132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Happdrætti Háskóla Íslands.

748. mál
[02:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mál það sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur nú talað fyrir, um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, sætir örugglega nokkrum tíðindum. Sú sem hér stendur hefur líklega tvisvar sinnum tekið þátt í umfjöllun um happdrættismál í allsherjarnefnd í sinni tíð á Alþingi. Það verður að segjast eins og er að ævinlega hefur þá komið upp umræða um þetta einkaleyfisgjald Háskóla Íslands en það hefur verið nokkuð óvinsælt í háskólanum, m.a. hafa stúdentar mótmælt því kröftuglega og hafa viljað fá þetta fé til bættrar aðstöðu í háskólanum. Sömuleiðis hafa óskir frá happdrættum SÍBS og DAS verið nokkuð háværar í þau skipti sem þessi mál hafa borið á góma í allsherjarnefnd. Ég hef sjálf haft samúð með þeim sjónarmiðum og ég fagna því að nú skuli losað um þær hömlur sem hafa verið á þessum tveimur happdrættum að geta greitt út vinninga í peningum.

Ég fagna því í sjálfu sér líka sem hér kemur fram að málið sé unnið í samráði við Happdrætti Háskóla Íslands og tel að það gefi vísbendingu um að Happdrætti Háskóla Íslands felli sig við einkaleyfisgjaldið á þessum nótum, að á það skuli vera sett hámark upp á 150 millj. kr. Ég geri þá ráð fyrir að happdrættið eygi möguleika á að auka tekjur sínar en hlutfallslega kemur einkaleyfisgjaldið ekki til með að hækka heldur jafnvel lækka.

Áform um lagasetningu sem hæstv. ráðherra orðaði í ræðu sinni hafa þó verið sett á ís í bili enda telur hæstv. ráðherra greinilega að sátt náist um þessa leið. Ég vona sannarlega að svo verði og ég lýsi því yfir hér að ég kem ekki til með að setja mig upp á móti því að þetta mál verði sent út til umsagnar núna. Ég geri ráð fyrir að það verði sett á umsagnarlista í fyrramálið í allsherjarnefnd og að hægt verði að afgreiða málið hratt og vel frá nefndinni ef um það ríkir sú sátt sem hæstv. ráðherra sagði okkur frá í ræðu sinni þegar hann fylgdi frumvarpinu úr hlaði. En ég bind vonir við að um þetta mál ríki sátt og það geti þá gengið í gegn án mikilla tafa.