem hagkvæmasta og öruggasta hátt. Landmælingar og kortagerð eru jú einn af grunnþáttum íslensks samfélags, íslensks atvinnulífs, og er í sjálfu sér ekki endilega markaðsvara sem slík. Ég vil því slá varnagla við að farið sé of langt í að skilgreina þessa starfsemi sem samkeppnisrekstur. Þetta er grunnþjónusta og það er reyndar þar sem verið er að draga mörk í þessu frumvarpi.

Hins vegar verðum við líka að horfa til þess að þetta skapar ekki möguleika til umfangsmikils starfs. Það getur verið mikilvægt fyrir stofnun eins og Landmælingar að hafa möguleika á sem fjölþættustum störfum þó hluti þeirra geti flokkast undir það að aðrir geti unnið þau. Það bæði eykur möguleika stofnunarinnar til að þróa tækni og þekkingu og gefur starfsmönnum meiri möguleika til að tileinka sér aukna færni og aukna þekkingu á þessu sviði, með því að þeim sé gefið svigrúm. Sá hvati sem fylgir slíkum möguleikum inn í stofnunina er gríðarlega mikilvægur, bæði faglega og starfslega séð og hvað lýtur að þróun og möguleikum einstaklingsins sem þar vinnur. Þessi þáttur í störfunum má alls ekki gleymast og hann má ekki vanmeta, sem mér finnst gert í þessu frumvarpi. Því fleiri þættir og því meiri möguleikar sem eru færðir út úr svona stofnun þeim mun þrengri bás er verið að marka henni og því starfsfólki sem þar vinnur. Það er engum hagkvæmt.

Ég er ekki sammála þeirri nálgun sem sett er upp hér að það sé nauðsynlegt að setja þessi verkefni út úr stofnuninni. Það má vel vera að það geti verið nauðsynlegt að gera þeim skil innan stofnunarinnar á þann hátt að þau séu reikningslega og rekstrarlega aðgreind og ekki sé verið að færa umfram það sem eðlilegt er á milli liða hvað það varðar. En mér finnst það alröng nálgun að stofnunin megi ekki vera í þessum verkefnum og ekki er hægt að færa þjóðhagsleg rök fyrir því að svo sé.

Það væri fróðlegt að vita hve mörg fyrirtæki hæstv. ráðherra telur að séu þess umkomin núna að taka að sér þau verkefni sem verið er að úthýsa eða útvista eða hvað menn vilja kalla þetta. Hvað eru þau mörg? Er ekki verið að færa þetta út í einkavædda einokun? Það er ekki nein samkeppni í sjálfu sér á markaðnum umfram það sem Landmælingar sjálfar gætu veitt með því að vera með þetta sem sérstakan rekstrarlið hjá sér. Þannig að sú hugmyndafræðilega nálgun sem hér er beitt finnst mér vera mjög takmörkuð og í rauninni mjög skammsýn.

Að sjálfsögðu eru þarna ákveðnir þættir sem ég geri ráð fyrir að geti fyllilega verið unnir á einhverjum samkeppnisgrunni. En eftir að hafa fengið forstjórann í heimsókn á þingflokksfund hjá okkur og eftir að hafa kynnt mér starfsemina þarna finnst mér þörfin fyrir það sem hér er verið að leggja til mjög svo orðum aukin, auk þess sem verið væri að lama stofnunina og þróunarmöguleika hennar með því að taka þessa þætti út. Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt.

Það er alveg ljóst, ef litið er á umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið, að verið er að skera niður stofnunina. Fjármálaráðuneytið metur það svo að verið sé að skera hana niður um 20 millj. kr. Ég hygg að það sé varlega áætlað því að stofnuninni hefur verið haldið í vissu fjársvelti af hálfu Alþingis. Á hana voru ofáætlaður rekstrartekjur sem vitað var að hún mundi aldrei afla sér. Þannig var henni haldið í fjárhagslegri herkví til að lama hana og réttlæta úthýsinguna á þeim verkefnum sem hér er verið að leggja til. Það er verið að skera stofnunina niður, ég veit ekki um hve mörg starfsgildi en það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst hvað verið er að skera niður mörg störf hjá stofnuninni. Ég hygg að þar gæti verið um fimm til sex störf að ræða sem verið er að skera niður frá núverandi starfsemi, ef marka má þær tölur sem gert er ráð fyrir að hún spari við þetta.

Ég er ekki sammála þessu. Ég er ekki viss um að það verði gott fyrir stofnunina ef hún verður skorin svona niður, faglega og starfslega. Það var með miklu stolti sem þessi stofnun var flutt upp á Akranes. Þar átti hún að fá möguleika til að starfa og eflast en núna miðast allt við hvernig skera megi niður. Hvernig megi útvista eða úthýsa verkefnum og skera hana niður.

Í lokasetningu umsagnar fjármálaráðuneytisins er sagt að nettótap stofnunarinnar vegna þessara breytinga sé metið 6 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að því verði mætt innan útgjaldamarkmiða langtímaáætlunar, þ.e. að stofnuninni er ætlað að skera þar niður líka. Samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytisins er því ekki einu sinni ætlunin að bæta henni upp það tjón sem hún verður fyrir fjárhagslega umfram tap á sértekjum. Það er ekki ætlunin heldur á hún líka að bera þann niðurskurð.

Mér sýnist því þegar á allt er litið að fyrst og fremst sé verið að skera niður þessa stofnun. Það er verið að skera af henni verkefni, skera af henni fjáröflunarmöguleika, skera af henni möguleika til að efla sig fræðilega og tæknilega og loks, eins og sagt er í lok umsagnar fjármálaráðuneytisins, á að skera hana áfram niður sem metið er á 6 millj. kr. á ári.

Ég ítreka að ég tel að þetta sé röng nálgun og vanhugsuð og að samkeppnissjónarmiðin séu ofmetin, að ekki sé metinn hagur stofnunarinnar sem slíkrar af því að hafa þessi verkefni inni og finna þeim þar farveg, a.m.k. að mestu leyti. Hér er hreinlega verið að skera stofnunina niður eins og þarna er sagt um 26 millj. kr. Ég hugsa að það sé varlega áætlað en fjármálaráðuneytið segir þarna að þetta sé niðurskurður upp á 26 millj. kr. í umsvifum stofnunarinnar.

Frú forseti. Ég held að það þurfi mjög nákvæma skoðun hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt að gera það með þeim hætti sem hér er verið að leggja til.