132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[01:06]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum ágæta umræðu um þetta mál og vil bregðast við nokkrum atriðum. Minnst hefur verið á fjárhagsstöðu stofnunarinnar og umsögn fjármálaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir því að stofnunin selji kortalager sinn og þá verður að sjálfsögðu miklu minni umsýsla í kringum það en verið hefur fram til þessa því að stofnunin hefur verið með sölustarfsemi.

Það er áætlað réttilega, eins og kom fram í umræðunni, að stofnunin verði af 20 millj. kr. sértekjum á ári en þá fellur líka niður beinn kostnaður við samkeppnisreksturinn. Fjárhagslegt tap vegna þessarar breytingar er metið á 6 millj. kr. á ári. Því verður mætt, stofnunin fær það bætt innan langtímaáætlunar. En það er auðvitað alveg ljóst að verið er að draga saman um tvö til þrjú störf. Ég vil geta þess sérstaklega að það er í raun og veru þegar orðið. Það eru starfsmenn sem gerðir voru starfslokasamningar við og renna þeir út í lok þessa árs en ekki er um neinn frekari niðurskurð á starfsemi stofnunarinnar að ræða þegar þeim starfslokasamningum lýkur.

Það var nefnt að verkefnin í 4. gr. væru ekki nógu ljós. Ég tel að þetta eigi að vera mjög vel skýrt. Verkefnin eru listuð niður í 4. gr. Reynt er að gera það á mjög einfaldan og skilmerkilegan hátt en í þessu lagafrumvarpi er verið að endurskilgreina og þrengja hlutverk stofnunarinnar frá gildandi lögum.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir velti fyrir sér hvort sá núningur sem verið hefur fyrir hendi við einkaaðila sem eru í samkeppnisrekstri haldi áfram og hvort kröfur einkaaðila um að koma frekar inn í þá starfsemi sem stofnuninni verður gert að sinna samkvæmt þessum lögum verði áfram. Það verður reynslan að leiða í ljós. Það er greinilegt að þróunin er gríðarlega hröð á þessu sviði. Nokkrir aðilar hafa þegar haslað sér þar völl, bæði verkfræðistofur og útgáfufyrirtæki. Reynslan verður að leiða það í ljós hvort þróunin verður eitthvað frekar í þessa átt.

Ég tel að það sé í raun og veru ágæt sátt um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það er sátt um það innan stofnunarinnar sjálfrar og ég tel að það geti orðið ágæt sátt um það líka úti á markaðnum. Mér finnst að okkur hafi tekist þokkalega vel að verða við þeirri gagnrýni og þeim núningi sem hefur verið gagnvart stofnuninni og þeim kærum sem hafa verið til meðhöndlunar hjá samkeppnisyfirvöldum. Ég geri mér því vonir um að þokkaleg sátt geti ríkt um þessi mál til framtíðar og bendi þá sérstaklega á markmiðsgreinina þar sem það er stafað að markmið laganna sé að tryggja að ávallt séu til staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland. Það er meginmálið að við stöndum vörð um að þetta hlutverk stofnunarinnar sé tryggt, sem síðan er nánar skilgreint í 4. gr.

Hv. þm. Mörður Árnason nefndi sérstaklega gjaldskrána og ákvæði í 7. gr. Ég tel ástæðu til að nefndin skoði þetta sérstaklega því að mér sýnist alveg hárrétt hjá þingmanninum að 1. töluliðurinn eigi ekki við þarna. Ég bið nefndina um að skoða þetta sérstaklega í sinni vinnu. Hv. þingmaður nefndi líka upplýsingafrumvarpið frá forsætisráðherra. Það liggur fyrir og bíður 1. umr. Það er mál nr. 690 og það fjallar um aðgang að upplýsingum.

Ég held að ég hafi svarað flestu sem menn nefndu hér. Hv. þm. Jón Bjarnason velti fyrir sér hvort mörg fyrirtæki ynnu á samkeppnisgrundvelli í þessum efnum. Já, það eru nokkur fyrirtæki, bæði verkfræðistofur og útgáfufyrirtæki.